Þúsund Laugardalslaugar af skólpi

Neyðarlokan losuð svo unnt sé að gera við hana.
Neyðarlokan losuð svo unnt sé að gera við hana. mbl.is/Golli

Um 15 þúsund rúmmetrar af óhreinsuðu skólpi renna út í sjó við dælustöðina í Faxaskjóli í dag þegar neyðarlúgan var opnuð í morgun. Unnið er að því að gera við neyðarlokuna. Óhreinsað skólp hefur runnið út í sjó í 18 daga í júní og júlí eða um tæplega milljón rúmmetrar í Faxaskjóli. Þetta jafngildir um 1.000 Laugardalslaugum það er að segja aðallauginni sem tekur um þúsund rúmmetra

„Það sem við getum gert núna, fyrir utan að gera við neyðarlokuna, er að upplýsa fólk um stöðuna,“ segir Inga Dóra Hrólfs­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Veitna ohf., spurð til hvaða ráðstafanna verði gripið. Haldið verður áfram að hreinsa fjöruna eins og gert var í síðustu viku. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur heldur áfram að fylgjast með og taka sýni til að fylgjast með saurkólígerlamengun á svæðinu.

Skilti sett upp við Faxaskjól
Skilti sett upp við Faxaskjól mbl.is/Golli

„Eins og kerfið er hannað er ekki hægt að komast alveg hjá því að óhreinsað skólp renni út í sjó þegar gert er við neyðarlokuna,“ segir Inga Dóra spurð hvort hægt sé að bæta kerfið með þeim hætti að hægt sé að koma í veg fyrir að óhreinsað skólp renni út í sjó þegar viðgerðir standi yfir. Slíkt yrði gríðarlega kostnaðarsamt. Ekki sé mögulegt að breyta eingöngu dælustöðinni í Faxaskjóli þar sem hún er hluti af stærra kerfi sem allt þarf að vinna saman. „Þá þarf að endurskoða stærri hluta kerfisins og kostnaður við það gæti hlaupið á milljörðum,“ segir Inga Dóra.

Gripið er til neyðarlosunar þegar stórar bilanir verða í skólpdælustöðinni til að koma í veg fyrir hættu á að skólp flæði inn til íbúa.

Í þessu sam­hengi bend­ir hún á að nú sé unnið að því að skoða hvort hægt sé að gera minniháttar breytingar á dælustöðvum fráveitukerfisins til að fækka þeim skipt­um sem neyðarlúg­an yrði opnuð. „Þetta þarf að skoða vandlega,“ seg­ir Inga Dóra. 

Ekki mælt með sjósundi í dag og næstu daga 

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur ráðleggur sjósundsfólki, siglingafólki og öðrum að vera ekki nærri dælustöðvum við Skeljanes og Faxaskjól í dag og á morgun á meðan óhreinsuðu skólpi rennur út í sjó við Faxaskjól. Þetta kemur fram í tilkynningu.  

Heilbrigðiseftirlitið fylgist með og tekur daglega sýni meðan þetta ástand varir og birtir niðurstöður gerlarannsókna þegar þær berast, segir jafnframt í tilkynningu. 

Neyðarlokan losuð.
Neyðarlokan losuð. mbl.is/Golli
Dælustöðin við Faxaskjól
Dælustöðin við Faxaskjól mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert