Lítið um blóð í bankanum

Blóðbankinn biðlar til fólks að muna eftir því að gefa …
Blóðbankinn biðlar til fólks að muna eftir því að gefa blóð yfir sumartímann. Mikið af blóði hefur farið út í sumar og vantar nú blóð í alla flokka. mbl.is/Ómar Óskarsson

Blóðbankinn leitar blóðgjafa í öllum blóðflokkum til þess að anna mikilli eftirspurn. „Við þurfum að minna blóðgjafa á okkur núna,“ segir Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen, forstöðumaður blóðsöfnunar hjá Blóðbankanum. Mikil notkun blóðs veldur því að blóð vantar í alla flokka.

Jórunn segir að alltaf sé erfiðara að fá blóðgjafir yfir sumartímann. Fólk er í fríi og á ferðinni og veit ekki hvar á landinu það getur gefið blóð. Blóðbankinn stendur fyrir blóðsöfnun á sjúkrahúsinu á Akureyri og „þangað geta allir blóðgjafar farið,“ segir Jórunn.  

 Um er að ræða meiri notkun á blóði en gert er ráð fyrir þar sem ekki eru skipulagðar aðgerðir eða fleira því um líkt. Engin sérstök ástæða er það að baki en Jórunn segir það velta á ýmsu. Möguleiki er á því að um sé að ræða fleiri sjúklinga en venjulega á sumrin.

Jórunn segir að á þessum tíma, með verslunarmannahelgina framundan, séu vanir blóðgjafar mjög mikilvægir en auk þess hvetja þau alla til þess að koma og gefa blóð. Opið er í Blóðbankanum á Snorrabraut til klukkan 19.00 og til klukkan 15.00 á Akureyri í dag og næstu daga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert