Snúa til Íslands með 21 milljón króna

Annie Mist á heimsleikunum í Crossfit.
Annie Mist á heimsleikunum í Crossfit. Ljósmynd/Crossfit Games

Annie Mist Þórisdóttir, sem náði þriðja sæti á heimsleikunum í Crossfit sem fram fóru um helgina, fær í sinn hlut rúmlega átta milljónir króna. Fær hún sjötíu þúsund bandaríkjadali fyrir þriðja sætið auk sjö þúsund dala fyrir árangur sinn í einstaka greinum.

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir, sem sigraði í síðustu greininni og náði því fjórða sætinu, fær þá 45 þúsund bandaríkjadali eða sem nemur rúmlega 4,7 milljónum króna. Til viðbótar því fær hún fimm þúsund dali fyrir árangur í einstaka greinum.

Katrín Tanja Davíðsdótt­ir, sem hefur staðið uppi sem sigurvegari keppninnar síðustu tvö ár, lauk keppni að þessu sinni í fimmta sæti. Fær hún því rúmlega þrjár milljónir í sinn hlut, eða þrjátíu þúsund bandaríkjadali, auk sjö þúsund bandaríkjadala fyrir árangur í einstaka greinum. Á síðasta ári hlaut hún rúmar 35 millj­ón­ir króna fyrir sigurinn.

Björg­vin Karl Guðmunds­son endaði að lokum í sjötta sæti á heims­leik­un­um og fær hann tæpar þrjár milljónir króna fyrir, eða 26 þúsund bandaríkjadali. 

Þuríður Erla Helgadóttir fær þá sjö þúsund dali, eða rúmlega 700 þúsund krónur, fyrir 18. sætið.

Skatturinn greiddur á Íslandi

Samtals fá keppendurnir fimm því tæpa 21 milljón króna fyrir þátttöku sína í leikunum, samkvæmt reglum um verðlaunafé.

Verðlauna­féð er þá skatt­skylt, en greiða þarf skatt­inn hér á landi sam­kvæmt tví­skött­un­ar­samn­ingi sem í gildi er á milli Íslands og Banda­ríkj­anna, eða í því landi þar sem viðkomandi hefur búsetu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert