Bílaleigubílar dýrastir í Reykjavík

Dýrast er að leigja sér bílaleigubíl í Reykjavík í Evrópu samkvæmt niðurstöðum nýrrar úttektar sem vefsíðan CheapCarRental.net framkvæmdi en úttektin náði til 50 áfangastaða í álfunni og var gerð fyrr í þessum mánuði. Við framkvæmdina var miðað við ódýrasta verðið á vikuleigu og að ferðin hæfist við stærsta flugvöll áfangastaðarins og lyki þar að sama skapi.

Samkvæmt niðurstöðum úttektarinnar kostar að 345 evrur, eða rúmar 43 þúsund krónur, að leigja bílaleigubíl í Reykjavík í viku þar sem það er ódýrast. Næst kemur Þrándheimur í Noregi en þar kostar minnst 342 evrur, eða tæpar 43 þúsund krónur, að gera slíkt hið sama. Þar næst kemur Osló, höfuðborg Noregs, en þar er lægsta verðið 328 evrur eða 41 þúsund krónur.

Þess utan eru áfangastaðir á Ítalíu, Grikklandi, Portúgal og Spáni áberandi á listanum yfir þá staði þar sem dýrast er að leigja sér bílaleigubíl.

1. Reykjavík (Ísland) 345 evrur
2. Þrándheimur (Noregur) 342 evrur
3. Osló (Noregur) 328 evrur
4. Aþena (Grikkland) 293 evrur
5. Helsinki (Finnland) 287 evrur
6. Þessalóníka (Grikkland) 278 evrur
7. Krít (Grikkland) 274 evrur
8. Heraklion (Grikkland) 244 evrur
9. Cagliari (Ítalía) 203 evrur
10. Palmero (Ítalíu) 198 evrur
11. Catania (Ítalíu) 194 evrur
12. Genf (Sviss) 189 evrur
13. Olbia (Ítalía) 187 evrur
14. Porto (Portúgal) 181 evrur
15. Napólí (Ítalía) 180 evrur
16. Menorca (Spánn) 177 evrur
17. Sevilla (Spánn) 168 evrur
18. Bari (Ítalía) 167 evrur
19. Madeira (Portúgal) 165 evrur
20. Lissabon (Portúgal) 160 evrur

Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Steingrími Birgissyni, forstjóra Hölds/Bílaleigu Akureyrar að offjárfest hafi verið í bílaleigubílum.

„Ég held að þetta verði erfiður vetur fyrir margar bílaleigur, alveg klárlega. Þessi fjöldi bílaleigubíla sem er núna er of mikill miðað við eftirspurn. Það hafa staðið bílar hjá flestum í nánast allt sumar,“ segir Steingrímur um þann metfjölda bílaleigubíla sem nú er á landinu. Aldrei hafa verið skráðar fleiri bílaleigubifreiðar hjá Samgöngustofu, en þær voru 26.293 hinn 1. ágúst.

Bílar staðið ónotaðir í sumar

„Ég veit af því að bílaleigurnar hafa langflestar átt bíla sem hafa staðið í allt sumar. Þessi fjöldi bílaleigubíla, sem er núna 26 þúsund, þýðir bara að menn hafa offjárfest,“ segir Steingrímur, en hann telur hluta þessarar offjárfestingar vera vegna óraunhæfa væntinga á markaði. „Hluti af því er kannski að menn hafa verið að tala upp væntingar. Hvernig þessi talning á ferðamönnum fer fram er að mínu mati bara kolröng. Það er alltaf verið að tala um fjölgun á ferðamönnum en inni í því eru farþegar sem fara inn og út af flugvellinum án þess að koma inn í landið. Þegar menn sjá svona segja allir að við verðum að fjölga hótelum, fjölga bílaleigubílum og svo kemur þetta fólk aldrei inn í landið.“

 Borga full vörugjöld í vetur

Bílaleigur standa frammi fyrir því að þurfa borga full vörugjöld af bílum sínum 1. janúar 2018. Steingrímur segir að slíkt geti haft afar slæm áhrif á fyrirtækin. „Þetta verður gríðarlegur kostnaðarauki fyrir fyrirtækin og afkoma fyrirtækja í greininni hefur farið mjög versnandi vegna gengisstyrkingar krónunnar. Menn voru að verðleggja sig þegar evran var 150 krónur og nú er hún kominn niður í 124 krónur. Þessi hækkun vörugjalda kemur beint niður á afkomu og rekstri fyrirtækjanna,“ segir Steingrímur, en bílaleigur ásamt Samtökum ferðaþjónustunnar (SAF) hafa óskað eftir fundi með stjórnvöldum um málið. „Það átti að eiga sér stað samtal við okkur varðandi þessa breytingu um áramótin. Þegar vörugjöldin leggjast á okkur af fullum þunga. Við erum búnir að vera reyna, en það virðist vera lítill vilji til að ræða við okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert