Besta leiðin til að útrýma eigin fordómum

Sindri við eitt minnsmerkjanna í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu.
Sindri við eitt minnsmerkjanna í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu. Ljósmynd/Sindri Antonsson

Ævintýraþrá og áhugi á framandi menningu voru meginhvatar þess að Sindri Antonsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, heimsótti Norður-Kóreu. Fjallað er um heimsókn Sindra til þessa lokaða ríkis á vef Umhverfisstofnunnar, en Sindri fór þangað sem ferðamaður í sumarfríi sínu fyrir skemmstu.

Hann er einn fárra Íslendinga sem heimsótt hafa Norður-Kóreu.

„Ferðalög eru ein besta leiðin til að útrýma eigin fordómum og öðlast marktæka vitneskju,“ er haft eftir Sindra í greininni.

Frá Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu.
Frá Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu. AFP

Ekki bækur eða efni sem telst ögrandi

Sindri pantaði ferðina í gegnum erlenda ferðaskrifstofu, en áskilið er að ferðamenn ferðist saman í hópi með leiðsögumanni sem hefur fengið samþykki yfirvalda og eru ferðalangar ekki frjálsir ferða sinna á meðan þeir dvelja í landinu. Þeir mega ekki hafa með sér bækur eða rafrænt efni sem talist getur ögrandi eða óviðurkvæmilegt að mati yfirvalda og eins má telja líklegt að Facebook-síður ferðamanna séu skoðaðar áður en landvistarleyfi er veitt.

„Það vakti athygli Sindra þegar norðurkóreska ríkisflugvélin lenti á flugvellinum í Pyongyang eftir flugtak frá Kína, að engin önnur flugvél var á ferðinni við flugstöðina. Allur farangurinn hans var tekinn og þaulskoðaður, allt innihald símans hans rannsakað. Svo lá leiðin upp á risastórt hótel sem stóð alautt fyrir utan nokkur herbergi,“ segir í greininni.

Hótelið sem Sindri gisti á var það sama og bandaríski námsmaðurinn Otto Warmbier gisti á. Hann rataði nýlega í fréttirnar er hann lést eftir eins og hálfs árs dvöl í fangabúðum í Norður-Kóreu. Warmbier heimsótti hæð starfsmanna á hótelinu og tók þar niður mynd af háttsettum leiðtoga er hann var undir áhrifum áfengis og var í kjölfarið dæmdur til fangavistar, sem síðar leiddi til dauða hans. Norðurkóresk yfirvöld hafa sagt andlát hans „ráðgátu“ en Bandaríkjamenn eru á annarri skoðun.

Konur klæddar í þjóðbúning Norður Kóreu veifa blómum.
Konur klæddar í þjóðbúning Norður Kóreu veifa blómum. AFP

Haft er eftir Sindra að honum hafi snemma í ferðinni orðið ljóst að erfitt gæti reynst að greina milli þess sem væri raunverulegt og þess sem var sett á svið. Hótelið hafi þó verið flott og ýmiskonar afþreying í boði. „Svo var þarna kona sem situr allan daginn á stól með borðtennisspaða í hendi ef ske kynni að ferðamann vanti einhvern að spila við.“

Stórkostleg minnismerki blöstu við ferðamönnunum og farið var með þá í miðbæinn og torgið skoðað þar sem boðið er reglulega upp á stóru hermannagöngurnar og hersýningarnar.

„Íbúarnir voru vinalegir og krakkarnir veifuðu okkur útlendingunum, brostu og hrópuðu: Hello! Kannski var þetta í fyrsta skipti sem þeir sáu útlendinga,“ segir Sindri.

Tvær tegundir af glæpum

Hjá leiðsögumanni sínum lærðu þau svo að í Norður-Kóreu séu tvær tegundir af glæpum.

„Þessir venjulegu glæpir og svo aftur þessir pólitísku glæpir,“ segir hann. „Leiðsögumaðurinn okkar sagði að pólitískir glæpir fælust sem dæmi í því að tala illa um stjórnarherrana eða ríkið eða boða trú eða annað sem er bannað. Það eru sem sagt tvær tegundir af glæpum, tvær tegundir af föngum og tvær tegundir af fangelsum. Pólitísku fangelsin eru sögð miklu verri en hin fangelsin, algjör hryllingur.“

Íbúar Pyongyang hjóla framhjá minnismerki um leiðtoga Norður-Kóreu.
Íbúar Pyongyang hjóla framhjá minnismerki um leiðtoga Norður-Kóreu. AFP

Skoðanastýringin í landinu sé að sínu mati m.a. til marks um hve einræðisherrarnir séu helteknir af fortíðinni. „Ég fann ekki fyrir því að íbúarnir væru heilaþvegnir, þeir vita hvar þeir standa í samanburði við önnur lönd, þeir leita upplýsinga út fyrir landsteinana. Mér fannst eins og almenningur væri alls ekki á sömu línu og yfirvöld.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert