„Fleira en þetta mál felldi stjórnina“

Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði.
Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Þetta kemur ekki beinlínis á óvart. Það er uppi þessi sami ómöguleiki sem kom upp úr kjörkössunum í fyrra. Hann er enn til staðar,“ segir Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, vegna blaðamannafundar Bjarna Bendiktssonar forsætisráðherra þar sem hann sagði stefnt að þingkosningum í nóvember.

„Þessi ríkisstjórn, sem komið hefur í ljós, var kannski aldrei á vetur setjandi. Meira að segja þeir sem stóðu að viðræðunum um hana á sínum tíma voru ekki endilega trúaðir á það. Það er ljóst að fólk hefur ekki treyst sér inn í veturinn með þetta mál á bakinu og það hefur vafalaust verið fleira en bara þetta eina mál sem felldi stjórnina,“ segir Eiríkur.

Vísar hann þar meðal annars til þeirra orða Guðlaugar Kristjánsdóttur, stjórnarformanns Bjartrar framtíðar, í gærkvöldi eftir stjórnarfund flokksins þar sem ákveðið var að slíta stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn að málið varðandi meðmæli föður Bjarna með dæmdum kynferðisbrotamanni hafi verið kornið sem fyllti mælinn.

Efasemdir um stjórnarsamstarfið frá byrjun

„Björt framtíð hefur kannski aldrei passað almennilega inn í þetta stjórnarsamstarf og ekki liðið vel í því,“ segir Eiríkur. Það hafi blasað við strax í byrjun stjórnarsamstarfsins að miklar efasemdir væru um stjórnarsamstarfið við aðallega Sjálfstæðisflokkinn. Fram kom í máli Bjarna á blaðamannafundinum að hann teldi ekki raunhæft að mynda nýja stjórn.

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur reynt stjórnarsamstarf við alla nema Vinstrihreyfinguna - grænt framboð og Pírata, sem ekki hafa viljað samstarf við þá. Þetta er sú staða sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur frammi fyrir og því kannski ekki skrítið að hann eigi erfitt með að finna samstarfsflokka akkúrat á þessu augnabliki í dag,“ segir Eiríkur.

Sjálfstæðisflokkurinn sé kannski í svipaðri stöðu núna og Framsóknarflokkurinn eftir þingkosningarnar fyrir tæpu ári í kjölfar málsins í kringum Panama-skjölin. Það er að hinir flokkarnir vilji síður vinna með honum að þessu sinni. „Bjarni Benediktsson er við þessar aðstæður sem eru uppi núna ekki líklegastur til þess að ná saman ríkisstjórn.“

Vantraust í landinu í garð stjórnmálanna

Hvað stöðu Bjarna annars varðar segist Eiríkur ekki sjá einhvern augljósan arftaka ef hann kysi að stíga til hliðar. „Það kann vel að vera að það sé heppilegt fyrir sjálfstæðismenn að skipta um forystu en það er eiginlega bara of snemmt að segja til um það í dag.“ Hins vegar snúist svona mál ekki endilega um einstaklingana í brúnni hverju sinni.

„Það er líka einfaldlega eitthvert vantraust í landinu í garð stjórnmálanna sem hefur ekkert lagast. Ekki fyllilega allavega. Sem á í rauninni ákveðið upphaf í hruninu. Meira óþol gagnvart þeim. Stjórnmálamenn komast fyrir vikið síður upp með sömu taktana í svona málum sem koma upp eins og var raunin oft hér áður fyrr,“ segir Eiríkur.

„Hins vegar verði einfaldlega að ganga út frá því að ráðherrar Bjartrar framtíðar séu einlægir í því að þeir hafi upplifað þarna trúnaðarbrest og að þeir hafi ekki treyst sér til þess halda samstarfinu áfram, bæði vegna þessa máls og fleiri, í kjölfar þess að hann kom upp. Við höfum í sjálfu sér ekkert annað í höndunum en það sem þau sjálf segja.“

Við þessar aðstæður hafi verið heiðarlegast að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert