Sigríður: Aðalatriði að ríkið var sýknað

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er hugsi yfir þeim áfellisdómi sem hæfisnefnd um dómaraefni er að fá í þessum dómi,“ segir Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is. Í dag féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem íslenska ríkið var sýknað af kröfum Ástráðs Haraldssonar og Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar um viðurkenningu skaðabótaskyldu og kröfum um miskabætur vegna skipan dómara í Landsrétt.

Í dómnum kemur fram að stjórnsýslumeðferð Sigríðar við skipun Landsréttardómara hafi ekki verið í samræmi við ársgömul ákvæði laga um dómstóla. Meðferð ráðherrans hafi ekki verið í samræmi við skráðar og óskráðar reglur stjórnsýsluréttarins um rannsókn máls, mat á hæfni umsækjenda og innbyrðis samanburð þeirra.

Ríkið sýknað af öllum kröfum

Hún tekur niðurstöðuna ekki til sín. „Aðalatriði í þessu máli er að ríkið hefur verið sýknað af öllum kröfum í þessu máli, og ég er fegin því.“ Hún segir að í dómnum felist veruleg gagnrýni á dómnefndina en í honum er að nokkru leyti tekið undir þá skoðun ráðherra að annmarkar hafi verið á mati á hæfni umsækjenda. „Þrátt fyrir að þessir annmarkar hafi verið á umsögn dómnefndarinnar er ekki þar með sagt að ráðherra hafi verið sjálfsvald sett hvernig hún hagaði meðferð málsins í framhaldinu.“

Í stjórnsýslurétti sé reglan sú að ef umsögn lögbundins álitsgjafa er haldin annmörkum beri stjórnvaldinu sem tekur ákvörðun að tryggja að bætt verði úr þeim annmarka – afla nýrrar umsagnar.

Sigríður segir að á það beri að líta að hún hafi byggt mat sitt á vinnu nefndarinnar, þó hún hafi svo tekið fleiri menn inn í þann hóp sem hæfir voru taldir. „Það leiðir til þess að ákvörðun mín, sem byggir á hæfismati nefndarinnar, er háð sömu annmörkum.“ Ummæli í dómnum um annmarka á matinu vísi til niðurstöðu hæfnisnefndarinnar.

Knappur tími

Þá segir hún að í niðurstöðu dómsins sé ekki tekið tillit til málshraðans í málinu, lögum samkvæmt. „Að mati stefnda hlýtur að þurfa að taka tillit til þessa fordæmalausa málshraða við mat á því hvort almennum reglum stjórnsýsluréttarins hafi verið fylgt,“ segir í kafla um sjónarmið ríkisins. Í lögum sé gengið út frá því að ráðherra taki afstöðu til tillögu dómnefndarinnar á tveimur vikum en að þar sé miðað við að verið sé að skipa einn dómara. Hún hafi hins vegar verið að skipa 15 dómara úr hópi 33 umsækjenda.

Sigríður bendir á að í niðurstöðu dómsins komi fram að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á að hann hefði verið skipaður dómari við Landsrétt ef meðferð málsins hefði verið í samræmi við lög og reglur stjórnsýlsréttarins.

Og hún les upp úr dómnum: „Í því sambandi er ekki unnt að líta framhjá því að málatilbúnaður stefnanda hefur í meginatriðum byggst á því að leggja hafi átt umsögn dómnefndar til grundvallar mati á hæfni umsækjenda. Þar sem dómurinn hefur hins vegar fallist á þau sjónarmið stefnda að mat dómnefndarinnar hafi verið haldið efnislegum annmörkum og verður það því ekki lagt til grundvallar niðurstöðu dómsins að þessu leyti.“

Okkar færustu lögfræðingar

Sigríður tekur fram að hún fagni þessari niðurstöðu. Spurð hvort umræddir annmarkar á skipan dómaranna séu til þess fallnir að rýra trúverðugleika Landsréttar segir Sigríður svo ekki vera, enda hafi ríkið verið sýknað: „Ég ber fullt traust til þeirra dómara sem nú hafa verið skipaðir og ég held að það sé engum vafa undirorpið að þetta séu á meðal okkar færustu lögfræðinga. Ég tók þessa niðurstöðu hæfnisnefndarinnar og leit svo á að þeir væru á meðal okkar hæfustu manna. En ég stækkaði mengið. Ég er fyrst og fremst ánægð með að sjá hversu margir hæfir umsækjendur voru um stöðurnar. Ég ber fyllsta traust til þessa fólks.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert