Á HM þrátt fyrir svakalega byltu og MS-sjúkdóm

Fáir reiknuðu með að knapinn Svavar Hreiðarsson og hryssan Hekla myndu komast á HM í Hollandi í ágúst eftir að hafa dottið illa í júní. Svavar hlaut miklar blæðingar í vöðvum en hann náði þó takmarkinu og er á leið til Hollands til að keppa með landsliðinu í hestaíþróttum á heimsleikum íslenska hestins í Hollandi 7. ágúst til 13. Hann er jafnframt fyrsti landsliðsknapinn með MS-sjúkdóminn.

„Ég held að það hafi verið búið að afskrifa okkur eftir byltuna og það kom náttúrlega upp sá tímapunktur þar sem ég hélt að þetta væri búið,“ segir Svavar sem mun keppa í fyrsta skipti fyrir Íslands hönd á HM þar sem draumurinn er að verða heimsmeistari. Svavar og Hekla keppa í 250 metra skeiði, 100 metra skeiði og gæðingaskeiði. 

Svavar dregur ekki úr því að MS-sjúkdómurinn, sem hann greindist með sem ungur maður, hái honum í hestamennskunni en Svavar hefur misst sjón á öðru auga og tapað töluverðu af hreyfigetu. Hvernig tekst hann á við þær áskoranir?

„[Með því] að vera léttklikkaður bara. Ég reyni að velta mér sem minnst upp úr þessu. Þó þetta sé að trufla mig þá er það bara svoleiðis, það verður bara að hafa það,“ segir Svavar.

Vinir og vandamenn Svavars hafa sett af stað söfnun til að styrkja Svavar í ferðalaginu sem verður kostnaðarsamt. Söfnunin gengur vel og stutt er í að takmarkinu verði náð en hér er hægt er að leggja málefninu lið.

Í myndskeiðinu er rætt við Svavar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert