Þurfti að stöðva brotahrinu mannsins

Maðurinn hefur verið í haldi lögreglunnar frá því í lok …
Maðurinn hefur verið í haldi lögreglunnar frá því í lok mars. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hæstiréttur staðfesti í gær framlengingu á gæsluvarðhaldi yfir karlmanni á fimmtugsaldri sem ákærður hefur verið fyrir fjöl­mörg svik á leigu­markaði. Maður­inn aug­lýsti hús­næði til leigu á bland.is en var ekki rétt­mæt­ur eig­andi íbúðanna og hafði þar með fé af fólki sem var í erfiðri aðstöðu vegna ástands á leigumarkaði. Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að um sé að ræða brotahrinu sem þurfti að stöðva og því sé nauðsynlegt að maðurinn sæti áfram gæsluvarðhaldi, en hann hefur setið inni síðan hann var handtekinn í lok mars.

„Svo virðist sem skipulega hafi verið gengið til verks af hálfu ákærða,“ segir í úrskurðinum og vísað er til þess að hann hafi verið í tölvu-, net- og símasambandi við kærendur í málinu þar sem hann hafi beitt blekkingum. Þannig hafi hann meðal annars lofað endurgreiðslum sem ekkert varð af.

Telur lögreglan sig hafa sterkan rökstuddan grun um að maðurinn hafi haft fé af fjölda fólks með ólögmætum og refsiverðum hætti. „Um sé að ræða fjársvika- og fjárdráttarbrot sem beinist að fólki sem oft hafi verið í erfiðri aðstöðu vegna erfiðs leigumarkaðar. Að mati lögreglustjóra sé um að ræða brotahrinu sem þurfi að stöðva og því sé nauðsynlegt að ákærði sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur liggur fyrir í máli hans. Tekur lögreglustjóri sérstaklega fram að ákærði hafi áður komið við sögu lögreglu í tengslum við fjársvik og hann hlotið dóma vegna fjársvika, bæði hér á landi og í Danmörku,“ segir í úrskurðinum.

Þá er vísað til brotaferils mannsins á undanförnum vikum og mánuðum og að það sé mat lögreglunnar að yfirgnæfandi líkur séu á að maðurinn muni halda brotastarfsemi sinni áfram fari hann frjáls ferða sinna. Aðalmeðferð í máli mannsins fer fram um miðjan ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert