Veitingastaðir urðu fyrir tölvuárás

Gögnin voru tekin í gíslingu.
Gögnin voru tekin í gíslingu.

„Sölukerfinu var bara stolið frá okkur,“ segir Þórir Björn Ríkharðsson, eigandi veitingastaðanna Gandhi og Skólabrúar í miðborg Reykjavíkur, en tölvukerfi staðanna varð fyrir árás í fyrradag. Árásin lýsti sér þannig að gögnunum í tölvukerfinu var rænt og lausnargjalds krafist fyrir aðgang að þeim.

„Það var þannig að þegar við ætluðum að fara að nota sölukerfið þá hafði einhver, líklegast erlendir aðilar, tekið og lokað fyrir allt,“ segir Þórir í samtali við Morgunblaðið í gær. Tölvuárásin hefur verið kærð til lögreglu.

„Það var í raun enginn skaði nema við gátum ekki notað sölukerfið í einn dag. Við erum búin að vera síðan hálfátta í morgun að koma kerfinu upp aftur á öðrum tölvum. Það verður ófullkomið í kvöld en 100% á morgun,“ sagði Þórir. Kerfið ætti því að vera komið í gott lag í dag.

Þórir hugðist í fyrstu stökkva til og greiða tölvuþrjótunum lausnargjaldið. „Mér var ráðlagt að gera það ekki þar sem þeir skila jafnvel engu þó þeir fái borgað.“

Hann segir að árásin hafi komið honum virkilega á óvart. „Við vorum með allar vírusvarnir í gangi og ég taldi mig alveg 100% öruggan. Það er orðið fullflókið að reka veitingahús, þegar maður þarf að vera að vara sig á erlendum tölvuþrjótum.“

Mikilvægt að vera meðvitaður

Hlynur Óskar Guðmundsson, sérfræðingur í tölvuöryggi hjá íslenska tölvuöryggisfyrirtækinu Syndis, segir að upp á síðkastið hafi svokallaðir „ransomware“-vírusar, sem ræna tölvukerfum og krefja notendur um lausnargjald, orðið vinsælli hjá tölvuþrjótum.

„Nýlega hafa sprottið upp nokkur svona tilvik innan íslenskra fyrirtækja og fyrir nokkrum mánuðum var töluvert um að fyrirtæki væru að lenda í þessu um allan heim,“ segir Hlynur Óskar, en stórfyrirtæki eru oftast skotmörk árása sem þessara.

Hann segir fólk þurfa að hafa varann á þegar það opnar viðhengi eða tengla sem berast í tölvupósti. „Vanalega kemst þetta inn í fyrirtæki ef starfsmaður opnar viðhengi í tölvupósti eða ýtir á einhverja smitaða slóð. Svo þarf auðvitað alltaf að passa að tölvukerfin séu með allar þær nýjustu öryggisuppfærslur sem eru í boði,“ segir Hlynur Óskar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert