Þörf fyrir frekari útskýringu

Sigríður Andersen segir umræðu um uppreist æru að hluta byggða …
Sigríður Andersen segir umræðu um uppreist æru að hluta byggða á misskilningi um hvað felst í hugtakinu. Í viðtali á K100 talaði hún um mikilvægi þess að endurskoða lögin og útskýra betur hver skilyrðin eru. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra var fyrr í dag í viðtali í þættinum Magasínið á K100 þar sem hún talaði meðal annars um endurskoðun laga um uppreist æru og misskilning um það hvað felst í því hugtaki.

Viðtalið kemur í kjölfar þess að hún kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar á föstudag vinnu að frumvarpi í ráðuneytinu um endurskoðun laga þar sem kveðið er á um uppreist æru og óflekkað mannorð.

Umræðan að hluta byggð á misskilningi

Í viðtalinu kemur meðal annars fram að endurskoðun á lögunum hafi verið hafin áður en umræðan um mál Robert Downey lögmann hófst í sumar.

 „Ég skil vel umræðuna sem hefur verið í kjölfarið þótt að hún geti að einhverju leyti byggst á misskilningi á eðli þess sem uppreist æra er og hefur verið,“ sagði Sigríður og greindi frá því að uppreist æra komi að málvitund manna og telur það ekki farsælt að lagatexti sé ekki í samræmi við málvitund.

Uppreist æra er stjórnvaldsákvörðun en í henni felst ekki að menn fái mannorð sitt aftur, en mannorð er álit annarra á viðkomandi manneskju. Þá sé flekkað mannorð í lögum ekki það sama og almennur skilningur segir til um.

„Heimild er í almennum hegningarlögum til þess að veita mönnum uppreist æru að tilteknum skilyrðum uppfylltum,“ sagði Sigríður.  Í opinberum stjórnarstöðum, embættisstörfum eru reglur um að menn þurfi að hafa óflekkað mannorð til þess að vinna starfið. Á þetta einnig við um lögmenn og endurskoðendur.

Þörf til þess að skýra betur skilyrði

Í viðtalinu sagði hún að við skoðun á þessum reglum hafi hún uppgötvað að best væri að afnema þá heimild að hægt sé að veita uppreist æru. „En þá þarf óhjákvæmilega að skoða öll þessi lög sem kveða á um óflekkað mannorð og taka í rauninni út það skilyrði um óflekkað mannorð eða að minnsta kosti skýra það þannig að það liggi fyrir hvað það er sem menn mega ekki hafa brotið af sér.“

Þörf sé fyrir að endurskoða ákvæðin um hvað má og má ekki hafa gert og útskýra það betur. Þá geta skilyrðin verið mismunandi eftir störfum en ekki er talað um óflekkað mannorð nema þegar kemur að lögmönnum og endurskoðendum.

„Í öðrum starfsstéttum eru hins vegar gerð skilyrði um að menn hafi hreint sakavottorð svo og svo langt aftur í tímann,“ segir Sigríður og vill hún skoða framkvæmdir í fleiri starfsstéttum.

Hér er viðtalið úr Magasíninu á K100 í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert