Tvö þúsund tonna offramleiðsla

Fjölmennt er á fundinum.
Fjölmennt er á fundinum. mbl.is/Eggert

Offramleiðsla á kindakjöti er um tvö þúsund tonn á ári eins og staðan er í dag. Þetta kom fram í máli Ágústs Andréssonar, formanns Landssamtaka sláturleyfishafa, á umræðufundi um stöðu og málefni sauðfjárbænda á Blönduósi í kvöld. Húsfyllir er á fundinum.

Um síðustu mánaðamót voru umframbirgðir af lambakjöti um 1.800 tonn en Ágúst kveðst bjartsýnn á að birgðirnar verði komnar niður í 1.200 tonn þessi mánaðamót. Um 6.500 tonn fara á innanlandsmarkað ár hvert og útflutningur var á bilinu 1.250 og 1.500 tonn á árinu sem leið. Rétt er að taka fram að útflutningurinn var háður miklum útflutningsstyrkjum og því ljóst að til slíkra styrkja þurfi aftur að koma ef útflutningur eigi ekki að dragast saman.

mbl.is/Eggert

Þungt hljóð er í fundarmönnum vegna fyrirhugaðrar 35 prósenta skerðingar á afurðaverði frá haustverði síðasta árs. Ágúst leggur til að tekin verði upp útflutningsskylda að nýju sem afnumin var árið 2008. Segir Ágúst það fyrst og fremst vera til að koma í veg fyrir offramboð lambakjöts á Íslandsmarkaði með tilheyrandi verðlækkunum sem eyðileggi markaðinn.

Ágúst sagði í erindi sínu að erlendir markaðir hafi brugðist á sama tíma og íslenska krónan hafi styrkst mikið sem hafi leitt til samdráttar í útflutningstekjum í greininni. Nefndi hann í því sambandi útflutning inn á meginland Kína vegna fríverslunarsamningsins, en enn hefur ekki fengist leyfi til útflutnings til landsins, mikinn samdrátt á Evrópumarkaði vegna viðskiptabanns Rússa sem leitt hafi til offramboðs lambakjöts á Evrópumarkaði og loks Noregsmarkað á grundvelli áratugagamals samnings íslenskra og norskra stjórnvalda um tollfrjáls viðskipti með lambakjöt. Óvænt varð ekki af 600 tonna viðskiptum með íslensk lambakjöt til Noregs.

mbl.is/Eggert

„Ég hef miklar áhyggjur af því að við séum ekki á réttri leið með þetta,“ sagði Ágúst á fundinum í kvöld. „Það er búið að eyða óhemjutíma síðan í mars með ráðamönnum; þingmönnum, embættismönnum og ráðherra málaflokksins. Það hefur ótrúlega lítið gengið, það er búið að vinna mikla vinnu en við stöndum ekki vel.“

mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert