Dómsmálaráðherra horfi til eigin ábyrgðar

Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir samstarf flokkanna hafa verið …
Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir samstarf flokkanna hafa verið gott um margt, en ekkert annað hafi þó verið í stöðunni en að slíta samstarfinu. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra, segir það vissulega blendnar tilfinningar að slíta stjórnarsamstarfinu, ekkert annað hafi hins vegar verið í stöðunni.

Stjórn Bjartr­ar framtíðar tilkynnti upp úr miðnætti í nótt að hún hefði ákveðið að slíta stjórnarsamstarfinu vegna „al­var­leg­s trúnaðarbrest­s inn­an rík­is­stjórn­ar­inn­ar“ eftir að í ljós kom að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hafði greint Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra frá aðkomu föður hans að beiðni um uppreist æru í máli barnaníðings.

„Mér finnst þetta á margan hátt leiðinlegt því að við erum að vinna að mörgum stórum og flottum hlutum og það var margt gott í þessu stjórnarsamstarfi,“ segir Björt og nefnir að sér hafi til að mynda hafa fundist gott að vinna með Bjarna. „Maður verður engu að síður að eiga við samvisku sína og samviska okkar í Bjartri framtíð leyfir okkur ekki að samþykkja þessi vinnubrögð og sitja hjá á meðan að þau eru látin viðgangast. Þetta er einfaldlega af þeirri stærðargráðu.“

Mikil eining hafi verið hjá stjórn Bjartrar framtíðar að slíta samstarfinu.

Ágæt reynsla fyrir Sjálfstæðisflokkinn

Spurð um þau orð Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra í morgunútvarpi RÚV í morgun, að það sé stórkostlegt ábyrgðarleysi hjá Bjartri framtíð að slíta stjórnarsamstarfinu, kveðst hún hafa skilning á að fólk sé biturt. „Fólk verður hins vegar bara að líta í eigin barm og velta fyrir sér sinni ábyrgð í þessum málum. Það liggur alveg ljóst fyrir að ef þetta hefði verið höndlað á annan veg þá værum við ekki í þessari stöðu,“ sagði Björt.

„Það er kannski bara ágæt reynsla fyrir Sjálfstæðisflokkinn að leyndarhyggja gengur ekki, alla vega ekki í samvinnu við Bjarta framtíð.“

Spurð hvort stjórn Bjartrar framtíðar hafi óskað skýringa frá forsætisráðherra, segir hún þá Óttar hafa rætt saman. „Staðan var hins vegar tær. Við vorum búin að fylgjast með því í fréttum hvernig lá í málum. Staðan var óviðunandi að okkar mati og þar við situr.“

Leyndarhyggjan skemmt ríkisstjórnarsamstarfið

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sagði í samtali við mbl.is nú morgun að það hafi verið óeðlilegt hjá dómsmálaráðherra að greina Bjarna einum frá málinu. Björt segir að eigi prinsipp að gilda, líkt og dómsmálaráðherra hafi talað fyrir, verði eitt að gilda fyrir alla. „Síðan ákveður hún að víkja frá því prinsippi þegar kemur að föður Bjarna Benediktssonar og telur upp einhverjar ástæður fyrir því. Fyrst búið var að brjóta þá meginreglu, þá væri eðlilegt með tilliti til þessa samstarfs að bera þetta undir okkur, eða að minnsta kosti að láta vita og bera þetta undir okkur,“ segir hún.

„Það er mín skoðun að þetta hefði þurft að koma út til að afsanna að um leyndarhyggju væri að ræða og það væri ekki þetta sem réði för þegar dómsmálaráðuneytið neitaði að leggja fram gögnin. Það hefði þurft að tala hreint um þetta strax því þá hefði verið allt önnur staða uppi. Leyndarhyggjan er algjört eitur og hún hefur skemmt þetta ríkisstjórnarsamstarf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert