„Kastaði aðeins lengra og búmm“

Eric Clapton með stórlaxinn sem hann veiddi í Hnausastreng í …
Eric Clapton með stórlaxinn sem hann veiddi í Hnausastreng í Vatnsdalsá 4. ágúst. Úr einkasafni

Einn stærsti lax sumarsins kom á landi á föstudag er breski tónlistarmaðurinn Eric Clapton landaði 105 cm laxi í Vatnsdalsá í Austur-Húnavatnssýslu. Viðureignin tók fjörtíu mínútur og um tíma var óljóst hvor myndi hafa betur enda laxinn sprækur.

Leiðsögumaður Claptons í Vatnsdalsá, Sturla Birgisson, segir að um gullfallegan nýgengin og silfraðan hæng hafi verið að ræða.

Laxinn veiddist í Hnausastreng en þar hafa margir af stærstu höfðingjum Vatnsdalsár komið á land.

Veiðiflugan Evening dress sem Eric Clapton veiddi 105 cm hæng …
Veiðiflugan Evening dress sem Eric Clapton veiddi 105 cm hæng á í Vatnsdalsá. Úr einkasafni

Sturla segir að laxinn hafi tekið fluguna Evening dress númer 12, sem er græn, gul og svört að lit með páfuglafjöðrum, en flugan hefur gefið vel  í Laxá í Ásum.

„Stórlaxar koma mjög oft á gult og svart,“ segir Sturla en hann veiddi einmitt stærsta laxinn sem veiddist árið 2015 á gula og svarta flugu. Svo skemmtilega vill til að í dag eru tvö ár frá því að Sturla veiddi þann fisk, 8. ágúst 2015. Sá lax var 112 cm hængur. „Laxinn sem Clapton veiddi á föstudaginn tók á nákvæmlega sama stað og  laxinn sem ég veiddi þá,“ segir Sturla.

Laxinn sem Sturla Birgisson veiddi fyrir tveimur árum í Vatnsdalsá.
Laxinn sem Sturla Birgisson veiddi fyrir tveimur árum í Vatnsdalsá.

Hann benti einmitt Clapton á hvar sá lax hafði tekið og sagði honum að kasta aðeins lengra. „Hann kastaði aðeins lengra og búmm. Laxinn var á. Fyrsta mínútan var mjög róleg og við héldum að þetta væri góður tveggja ára fiskur, kannski 80 til 90 cm að stærð. En svo tók hann rokuna niður úr – alla leið,“ segir Sturla í samtali við mbl.is.

Laxinn synti um 500 metra niður ána og var Clapton kominn langt inn á undirlínuna þegar laxinn loksins hægði á. „Við hlupum á bakkanum niður með ánni og það voru bara þrír eða fjórir snúningar eftir á undirlínunni á hjólinu. Við urðum að fara aftur út í ána svo Clapton gæti dregið hann hægt og rólega inn. „Það var ekkert eftir af línunni á þeim tímapunkti,“ segir Sturla.

Sturla segir mjög gott að landa fiski í Hnausastreng þar sem hylurinn er stór og strengurinn rólegur sem hjálpar veiðimanninum. Það er heldur ekki mikið slý né grjót líkt og er aðeins ofar í ánni.

Clapton og Sturla sáu laxinn stökkva en mjög algengt er að þegar þeir stökkva á þessum stað – einn snúning upp í loftið - að flugan fari af og laxinn með.

Það gerðist ekki í þetta skiptið þannig að þessi risafiskur náðist á land þar sem hann var mældur og myndaður en sleppt að því loknu líkt og aðrir laxar sem veiddir eru í Vatnsdalsá.

Lax sem er 105 cm og jafn feitur og þessi er um 26 pund en að sögn Sturlu var hann greinilega nýgenginn upp í ána, ekki með lús og alveg silfraður.

Grænn dalur og grösugur. Horft norður eftir Vatnsdal, yfir efra …
Grænn dalur og grösugur. Horft norður eftir Vatnsdal, yfir efra silungasvæði árinnar. Við dalsmynnið má sjá Flóðið og Hnjúkinn vestan megin við það. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Clapton veiddi í byrjun ágúst í fyrra 108 cm lax í Vatnsdalsá en sá lax tók ofar í ánni. Clapton þekkir Vatnsdalsá vel en hann hefur komið hingað til lands að veiða frá árinu 2009.

Aðstæður hafa ekki verið mjög góðar í Vatnsdalnum líkt og víðar undanfarna daga þar sem ekkert hefur rignt þar undanfarnar vikur og lítið vatn í ánni. Eins hefur verið mjög kalt suma dagana en mjög heitt aðra og sólríkt.

Eric Clapton með stórlaxinn í fyrra.
Eric Clapton með stórlaxinn í fyrra. A vef Vatnsdalsár
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert