Neyðarlúgan lokuð í allan dag

Sýni tekin í fjörunni við Faxaskjól.
Sýni tekin í fjörunni við Faxaskjól. mbl.is/Kristinn Magnússon

Neyðarlúgan við skólpstöðina í Faxaskjóli, þar sem mikið magn óhreinsaðs skólps flæddi út í sjó, er niðri og verður lokuð í allan dag. Samkvæmt upplýsingum frá Veitum er verið að skoða þá möguleika sem eru í stöðunni og verið að setja upp bráðabirgðabúnað. Á meðan er lúgan lokuð. Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur var gert kunnugt um bilunina 19. júní en síðan hafa viðgerðir ekki alfarið gengið samkvæmt áætlun.

„Neyðarlúgan verður ekki tekin upp í dag og við erum bara að ráða ráðum okkar um framhaldið,“ segir Ólöf Snæhólm, upplýsingafulltrúi Veitna, í samtali við mbl.is. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur tekur sýni úr sjó á svæðinu og fylgist með hvort hætta sé á mengun.

Stjórn OR greint frá biluninni

Á stjórnarfundi Orkuveitu Reykjavíkur sem fram fór 19. júní var stjórn gert kunnugt um bilunina. „Það var lagt fram minnisblað um umhverfismál til stjórnarinnar þar sem greint var frá því að það væri bilun í Faxaskjóli þarna um miðjan júní,“ segir Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, í samtali við mbl.is.

Minnisblaðið var dagsett 15. júní en samkvæmt því stóð til að verkinu lyki föstudaginn  16. júní sem ekki hafði gengið eftir.

„Það þurfti að fara í sérsmíði á búnaði við lokuna og hún var tilbúin til niðursetningar aftur mánudaginn 19. en af því að það stóð ekki nógu vel á sjávarföllum var beðið með það til þriðjudagsins 20. júní, þá fór hún niður,“ segir Hólmfríður.

Þegar neyðarlúgan var sett niður að viðgerðum loknum kom í ljós að sjór streymdi enn inn í stöðina. Liðu þá nokkrir dagar en 26. júní var hafist handa við að stilla lúguna og í framhaldi voru gerðar prófanir á virkni hennar. Kom þá í ljós að lúgan virkaði ekki sem skyldi og þurfti því að taka hana margsinnis upp til að framkvæma á henni stillingar. Á þeim tíma hefur ýmislegt verið reynt til að fá lúguna til að virka sem skyldi en ekki tekist að því er greint var frá á vef Veita fyrir helgi.

Undrast vinnubrögð borgarstjóra

Í samtali við mbl.is í gær sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, að Kjartan Magnússon, sem á sæti í stjórn OR, hefði verið eini borgarfulltrúinn sem hefði vitað um málið. Þessu vísaði Kjartan á bug í samtali við mbl.is í gær og kvaðst hafa fyrst heyrt um málið í fjölmiðlum eins og aðrir.

Áréttar Kjartan í samtali við mbl.is í dag að hann hafi vitað um fyrri bilunina, miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir um málið á stjórnarfundinum 19. júní, en hann hafi ekki vitað af seinni biluninni sem kom í ljós 26. Í raun sé um að ræða tvö mál.

Undrast Kjartan því ummæli borgarstjórans og segir hann fara undan flæmingi en hafi í fyrstu forðast að ræða málið við fjölmiðla. „Mér finnst ómerkilegt af borgarstjóra að gera þetta svona. Að vera fyrst á flótta undan fjölmiðlum og reyna síðan að klína þessu á borgarfulltrúa minnihlutans,“ segir Kjartan. 

„Þá eru hans fyrstu viðbrögð að reyna að bjarga eigin skinni og hálfpartinn að gefa í skyn að ég hafi leynt upplýsingum. Auðvitað getur það komið fyrir að hann eins og aðra að hann sé ekki nægilega upplýstur en hann er náttúrlega æðsti embættismaður borgarinnar og skipar þrjá stjórnarmenn sjálfur, þar á meðal stjórnarformanninn, og hann er væntanlega í einhverju sambandi við þá,“ segir Kjartan. 

Fráveitudælustöðin í Faxaskjóli.
Fráveitudælustöðin í Faxaskjóli. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Hallmundur Kristinsson: Shit
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert