Bíða eftir að íbúinn nái bata

Samkvæmt heimildum mbl.is er um að ræða sama hús og …
Samkvæmt heimildum mbl.is er um að ræða sama hús og var vettvangur Stokkseyrarmálsins svokallaða. mbl.is/Jóhann Óli Hilmarsson

Lögreglan á Suðurlandi bíður þess að íbúi einbýlishússins á Stokkseyri sem gjöreyðilagðist í bruna aðfaranótt sunnudags útskrifist af sjúkrahúsi svo unnt sé að taka skýrslu. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu má búast við niðurstöðum frá tæknideild lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu um eldsupptök í þessari eða næstu viku. 

Greint hefur verið frá því á mbl.is að húsið, sem er frá ár­inu 1910, sé gjör­ónýtt. Föst bú­seta var í hús­inu en íbúa tókst að koma sér út áður en viðbragðsaðila bar að garði. Kon­an var flutt á slysa­deild í Reykja­vík vegna gruns um reyk­eitrun. 

Við erum að bíða eftir þessari tæknirannsókn, ég vonast til þess að þetta klárist í vikunni,“ segir Þorgrím­ur Óli Sig­urðsson, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á Suður­landi. Hann segir að niðurrif á húsinu sé hafið, koma þurfi rusli í burt áður en veður versni. 

Íbúi hússins, Andrea Kristín Unnarsdóttir, setti inn færslu á Facebook eftir að hafa verið flutt á sjúkrahús eftir brunann. Þar segir hún að kveikt hafi verið í húsinu á meðan hún svaf. Þá hafi verið gripið í hana og vökva skvett á bak hennar en hún hafi náð að stökkva á fætur og hlaupa út áður en húsið varð alelda. 

Þorgrímur segir að lögregla hafi tekið nokkrar skýrslur af fólki sem kemur að málinu en bíður eftir að Andrea útskrifist af sjúkrahúsinu og sé fær í skýrslutöku. 

„Það verður að bíða þangað til fólk er orðið fært í skýrslutöku.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka