Lög um uppreist æru 77 ára gömul

Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.
Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. mbl.is/Golli

Ákvæði um uppreist æru í 85. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 hafa staðið efnislega óbreytt frá árinu 1940. Þágildandi dönsk hegningarlög um heimild til að veita uppreist æru eru fyrirmynd íslensku lagaákvæðanna. Skilyrði um uppreist æru til þess að öðlast aftur óflekkað mannorð höfðu upprunalega einkum þýðingu vegna kjörgengis og kosningarréttar í þingkosningum, en er þó löngu aflagt sem skilyrði kosningarréttar, að sögn Bjargar Thorarensen, prófessors við lagadeild Háskóla Íslands.

Skilgreiningu á því hvenær mannorð telst flekkað er enn að finna í 5. gr. kosningalaga þar sem fjallað er um kjörgengi. Samkvæmt henni telst enginn maður hafa óflekkað mannorð sem hefur fengið refsidóm fyrir brot sem er svívirðilegt að almenningsálita og fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta.

Í Danmörku líkt og hér á landi er óflekkað mannorð skilyrði fyrir ákveðnum opinberum leyfum eða embættum. „Sama tilhögun gilti um þetta í Danmörku, þ.e. að stjórnvöld gætu veitt uppreist æru eins og hér á grundvelli lagaákvæði í hegningarlögum,” segir Björg en henni er ekki kunnugt um hvort því hefur verið breytt á síðustu árum.

Tímabær endurskoðun á lagaákvæðum

„Það má endurskoða þessi lagaákvæði sérstaklega með tilliti til starfsréttinda, t.d. að meta eigi nánar hvers eðlis brotin eru til að ákveða hvort menn fái tiltekin starfsréttindi á borð við lögmannsréttindi að nýju,“ segir Björg spurð hvað hún telji að mætti endurskoða í lögunum.

Hún segir lítið svigrúm fyrir stjórnvöld að ákveða hvort þeim finnist við hæfi að veita uppreist æru eða ekki. Um þetta gilda ákveðnir frestir og framkvæmd, þar sem jafnræðis er gætt á milli mála. Að hennar mati er hins vegar engin ástæða til þess að forseti fari með þetta vald. „En löggjafinn hefur einfaldlega ákvörðunarvald um hvernig eigi að haga þessum málum og það er að mínu mati tímabært að endurskoða þetta ferli, sem er að mörgu leifar gamalla tíma. Það kann að horfa undarlega við að stjórnvald skrifi upp á að maður hafi hreint mannorð,“ segir Björg. 

Samkvæmt 84. gr. almennra hegningarlaga öðlast einstaklingur öll réttindi sem fást með uppreist æru sjálfkrafa að liðnum 5 árum frá því að refsing er að fullu úttekin, fyrnd eða uppgefin, ef hann hefur aðeins einu sinni hlotið dóm sem hefur skerðingu borgararéttinda í för með sér og refsingin fer ekki fram úr eins árs fangelsi.“ Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins um uppreist æru. Öðru máli gegnir um brot sem teljast „svívirðileg að almenningsáliti“. Sá maður sem hefur verið dæmdur í meira enn 1 árs fangelsi fyrir brot sem teljast svívirðileg að almenningsáliti öðlast ekki sjálfkrafa borgaraleg réttindi að liðnum ákveðnum tíma heldur þarf þá ávallt að sækja um uppreist æru.

Lítil umræða um uppreist æru þingmannsins Árna Johnsen 

Björg bendir á að lítil umræða hafi verið um uppreist æru þegar Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fékk uppreist æru árið 30. ágúst árið 2006. Hann sótti um og var veitt óflekkað mannorð tveimur árum eftir reynslulausn úr fangelsi. Hann hlaut tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi m.a. fyrir fjárdrátt og umboðssvik. Hann bauð sig fram til þingkosninga og var kjörinn að nýju árið 2007 enda uppfyllti hann kjörgengisskilyrði.

Hún bendir á að það hafi verið umdeilanlegt að maður sem hafði fengið dóma fyrir alvarlegt efnahagsbrot hafi fengið uppreist æru svo hann gæti boðið sig fram að nýju sem þingmaður. „Þetta er matskennt. Aðalatriðið er að ákveðið jafnræði sem gildir. Sú framkvæmd sem var í gangi hafi tryggt jafnræði að afloknum tíma um menn sem höfðu fengið dóma fyrir svívirðilegt brot að almenningsáliti,“ segir Björg.

Ólíklegt að brotamenn hafi gegnt þessum störfum 

Í stuttu máli felur uppreist æru í sér að einstaklingur sem hlotið hefur slíkan refsidóm telst ekki lengur lögformlega hafa flekkað mannorð. Þetta hefur lagalega þýðingu í örfáum tilvikum þar sem lög gera kröfu um óflekkað mannorð  t.d. til að geta setið í stjórn tiltekinna opinberra stofnana, boðið sig fram í kosningum eða til að fá  leyfi til að starfa sem lögmaður eða endurskoðandi. Að öðru leyti hefur uppreist æru engin lagaleg áhrif.

Frá árinu 1995 til 2017 hafa 32 hlotið upp­reist æru og af þeim eru fjór­ir barn­aníðing­ar og þrír morðingj­ar. „Mér þykir ólíklegt að allir þessir brotamenn hafi gegnt slíkum störfum,“ segir Björg. 

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid, kona hans.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid, kona hans. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tveir vottar og forseti þarf að skrifa undir

Sótt er um uppreist æru til dómsmálaráðuneytisins. Vottorð um góða hegðun þarf að fylgja með frá tveimur valinkunnum einstaklingum. Til­lagan eða beiðnin er send til for­seta Íslands til undirskriftar. 

Sig­ríður Á. And­er­sen dóms­málaráðherra kynnti fyrr í mánuðinum á fundi rík­is­stjórn­ar­inn­ar vinnu við frum­varp í ráðuneyt­inu um end­ur­skoðun laga þar sem kveðið er á um upp­reist æru og óflekkað mann­orð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert