Mesta mildi að ekki fór verr

mbl.is/Hjörtur

Ökumenn tveggja bifreiða sluppu ótrúlega vel frá umferðarslysi á Vesturlandsvegi í morgun. „Mesta mildi að ekki fór verr og þetta fór miklu betur en á horfðist,“ segir varðstjóri í lögreglunni á Vesturlandi en annar bíllinn er gjörónýtur eftir að hafa oltið.

Slysið má rekja til þess að annarri bifreiðinni var ekið yfir á rangan vegarhelming. Ökumaður hinnar bifreiðarinnar, sem var ekið úr gagnstæðri átt, sá hvað verða vildi og sveigði yfir á hina akreinina - yfir á rangan vegarhelming. Ökumaður bifreiðarinnar sem fyrst fór yfir á rangan vegarhelming brá eðlilega í brún þegar hann áttaði sig á því hvað væri að gerast og sveigði yfir á réttan vegarhelming. Við það ók hann inn í hlið hinnar bifreiðarinnar og velti bílnum í kjölfarið. 

Annar ökumaðurinn slapp með lítilsháttar meiðsli en hinn handleggsbrotnaði. Að sögn lögreglunnar er önnur bifreiðin gjörónýt eftir veltuna en hin er einnig illa farin. Báðir bílarnir eru stórir jepplingar og segir lögreglan að það hafi sennilega orðið ökumönnunum til happs að vera á svo stórum bílum. Sem og snögg viðbrögð þeirra þegar ljóst var í hvað stefndi.

Slysið varð skömmu fyrir átta í morgun norðan við Hvalfjarðargöngin. Loka þurfti veginum í á aðra klukkustund vegna vettvangsvinnu lögreglunnar. Ekki er vitað með fullri vissu hvers vegna ökumaðurinn ók yfir á rangan vegarhelming í upphafi en hann er ekki grunaður um akstur undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert