Mælti með hóflegum auðlegðarskatti

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Eggert

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði Þorstein Víglundsson, félags- og jafnréttisráðherra, hvort meirihluti sé á þinginu fyrir nýju fjárlagafrumvarpi því það virtist ekki vera fullkomin eining um það.

„Já, ég held að það sé alveg örugglega,“ sagði Þorsteinn og bætti við að það væri vanvirðing við þingið að telja að frumvarpið gæti ekki tekið breytingum eftir umræður þingmanna.

Þorsteinn tók fram að umdeild mál séu að sjálfsögðu í frumvarpinu. Sjálfur kvaðst hann enginn aðdáandi skattahækkana en í frumvarpinu væru grænir skattar sem hann væri hliðhollur.

Vaxandi misskipting auðs

Katrín steig í pontu og sagðist ekki skilja hvernig ráðherra fái það út að það sé mikilvægt að hafa aðhald en að á sama tíma megi ekki innheimta meiri tekjur.

Einnig minntist hún á vaxandi misskiptingu auðs í þjóðfélaginu og sagði að hægt væri að taka á henni með hóflegum auðlegðarskatti.

Þorsteinn Víglundsson.
Þorsteinn Víglundsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ráðherra sagði Íslendinga búa við mikinn tekjujöfnuð. „Það væri mjög áhugavert að fara inn í eignajöfnuð og sjá hversu stór hluti þess er einfaldlega bundið við aldur okkar.“

Katrín hélt síðar áfram og talaði um að ríkisstjórnin hafi valdið miklum vonbrigðum í menntamálum, þar á meðal hvað varðar stuðning við Háskóla Íslands, og að stuðningur við nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar væri af skornum skammti.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert