Segja dauðann bíða sín í heimalandinu

Sunday, Mary litla og Joy.
Sunday, Mary litla og Joy. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er dauður maður ef ég fer aftur til Nígeríu. En þetta snýst ekki um mig heldur dóttur mína. Ég vil að hún fái tækifæri á betra lífi. Ef stjórnvöld senda okkur til baka þá munu þau leggja líf okkar í rúst.“

Þetta segir Sunday Iserien, 32 ára gamall nígerískur hælisleitandi. Hann hefur búið hér á landi ásamt eiginkonu sinni Joy Lucky og átta ára gamalli dóttur þeirra Mary í eitt og hálft ár. Hingað komu þau í leit að betra lífi eftir að hafa upplifað ofbeldi, fátækt, hótanir og gríðarleg áföll í heimalandinu og á Ítalíu þangað sem þau flúðu fyrir níu árum. Þar var Joy fórnarlamb mansals, en Sunday hafði upplifað pólitískar ofsóknir í heimalandinu.

Á Íslandi hafa þau upplifað öryggi í fyrsta sinn í áratug, en nú hefur hins vegar verið ákveðið að senda þau aftur til heimalandsins. Hjónin biðla til almennings og ríkisins að skoða málið og leyfa þeim að vera áfram hér á landi. Þeirra bíði ekkert nema dauði í heimalandinu. Blaðamaður mbl.is settist niður með fjölskyldunni og fékk að heyra sögu þeirra.

Þegar blaðamaður drepur á dyr á heimili fjölskyldunnar í Njarðvík koma mæðgurnar Joy og Mary til dyra. Fjölskyldan býr í íbúð á vegum félagsmálayfirvalda í Reykjanesbæ og hefur komið sér vel fyrir. Sunday er á leið heim úr vinnu með strætó, en hann hefur unnið hjá byggingafyrirtæki í Hafnarfirði síðastliðið eitt og hálft ár.

Mary litla er kát í bragði og þykir augljóslega ekki leiðinlegt að fá heimsókn. Joy er hins vegar öllu alvarlegri. Henni líður ekki vel. Á meðan beðið er eftir að Sunday komi heim byrjar Joy að segja blaðamanni sögu sína.

Var sagt að hún myndi starfa við hárgreiðslu og barnapössun

Joy er alin upp í Nígeríu þar sem hún bjó til tvítugsaldurs. Hún er trúrækin og sótti reglulega kirkju í Lagos, stærstu borg Nígeríu, þegar hún bjó þar. Eitt sinn kom prestur í kirkjunni að máli við hana og bauð henni að hitta mann sem átti að geta útvegað henni vinnu í Evrópu. Að sögn prestsins var um að ræða vinnu við hárgreiðslu og barnapössun. Joy treysti prestinum og þótti boðið hljóma spennandi. Skömmu síðar hitti hún manninn, sem bauðst til að leggja út fyrir ferðakostnaðnum til Evrópu.

Þegar Joy hafði samþykkt boðið fór maðurinn með hana í hús þar sem neglur hennar og hár var klippt. Hún lýsir athöfninni sem niðurlægjandi, þar sem skapahár hennar voru meðal annars fjarlægð og hún sett í bað og þvegin. Athöfnin hafi verið hluti af vúdúgöldrum, „black magic“ eins og hún kallar það. Slíkar athafnir eru þekktar meðal fórnarlamba vændis, og eru gerðar til að hræða fórnarlambið. Ef það óhlýðnist muni einhver í fjölskyldu þess deyja.

Stungin þegar hún neitaði að fara í fóstureyðingu

Stuttu síðar lagði Joy af stað í ferðalag landleiðina til Líbýu þaðan sem hún sigldi yfir Miðjarðarhafið til Ítalíu. Í Líbýu kynntist hún Sunday. Þau eyddu mánuði saman þar áður en þau komust yfir Miðjarðarhafið, og felldu þar hugi saman. Sunday komst svo til Ítalíu á undan Joy, en hún vissi ekki hvert á Ítalíu hann hefði farið og gat með engu móti komist í samband við hann. Þegar hún komst svo til landsins nokkru síðar áttaði hún sig á því að hún bæri barn undir belti. Hún átti ekki eftir að hitta Sunday aftur fyrr en þremur árum síðar.

Við komuna til Ítalíu var Joy flutt í hús í Napólí, þar sem hún fékk að hvílast. Nokkrum dögum seinna var henni tjáð að hún væri hvorki að fara að vinna við hárgreiðslu né barnapössun. Hún væri komin til Ítalíu til að gerast vændiskona.

Næstu fjórir mánuðir voru hræðilegir að sögn Joy. Hún var ólétt af Mary en neydd til að selja sig á götum Napólí á hverjum degi. Var henni tjáð að hún skuldaði 50 þúsund evrur fyrir ferðalagið til Ítalíu, og það þyrfti hún að borga upp með vændinu.

Þegar upp komst um óléttu Joy átti að neyða hana í fóstureyðingu. Þegar hún neitaði því var hún stungin í höndina með hníf. Joy sýnir blaðamanni ör eftir stungusárið, sem má sjá greinilega á handabaki hennar. Þá lyftir hún upp fætinum og bendir blaðamanni á annað ör á fæti sínum, þar sem hún var einnig stungin.

Sunday í vinnunni.
Sunday í vinnunni. Ljósmynd/Ragnheiður Freyja

Móðir hennar myrt

„Ég gat ekki meir eftir þetta og ákvað að flýja,“ segir Joy, en eftir að hafa verið neydd til að selja sig í fjóra mánuði stakk hún af. Hún leitaði hjálpar hjá ítölskum hjálparsamtökum fyrir fórnarlömb mansals og þar var hún hvött til að leggja fram kæru hjá lögreglu. Hún fékk einnig hjálp við að komast á spítala þar sem hún eignaðist Mary.

Eftir að hún flúði vændið fór hún hins vegar að fá hótanir. „Mér var sagt að ef ég borgaði ekki 50 þúsund evra skuldina mína yrði ég drepin og fjölskylda mín líka,“ segir hún. Joy sýnir blaðamanni mynd af konu sem hún kallar Söndru, sem stóð á bak við vændissöluna ásamt manni sem hún kallar Tony. Hún segir þau hafa hótað sér ítrekað og staðið á bak við árásir á móður og systur hennar. Móðirin lét lífið í árásinni og systir hennar missti sjónina.

Keyrði stjórnmálamann sem var myrtur

Sunday hafði komið til Ítalíu af öðrum ástæðum. Hann er nú kominn heim úr vinnunni og sest niður með blaðamanni til að segja sína sögu.

Sunday segist hafa upplifað pólitískar ofsóknir í heimalandinu og óttaðist um líf sitt. Sunday hafði starfað sem bílstjóri formanns Demókrataflokks fólksins (PDP), sem var myrtur. Var Sunday að keyra manninn til fundar þegar ráðist var á bílinn af hópi árásarmanna. Drógu þeir Sunday út úr bílnum og skutu svo formanninn til bana áður en þeir kveiktu í honum og bílnum. Sunday tókst að flýja á nálægan sveitabæ og loks til föðurbróður síns þar sem hann faldi sig.

Höfðu deilur staðið yfir á milli PDP-flokksins og Aðgerðaþingflokksins (ACN) sem enduðu með morðinu. Í kjölfarið lýsti nígeríska lögreglan eftir Sunday þar sem talið var að hann hefði komið að ódæðisverkinu. Sunday óttaðist hins vegar að vera drepinn af árásarmönnunum sem myrtu formanninn.

Sunday sýnir blaðamanni frétt úr dagblaðinu Sunday Observer þar sem fjallað er um að lýst hafi verið eftir honum eftir ódæðisverkið. 

Frændi Sunday bjó í hverfi þar sem meirihlutinn voru múslimar og þar sem Sunday er kristinn var honum ráðlagt að halda sig innandyra. Eftir að hafa dvalið hjá frændanum í nokkra daga ákvað hann hins vegar að flýja þar sem hann óttaðist að árásarmennirnir myndu finna hann. Á þeim tíma réðust hins vegar vígamenn á vegum hryðjuverkasamtakanna Boko Haram inn í hverfið og drápu meðal annars föðurbróður Sunday og son hans. Sunday og hinn sonur frændans komust undan og leituðu skjóls í kirkju. Þaðan flúði hann eftir að presturinn í kirkjunni gaf honum örlítinn pening og fór sömu leið og Joy; landleiðina til Líbýu og sjóleiðina til Ítalíu.

Betluðu og sváfu á lestarstöðvum

Leiðir Joy og Sunday lágu aftur saman á Ítalíu árið 2011, þremur árum eftir að þau hittust í Líbýu. Við tóku erfið ár hjá fjölskyldunni. Þau bjuggu við erfiðan kost á Ítalíu; þurftu að betla til að eiga fyrir mat og sváfu yfirleitt á lestarstöðvum.

Þau reyndu eitt sinn að snúa til baka til heimalandsins. Það var árið 2014 eftir árásina á móður og systur Joy. Hugðust þau koma systurinni til bjargar, en þegar þau lentu á flugvellinum í Lagos fengu þau hins vegar þær fréttir að þau yrðu drepin ef Sandra eða einhver sem hún þekkti kæmist að því að þau væru komin aftur til Nígeríu. Endaði það svo að þau dvöldu í tvær vikur á flugvellinum í Lagos en komust svo aftur til Ítalíu, með hinni erfiðu landleið til Líbýu og sjóleið til Ítalíu. Í þetta sinn voru þau með barnunga Mary með sér og segir Joy að hræðilega erfitt hafi verið að taka barnið með þessa leið. Þegar til Ítalíu var komið hélt harðneskjulífið áfram.

Fjölskyldan vill búa hér á landi.
Fjölskyldan vill búa hér á landi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Söfnuðu í tvö ár til að komast til Íslands

„Mig langaði í betra líf svo ég fór að leita að leiðum til þess. Ég komst í tölvu og leitaði að góðum löndum til að búa í á Google,“ segir Sunday, sem fann loks Ísland í gegnum leitarvélina. Næstu tvö ár gerði hann það sem hann gat til að safna fyrir ferð til Íslands. Loks gat hann fengið lánað fyrir restinni af ferðinni og ákvað fjölskyldan því að slá til og koma hingað til lands.

Við komuna til landsins sóttu þau um hæli og var úthlutað húsnæði. Í fyrsta sinn í langan tíma upplifðu þau öryggi og ákváðu að hér á landi vildu þau setjast að. Mary litla komst inn í skóla í fyrsta sinn á ævinni og Sunday fékk vinnu.

Vill borga til baka til samfélagsins

„Ég gat ekki hugsað mér að sitja bara heima og gera ekkert, og þegar mér var sagt frá nýjum lögum sem gerðu flóttamönnum kleift að starfa hér á landi fór ég að sækja um vinnur,“ segir hann og vísar þar til þess möguleika sem flóttamenn eiga á að sækja um atvinnuleyfi. Sunday fékk loks vinnu hjá byggingafyrirtæki í Hafnarfirði þar sem hann hefur starfað síðastliðið eitt og hálft ár. Í viðtali við mbl.is í síðustu viku sagði vinnuveitandi hans að hann væri hörkuduglegur og legði sig 110% fram í vinnu. Sunday tekur strætó í vinnuna alla daga og hefur aldrei mætt seint né verið veikur að sögn vinnuveitanda hans.

Joy bendir á að Sunday hafi borgað skatta hér á landi síðan hann byrjaði að vinna og segir að sér finnist ósanngjarnt að nú eigi að senda þau úr landi. Sunday segir að fyrir honum sé það bara gott að geta borgað til baka til samfélagsins, og hann vilji fá að gera það áfram. „Ég vil ekki lifa á kerfinu hér. Ég vil vinna og borga til baka til samfélagsins. Það er mikill heiður að fá að gera það og ég vil vera þátttakandi í íslensku þjóðfélagi,“ segir hann og heldur áfram:

„Ef stjórnvöld vilja ekki að við séum í íbúð á vegum félagsmálayfirvalda þá skal ég vinna meira og borga leigu. Hingað til hafa allir okkar peningar farið í lögmannakostnað og að lifa,“ segir hann. „Við viljum bara fá að vera hér. Dóttir okkar á skilið að fá að vera í skóla og eiga gott líf.“

Segist ætla að drepa Joy

Hjónin sóttu um hæli hérlendis og um dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Í apríl komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að fjölskyldan skyldi send aftur til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Kærunefnd útlendingamála komst í kjölfarið að því að þau væru í of viðkvæmri stöðu til þess að vera send aftur til Ítalíu og skyldu fá efnislega meðferð hér. Að lokinni annarri meðferð Útlendingastofnunar var niðurstaðan sú að fjölskyldan gæti snúið aftur til heimalands síns og hefur kærunefnd útlendingamála staðfest þá ákvörðun. Það hefur því verið ákveðið að vísa þeim úr landi og senda þau til Nígeríu.

Sunday og Joy kveðast ekki hafa borðað né sofið síðustu vikur af ótta við að vera send úr landi á hverri stundu. Augljóst er að þau glíma bæði við afleiðingar þeirra áfalla sem þau hafa lent í, en á meðan viðtalinu stendur stekkur Sunday tvisvar sinnum út í glugga þegar heyra má í bíl fyrir utan húsið. Þá segist Joy fyllast mikilli hræðslu þegar bankað er á dyr hjá þeim eða hún heyrir eitthvað fyrir utan húsið.

Hjónin eru handviss um að þeirra bíði ekkert nema dauði í Nígeríu. Joy segist enn fá hótanir og sækir síma sinn til að sýna blaðamanni hvað gengið hefur á að undanförnu. Opnar hún skilaboð frá manni sem hefur bæði sent henni textaskilaboð, hljóðbrot og myndbönd, nú síðast fyrir nokkrum dögum. Í einu myndbandinu talar hann til Joy og segist hafa frétt af því að hún sé nú fljótlega aftur á leið til Nígeríu. Segist hann ætla að drepa hana, eins og hann drap móður hennar. Í öðru myndbandi má sjá látna konu liggja í blóði sínu á jörðinni.

Óttast ekki dauðann

Joy segist óttast mjög um líf sitt í Nígeríu vegna hótananna. Segir hún mennina hafa fundið sig á Facebook og nú fái hún ekki frið þar sem frést hafi að senda eigi fjölskylduna aftur til Nígeríu. Sunday segir að hann verði einnig drepinn ef hann fari aftur til Nígeríu. Árásarmenn á vegum stjórnmálaafla bíði enn eftir að geta banað honum.

„Ég óttast samt ekki dauðann. Ég hef misst marga vini og ættingja sem hafa verið myrtir. Á mínum aldri er ekki óvenjulegt að hafa verið drepinn í Nígeríu. En ég er ekki að hugsa um mig heldur dóttur mína. Hún á betra skilið en að vera send til lands sem hún hefur aldrei dvalið í, þar sem líf beggja foreldra hennar er í hættu,“ segir hann.

Joy tekur í sama streng og bætir við að Mary sjálf eigi ekki von á góðri meðferð við komuna til Nígeríu. Hún verði umskorin eins og aðrar ungar stelpur í landinu. „Mér líkar illa við það og ég vil ekki að stelpan mín þurfi að ganga í gegnum það,“ segir Joy, en Nígería hefur átt í langri og erfiðri baráttu við hefðina fyrir umskurði kvenna. Þá bætir hún við að þar sem Mary hefur aldrei búið í Nígeríu sé hún mun viðkvæmari fyrir ýmsum sjúkdómum sem þar ganga.

Sunday segist afar þakklátur fyrir að dóttir hans hafi fengið að ganga í skóla hér á landi, en það er í fyrsta sinn sem hún hefur farið í skóla.

Mary gengur í skóla hér á landi og talar íslensku.
Mary gengur í skóla hér á landi og talar íslensku. Mynd/Ragnheiður Freyja

Veik á líkama og sál

Joy segist vera afar veik á líkama og sál, en eftir mikið ofbeldi í vændinu og á götum úti á Ítalíu er hún bakveik, léleg í hnjánum og fótunum og á erfitt með gang. Henni hefur aldrei verið boðin aðstoð hérlendis, þrátt fyrir að fjallað sé um það í úrskurði Útlendingastofnunar að hún hafi verið fórnarlamb mansals.

Hún hefur þó sótt íslenskunámskeið hér á landi og sækir kirkju. Segist hún upplifa öryggi hér á landi, en á sama tíma má skynja reiði í röddu hennar. „Af hverju fáum við að vera hér í hátt í tvö ár, þar sem dóttir okkar er í skóla og eiginmaður minn í vinnu, ef það á svo bara að henda okkur úr landi? Þetta er ekki rétt,“ segir hún. „Ef ég hefði vitað að þetta yrði svona hefði ég aldrei komið hingað, heldur leitað annað. En nú höfum við ekki tækifæri á því heldur verðum send beint til Nígeríu og munum ekki komast annað því við eigum engan sparnað.“

Sunday snýr sér yfirvegaður að konu sinni og segir eitthvað á nígerísku sem blaðamaður skilur ekki. Hann ítrekar að þau séu afar þakklát fyrir þá hjálp sem þau hafa fengið hér á landi. Þau séu bara hrædd. „Ef það á að senda mig úr landi vil ég samt að dóttir mín fái að vera hér og eiga gott líf. Það er það eina sem ég bið um,“ segir hann.

Reyna að fá ákvörðuninni hnekkt

Aðstandendur og vinir fjölskyldunnar hafa aðstoðað fjölskylduna síðustu mánuði og reynt að vekja athygli á máli þeirra. Þau hafa sett af stað undirskriftasöfnun þar sem stjórnvöld eru hvött til að leyfa fjölskyldunni að vera hér á landi.

Hafa þau bent á 74. gr. útlendingalaga um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þar sem segir segir: „Í þeim tilvikum þegar útlendingur er staddur hér á landi og getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til, má líta til almennra mannúðarsjónarmiða þó svo að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt.“

Í áskorun þeirra til dómsmálaráðherra segir að Ísland sé land sem kveði sig standa vörð um réttindi kvenna og velferð barna og þessi niðurstaða geti ekki haldist í hendur við þau viðmið. „Við getum ekki setið aðgerðalaus og leyft þessu fram að ganga – við skorum á dómsmálaráðherra, Sigríði Á. Andersen, að skerast í leikinn og draga til baka þennan úrskurð. Jafnframt óskum við eftir því að velferðarráðuneytið komi að málinu, þar sem það varðar velferðar- og fjölskyldumál.“

Segja þau ekki vera í hættu í heimalandinu

Í ákvörðun kærunefndar útlendingamála er frásögn Sunday talin ótrúverðug. Þar segir að ekkert bendi til þess að ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana tíðkist í Nígeríu. Vísar nefndin í forsetakosningar í Nígeríu 2015 þar sem sitjandi forseti hafi í fyrsta sinn ekki hlotið endurkjör. Í kjölfarið hafi stjórnmálaflokkurinn APC tekið við stjórnartaumunum af PDPSunday segir blaðamanni að það skipti ekki máli þótt stjórnarskipti hafi orðið í landinu. Árásarmennirnir sem hafi verið á eftir honum á sínum tíma séu það enn.

Þá sýnir hann blaðamanni mynd af plakati þar sem hann er eftirlýstur. Hann hafi verið hræddur um að vera hnepptur í fangelsi ef hann gæfi sig fram við lögreglu. Algengt sé að einstaklingar í haldi lögreglu sæti ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð. Í úrskurðinum er vísað í skýrslu sérstaks talsmanns Sameinuðu þjóðanna fá 2007 þar sem fram kemur að dæmi séu um að einstaklingar séu í haldi án ákæru eða réttarhalda í allt að 10 ár.

Nefndin dregur frásögn Joy um vændið ekki í efa, en segir að nú sé hartnær áratugur síðan hún hafi verið flutt til Ítalíu í mansal. Taldi nefndin hana ekki eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum af hálfu þeirra sem ábyrg eru fyrir mansalinu. Joy vísar í hótanirnar sem hún hafði sýnt blaðamanni og segir þetta hreinlega ekki rétt. Hún verði enn fyrir stöðugum hótunum.

„Við biðjum ykkur“

Hjónin eiga fund hjá umboðsmanni barna á næstu dögum, en embættið sendi frá sér yfirlýsingu seinasta vetur þar sem stjórnvöld voru hvött til þess að vanda betur meðferð mála barna sem sótt hafa um alþjóðlega vernd hér á landi. Kemur þar fram að embættið telji of mörg dæmi væru um það hér á landi að réttindi barna í hælismeðferð séu virt að vettugi. 

Þá hyggst lögmaður þeirra hjóna setja fram endurupptökubeiðni þar sem þau leggja fram ný sönnunargögn, t.d. hótanirnar sem Joy sýndi blaðamanni. Hjónin vonast til þess að í þetta sinn fái þau náð og verði leyft að vera áfram hér á landi.

„Við biðlum til Íslendinga að leyfa okkur að vera hér áfram. Litla stelpan okkar mun ekki eiga gott líf ef við förum aftur til Nígeríu. Við biðjum ykkur. Leyfið okkur að vera hér,“ segir Sunday tárvotur.

mbl.is

Innlent »

Ferjan biluð næstu vikurnar

18:50 Breiðafjarðaferjan Baldur er biluð falla siglingar yfir fjörðinn því niður næstu þrjár til fjórar vikurnar. Ekki er ljóst hvað veldur biluninni en hana má rekja til bilunar í aðalvél skipsins. Þetta kemur fram á RÚV. Meira »

Vegir lokaðir víða um land

18:37 Vegurinn um Holtavörðuheiði er lokaður, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar. Sömu sögu er að segja af Kleifaheiði á sunnanvörðum Vestfjörðum. Hringvegurinn er lokaður frá Hrútafirði að Vatnsdal. Lokað er bæði í Öræfasveit vegna óveðurs og á Lyngdalsheiði. Meira »

Tekjurnar ekki verið lægri síðan 2008

18:37 Um leið og útflutningsverðmæti dregst saman hækkar veiðigjald og hefur í sumum tilvikum fjórfaldast. Þróunin gæti m.a. leitt til frekari samþjöppunar í greininni og hægt á endurnýjun skipa og tækja. Meira »

Skólp hreinsað hjá 90% þjóðarinnar

17:57 Að fimm árum liðnum verða 90% landsmanna tengdir skólphreinsistöð, nái þær framkvæmdir sem áætlaðar eru fram að ganga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja á Íslandi. Meira »

Tvö handtekin í tengslum við vændi

17:37 Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók karl og konu um hádegisbil í dag í þágu rannsóknar hennar á umfangsmikilli vændisstarfsemi. Meira »

Holtavörðuheiði og fleiri vegum lokað

17:25 Lögreglan á Norðurlandi vestra vekur athygli á versnandi færð á Facebook-síðu sinni en af þeim sökum er til að mynda Holtavörði heiði lokuð og skilyrði víða annars staðar í umdæminu slæm. Meira »

Þjóðveginum um Öræfasveit lokað

16:53 Þjóðvegi 1 um Öræfasveit hefur verið lokað vegna veðurs en lögreglan á Suðurlandi greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni. Hvasst er víða á landinu en áður hafði verið greint frá lokun vega á Vestfjörðum. Meira »

Ræða kynferðisofbeldi í pólitíkinni

16:54 Tæplega sex hundruð konur hafa skráð sig í hóp á samfélagsmiðlinum Facebook þar sem umræður fara fram um kynferðisáreiti og annað kynferðisofbeldi sem konur hafi orðið fyrir í íslenskum stjórnmálum í gegnum tíðina. Meira »

Íslenski hesturinn nýtur sín í nýju myndbandi

16:41 „Aðalmarkmiðið er að kynna íslenska hestinn og sýna hvers fjölhæfur hann er. Hann er vinalegur, kraftmikill, ævintýragjarn og fyrir alla,“ segir Þórdís Anna Gylfadóttir verkefnastjóri Horses of Iceland hjá Íslandsstofu um kynningarmyndband Horses of Iceland sem var frumsýnt í dag. Meira »

Flateyrarvegi lokað – víða ófært

16:15 Snjóflóð féll á Flateyrarveg, nokkru fyrir innan Flateyri, fyrir rúmlega klukkustund. Veginum hefur verið lokað en auk þess er vegurinn um Súðavíkurhlíð enn lokaður. Meira »

Björg leiðir starfshóp um persónuvernd

16:06 Starfshópur hefur verið skipaður til að aðstoða Björgu Thorarensen, prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands og formann Persónuverndar, við að innleiða reglugerð um breytta persónuverndarlöggjöf Evrópusambandsins. Meira »

Segir sjálfstæðismenn í vandræðum

15:32 Björn Valur Gíslason, fyrrverandi varaformaður Vinstri grænna, segir að sjálfstæðismenn séu í miklum vandræðum með ráðherraval í viðræðunum um stjórnarmyndun sem nú standa yfir. Meira »

Keyrði á stelpu og lét sig hverfa

15:06 „Frekar mikið sjokkerandi að fá símtal frá barninu sínu að það hafi verið keyrt á það á meðan það gekk yfir gangbraut, sérstaklega þegar mamma og pabbi eru langt í burtu.“ Þannig hefjast skrif Ingibjargar Elínar Halldórsdóttur á Facebook en í gær var keyrt á dóttur hennar þar sem hún var að ganga yfir gangbraut. Meira »

Tveir skjálftar upp á 3,9 stig

14:07 Tveir jarðskjálftar urðu norðaustur af Bárðarbungu í Vatnajökli nú rétt fyrir klukkan tvö eftir hádegi. Mældust þeir báðir 3,9 stig. Meira »

Styttist óðum í desemberuppbótina

13:09 Nú styttist í að desemberuppbót fyrir árið 2017 verði greidd út. Í öllum kjarasamningum Samtaka atvinnulífsins er full desemberuppbót 86.000 kr. og skal vinnuveitandi greiða uppbótina eigi síðar en 15. desember. Meira »

Fjölmiðlaskýrsla væntanleg fyrir áramót

14:40 Stefnt er á að skila skýrslu með tillögum um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla fyrir áramót. Að sögn Björgvins Guðmundssonar, formanns fimm manna nefndar sem annast skýrslugerðina, liggja tillögur nefndarinnar fyrir en ekki er búið að ganga frá skýrslunni. Meira »

„Ótrúlegur spuni“ í kringum kaupin

13:32 Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir kaup Orkuveitunnar á höfuðstöðvum sínum mjög furðuleg og kostnaðarsöm fyrir fyrirtækið og þar af leiðandi eigendur hennar, almenning í Reykjavík og öðrum eigendasveitarfélögum. Meira »

Reiðubúnir að rýma þurfi þess

12:40 Neyðarrýmingaráætlun vegna Öræfajökulssvæðisins, sem hægt verður að grípa til ef á þarf að halda, er tilbúin en eftir er að kynna það fyrir viðbragðsaðilum. Þetta staðfestir Rögnvaldur Ólafsson, verkefnastjóri hjá almannavörnum, í samtali við mbl.is. Meira »

Mátturinn eða dýrðin - Greinaflokkur

SUMARFRÍ Í SÓL & HITA Í VENTURA FLORIDA
Glæsilegt HÚS til leigu v. 18 holu golfv, 3 svh. 2 bh.,1 wc, stór stofa, eldhús ...
FJÖLNOTAKERRUR _ STURTUKERRUR
Fjölnotakerrur, auðvelt er að koma bílum og vélum uppá, 4 til 6 metra langar. St...
VIÐHALD FASTEIGNA
Við þjónustum þig með lítil sem stór verk. Tímavinna eða tilboð. sími: 544-44...
HARÐVIÐUR TIL HÚSBYGGINGA
Harðviður til húsabygginga Sjá nánar á www.vidur.is Vatnsklæðning, panill, palla...
 
Framhald
Nauðungarsala
Uppboð Einnig birt á www.naudungarsolu...
Samkoma
Félagsstarf
Samkoma kl. 20 í Kristniboðs- salnum. R...
Aðalfundur
Fundir - mannfagnaðir
Aðalfundur Aðalfundur Vör...
Hádegisfundur ses
Fundir - mannfagnaðir
ses.xd.is Samtök eldri sjálfstæði...