Mál allra fylgdarlausra barna tekin til meðferðar

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar um er að ræða fylgdarlaus börn eru aðstæður og aðbúnaður barna vandlega kannaður. Þá er móttökukerfi og afgreiðsla umsókna um alþjóðlega vernd skoðuð eins og í öllum málum sem fjallað er um á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Þetta er gert með því að afla upplýsinga frá viðurkenndum alþjóðastofnunum og félagasamtökum.“

Þetta kemur fram í svari Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra við skriflegri fyrirspurn frá Rósu Björk Brynjólfsdóttur, þingmanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, um fylgdarlaus börn sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi þar sem meðal annars var spurt að því með hvaða hætti stjórnvöld gengu úr skugga um að fylgdarlaus börn sem hingað kæmu en væru send annað fengu aðbúnað og málsmeðferð sem samræmdist þeim alþjóðlegum skuldbindingum um réttindi barnsins sem Ísland hefði fullgilt.

„Við málsmeðferð á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar er það sem barni er fyrir bestu ávallt haft að leiðarljósi og barnið fær að láta skoðanir sínar í ljós. Þegar fyrir liggja nægilega greinargóðar upplýsingar um það ríki sem ber ábyrgð á umsókninni er tekin ákvörðun um hvort aðstæður séu með þeim hætti að öruggt sé að senda barnið til viðkomandi ríkis,“ segir ennfremur. Þá segir að undanfarin fimm ár hafi ekkert fylgdarlaust barn verið sent til annars ríkis á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar heldur tekin til efnislegrar meðferðar.

Spurð hvernig bregðast eigi við vaxandi fjölda fylgdarlausra barna sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi segir Sigríður að það verði að gera með bættu verklagi og aukinni skilvirkni. Dómsmálaráðuneytið vinni að gerð skriflegra verklagsreglna í samstarfi við Barnaverndarstofu og Útlendingastofnun varðandi fylgdarlaus börn sem komi hingað til lands. Meðal annars þyrfti að bæta búsetu- og móttökuúrræði Útlendingastofnunar með svo þau væru fullnægjandi fyrir börn ásamt því að tryggja og skýra hlutverk hverrar stofnunar.

„Þá telur ráðherra mikilvægt að tryggja áframhaldandi samvinnu allra þeirra stofnana sem að þessum málum koma og dómsmálaráðuneytið haldi utan um þá vinnu svo tryggja megi að nauðsynlegar lagabreytingar verði gerðar, verklagsreglur settar og þeim hrint í framkvæmd.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert