Nokkur atriði ráða fyrningu brota

Lögreglan rannsakar nú minnisbók Roberts.
Lögreglan rannsakar nú minnisbók Roberts. mbl.is/Golli

Þegar minnisbók Roberts Downey er rannsökuð og þau 330 nöfn stúlkna sem þar koma fram  þarf að hafa í huga að einhver mögulegra brota gætu verið fyrnd, en það fer eftir aldri brotaþola, hvaða brot sé um að ræða og hvenær meint brot voru framin. Þetta segir Hulda Elsa Björgvinsdóttir, yfirmaður ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Rannsókn á bókinni hófst fyrir nokkrum vikum að hennar sögn.

Fyrr í dag var greint frá því að rannsókn væri hafin á minnisbókinni, en hún kom í sviðsljósið eftir að Anna Katrín Snorradóttir ætlaði að höfða mál gegn Robert og fékk þau svör að bókin væri týnd eða ónýt. Síðar kom í ljós að svo var ekki.

Hulda Elsa segir að misskilningur hafi valdið því að talið var að bókin væri glötuð. Segir hún að sem sönnunargagn í sakamáli sé bókin skjallegt gagn og fylgi frummálsskjölum.

„Við munum athuga hversu langt við komumst með þau gögn sem við höfum í höndunum,“ segir hún um nafnalistann í bókinni. Bætir hún við að þá þurfi að skoða mögulega fyrningu hugsanlegra brota, en árið 2007 var lögum um kynferðisbrot breytt og fyrning á slíkum brotum gegn börnum undir 18 ára felld út. Brot fyrir þann tíma geta því mögulega verið fyrnd og þá fer það eftir aldri brotaþola og hvaða brot sé um að ræða hvert framhaldið yrði.

Hulda Elsa bendir einnig á að ekki sé fullvíst að nöfnin geti bent beint á ákveðinn einstakling, því í sumum tilfellum sé um gælunöfn að ræða á meðan í öðrum tilfellum megi finna fullt nafn, netfang og símanúmer.

Hún tekur fram að lögreglan muni taka vel á móti fólki ef það upplifir að á því hafi verið brotið.

Minnisbók Roberts inniheldur nöfn, símanúmer og netföng 335 kvenna. Berg­ur Þór Ing­ólfs­son og Eva Vala Guðjóns­dótt­ir, for­eldr­ar stúlku sem Robert braut á, skrifuðu í morg­un grein í Frétta­blaðið, þar sem þau töluðu um mik­il­vægi þess að ranna­saka minn­is­bók­ina í þaula.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert