Þarf að ná fólki úr svartholinu með lagni

Steindór segist almennt hafa góða reynslu af geðdeildinni hér heima …
Steindór segist almennt hafa góða reynslu af geðdeildinni hér heima og verið heppinn með þá geðlækna sem hann hefur kynnst, þó að vissulega megi gagnrýna ýmislegt. mbl.is/Golli

„Maður upplifir alveg ofboðslega einmanakennd og það versta er að vera einmana innan um börnin sín, eiginkonu og alla. Þessi tilfinning verður svo sterk að manni finnst maður vera fyrir öllum,“ segir Steindór J. Erlingsson sem hefur glímt við sjálfsvígshugsanir í tæp 30 ár.

Steindór hefur oftar en einu sinni reynt að taka eigið líf og segir sjálfsvígshugsanirnar alltaf nálægar, stundum í bakgrunni en að á öðrum stundum hafi þær stýrt tilveru sinni. Í dag er versti krísutíminn liðinn hjá, en hann þekkir vel þá tilfinningu að þjást mánuðum og jafnvel árum saman af slíkum hugsunum.

„Þessi mikla einmanakennd og vanlíðan er nokkuð sem aðstandendur og fólk sem umgengst einstaklinga sem eru þunglyndir og með sjálfsvígshugsanir þurfa að átta sig á. Maður upplifir sig sem algjört úrhrak og þegar látið er til skara skríða þá er maður kominn á þann stað að upplifa sig svo rosalega mikið fyrir að þetta sé besta lausnin.“

Draga manneskjuna aftur inn í lífið

„Kúnstin er að draga manneskjuna inn í lífið aftur og það eru margar leiðir til þess,“ segir hann. „Ættingjar eiga ekki að ásaka fólk eða segja að þú verður að harka þetta af þér, því það er eitt það versta sem hægt er að segja.“

Skiljanlega upplifir fólk mikla skelfingu og gerir misgáfulega hluti þegar það óttast um ættingja, en rétta leiðin felist ekki í því að vera hastur. Snerting og nærgætni geti skipt miklu við að ná í gegn.

„Mín reynsla bendir til þess að það þurfi að ná fólki út úr þessu svartholi með lagni. Það þarf að leyfa því að finna að það skipti máli og sé ekki fyrir öllum og það þarf að gefa fólki tíma.“

„Óendanlega þakklátur fyrir að hafa ekki fyrirfarið mér“

Það tjá sig hins vegar ekki allir um vanlíðan sína og því kemur kemur sjálfsvígstilraun ættingjum oft í opna skjöldu. Steindór segist sjálfur vera af þeirri kynslóð þar sem ekki tíðkaðist að tjá tilfinningar sínar og hann hafi lokað á alla umræðu um málið í fleiri mánuði  og jafnvel ár.

Steindór J. Erlingsson segir snertingu og nærgætni geta skipt miklu …
Steindór J. Erlingsson segir snertingu og nærgætni geta skipt miklu við að ná í gegn til þess sem glímir við þunglyndi og sjálfsvígshugsanir. Ljósmynd/Steindór

„Þegar maður er kominn á þennan stað, þá hefur maður engan drifkraft til að tjá sig og eygir enga útgöngu,“ segir hann. Að tjá tilfinningar sínar sé hins vegar forsendan þess að finna leið út.

Sjálfur var hann svo heppinn að hitta góða fagaðila sem komu honum í skilning um að það liggi verðmæti í sinni reynslu. „Ég hef alltaf jafnað mig og er óendanlega þakklátur fyrir að hafa ekki fyrirfarið mér, þó að ég hafi gert margar tilraunir til þess.“

Þegar Steindór var að byrja að veikjast fékk hann þau skilaboð að það væri boðefnaójafnvægi í heila hans og hann yrði að vera á lyfjum það sem eftir er. „Þessi nálgun drepur bara niður viljann hjá fólki til að gera nokkuð,“ segir hann og kveðst hafa áttað sig á því á sinni áratugalöngu baráttu við kvíða og þunglyndi að maður verði að ögra sér. „Þessa einfalda viska var eitt það mikilvægasta sem ég hef lært,“ segir hann. „Þegar maður áttar sig á því að maður eigi alltaf val sama hversu slæm líðanin er, þá samt hægt að heimsækja mömmu, systur sína eða fara í afmæli til frænda,“ útskýrir hann og nefnir dæmi úr eigin lífi.

„Þetta er spurning annars vegar um nærgætni og hins vegar um að stíga út fyrir dyr og inn í lífið aftur.“ 

„Var þetta svona hjá þér mamma?“

Steindór segir byltingu hafa átt sér stað í umræðu um geðheilbrigðismál á undanförnum 15 árum.  Fyrir þann tíma tíma hafi fólk ekki viljað tjá sig um málið í fjölmiðlum undir nafni og það hafi jafnvel birst sjónvarpsáhorfendum sem skuggamynd.

„Umræðan í dag er opnari, en vandamálunum linnir ekkert þrátt fyrir það,“ segir hann. Hann veit þó til þess að viðtöl sem hann hefur veitt hafa hjálpað mörgum og minnist þess m.a. að kona sem hann þekkti frá Hugarafli horfði á sjónvarpsviðtal við sig með sonum sínum sem höfðu sýnt veikindum hennar lítinn skilning. „Þeir sátu allan tímann og horfðu til skiptis á mig og hana og spurðu: Er þetta svona hjá þér mamma?“

Umræðan skiptir máli

Landspítalinn hefur undanfarið bent á að öll umræða um sjálfsvíg kalli á fleiri sjálfsvíg og blaðamanni leikur því forvitni á að vita hvort svo hafi verið í tilfelli Steindórs. Hann neitar því. „Eina skipti sem umræða um sjálfsvíg hafði neikvæð áhrif á mig var sú gríðarlega umræða sem varð um sjálfsvíg leikarans Robin Williams. Þá leið mér sjálfum mjög illa,“ segir hann.

Sjálfur hafi hann réttlætt sína umræðu með því að heildarhagsmunirnir séu meiri. „Það er svo mikið af fólki, sérstaklega ungu fólki sem er að byrja í þessum vanda, sem upplifir sig svo eitt.“

Steindór átti þátt í að koma á fót geðfræðsluverkefni Hugarafls og á þeirra vegum heimsótti hann fjölda grunn- og framhaldsskóla. „Það var ólýsanleg upplifun eftir að hafa talað við þessa krakka þegar eitthvert þeirra kom til manns á eftir og sagði: „Ég á við þennan vanda að stríða og ég hef aldrei þorað að segja neinum það.“ Einu sinni komu þrír krakkar úr tíunda bekk í einum grunnskóla til okkar og opnuðu sig í um þetta í fyrsta skipti,“ segir hann. „Þannig að það er mín upplifun að þessi umræða skipti máli.“

Geðdeild Landspítalans. Iðullega hefur verið gagnrýnt að utan opnunartíma bráðamóttöku …
Geðdeild Landspítalans. Iðullega hefur verið gagnrýnt að utan opnunartíma bráðamóttöku geðdeildar þarf fólk að leita á almenna slysadeild. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Manneskjulegra umhverfi hér en í Bretlandi

Landspítalinn hefur hlotið töluverða gagnrýni undanfarið vegna tveggja sjálfsvíga sem orðið hafa á geðdeild spítalans með stuttu millibili. Steindór hefur reynslu af því að liggja á geðdeild Landspítalans og úti í Bretlandi og segir sér hafa liðið betur hér.

„Það var súrrealísk reynsla að vera inni á geðdeild í Manchester þar sem ég var í doktorsnámi. Breskir læknar hafa meiri völd til að svipta einstaklinga sjálfræði en læknar hér og það voru plaköt út um alla veggi með símanúmerum frá lögmönnum.“ Umhverfið hér er öllu manneskjulegra að hans mati. 

„Ég reyndi að fyrirfara mér á geðdeild úti í Manchester og það var setið yfir mér inni í herberginu í marga daga á eftir. Hérna heima þegar þú ert á svona gát þá er setið fyrir utan herbergið,“ segir Steindór og kveður íslenska kerfið þægilegra að sínu mati.

Hann skrifaði færslu á Facebook í kjölfar sjálfsvíganna á Landspítalanum þar sem hann bendir á að erfitt sé að koma með öllu í veg fyrir slíkt, nema með því að skerða persónufrelsi fólks verulega. „Þeir sem tala fyrir því að deildirnar verði gerða sjálfsvígsheldar verða að átta sig á því að með því er verið að fara fram á skerðingu á persónufrelsi og það er ekki í takt við okkur sem erum að berjast fyrir auknum réttindum fólks með geðraskanir. Það þarf að finna eitthvert jafnvægi þarna á milli.

„Ég er ekki að afsaka kerfið, en einstaklingur sem ætlar að gera þetta hann finnur einhverja leið og eina leiðin til að koma í veg fyrir þetta á spítalanum er að breyta deildunum í fangelsi.“

Í dag sé stefnan hins vegar að gera geðdeildirnar manneskjulegar og heimilislegri.

Það var sálfræðingur sem gjörsamlega breytti mínu lífi

Hann kveðst almennt hafa góða reynslu af geðdeildinni hér heima og verið heppinn með þá geðlækna sem hann hefur kynnst, þó að vissulega megi gagnrýna ýmislegt. Afgreiðslutími bráðamóttöku geðdeildar er einn þeirra hluta. „Það eru 15 ár síðan ég gagnrýndi þetta í grein í Morgunblaðinu og það hefur ekkert breyst,“ segir Steindór.

Eftir að geðdeildinni var lokað á Borgarspítalanum og öll bráðaþjónustan var flutt upp á Landspítalann við Hringbraut verður fólk að fara á slysavarðstofuna utan afgreiðslutíma bráðamóttöku geðdeildar, þar sem almennir starfsmenn hafi enga kunnáttu til að meta alvarleika tilfella. „Það var ekkert mál á meðan geðdeildin var í Fossvoginum af því að það var alltaf læknir á vakt. Núna þarf að hringja eftir sérfræðingi og það er alveg glatað. Ég hef í tvígang lent í því að þurfa að bíða í marga klukkutíma á bráðamóttöku í Fossvogi eftir að sérfræðingur á vakt komi.“

Steindór bendir á að sú þróun sé nú í gangi víðs vegar í heiminum að fækka rúmum á geðdeildum og svo sé einnig hér á landi. „Það sem hefur vantað upp á hér eru hins vegar fleiri úrræði úti í samfélaginu og þar hefur vantað fjármagn,“ segir hann. „Því ef það er verið að fækka rúmum og stytta legutíma þá verða að koma úrræði á móti.“

Eins sé sannkallað hneyksli að þjónusta sálfræðinga sé ekki niðurgreidd og sjálfur segist hann ekki geta lofað nógsamlega Berglindi Guðmundsdóttur, yfirsálfræðing Landspítalans. „Það er hneyksli að öryrkjar hafi ekki efni á að fara til sálfræðings. Það var sálfræðingur sem gjörsamlega breytti mínu lífi og það þarf að opna þennan möguleika fyrir miklu fleiri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert