Þakkar guði fyrir að ekki varð tjón á fólki

Ferðamenn njóta sín í íslenskri náttúru við Seljalandsfoss. Gönguleiðin bak …
Ferðamenn njóta sín í íslenskri náttúru við Seljalandsfoss. Gönguleiðin bak við fossinn er nú ófær eftir grjóthrun. mbl.is/RAX

„Ég þakka bara guði fyrir að ekki varð manntjón, það er auðvitað fyrir öllu,“ segir Kristján Ólafsson, formaður Félags landeigenda við Seljalandsfoss, en um helgina varð grjóthrun úr berginu skammt frá fossinum og niður undir planið við fossinn. Lögreglan á Suðurlandi ákvað í kjölfarið í samráði við landeigendur við Seljalandsfoss að loka gönguleiðinni bak við fossinn þar sem allnokkurt grjót hafi fallið. Steinar sem vógu um 100 kg hver hrundu niður og var það mat þeirra sem til sáu að veruleg hætta hafi skapast.

Björn Júlíus Grímsson leiðsögumaður var staddur með hóp á svæðinu þegar grjóthrunið varð. Hann segir steinana hafa fallið nálægt svæðinu þar sem fólk var að ganga. „Það var virkileg hætta af þessu og full þörf á að loka svæðinu enda féllu steinarnir nálægt fólki,“ segir Björn.

Möguleiki á öðru grjóthruni

Kristján segir að svæðið muni standa opið þrátt fyrir grjónhrunið, en göngustígurinn er ófær enn sem stendur. „Við höfum ekki lokað svæðinu en grjótið hrundi á göngustíginn fyrir aftan fossinn og hefur lokað hann af. Það er því ekki mögulegt að ganga hann og við eigum ekki von á því að hann verði opnaður alveg á næstunni,“ segir Kristján.

Enn er ekki útséð um hvort mögulega muni hrynja frekar úr berginu á næstunni. Kristján segir málið í skoðun og vonast til að niðurstaða muni berast fljótlega. „Fljótlega eftir að lögreglunni barst tilkynning um málið var það áframsent til Veðurstofunnar. Það er því sem stendur í höndum sérfræðings frá Veðurstofunni. Þar er enn verið að skoða hvort einhver frekari hætta stafi af þessu og það skýrist vonandi á næstunni en eins og staðan er núna vitum við ekki hvort annað grjóthrun gæti átt sér stað,“ segir Kristján og bætir við að öryggi fólks á svæðinu sé í algjörum forgangi.

„Ég er alveg guðslifandi feginn að ekkert tjón varð á fólki. Í framhaldinu munum við bíða þar til öruggt er að engin hætta sé fyrir fólk að fara nálægt svæðinu þar sem hrunið varð eða að ganga göngustíginn bak við fossinn,“ segir Kristján.

Grjóthrun

» Veruleg hætta skapaðist er steinar sem vógu um 100 kg féllu í grjóthruninu við fossinn.
» Enn er ekki útséð um hvort annað grjóthrun gæti átt sér stað á næstunni.
» Svæðið er enn opið en göngustígurinn bak við fossinn er ófær og hefur honum verið lokað ótímabundið.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert