Styðja ekki starfsstjórn með Bjarna

Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Eftir að hafa farið yfir þær yfirlýsingar sem komið hafa fram er ljóst að það er enginn flötur á því að búa til einhvers konar fimm flokka stjórn. Það er stjórnmálakreppa og það þurfa allir að ná sér í nýtt umboð til þjóðarinnar,“ sagði Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, eftir að flokkurinn fundaði í Alþingishúsinu.

Umboð til að breyta fjárlögunum

„Það er bagalegt að fara aftur í gegnum fjárlög með splunkunýja ríkisstjórn en við teljum að það sé ljóst að þeir flokkar sem komast að eftir kosningar hafi fullt umboð til að breyta þessum fjárlögum sem við erum með núna, sem eru auðvitað mjög slæm og það var ekki einu sinni meirihluti fyrir þeim á Alþingi,“ sagði Birgitta.

„Ef við förum að bíða mikið með kosningar þá gerist nákvæmlega eins og síðast. Þá var mjög rík krafa í samfélaginu eftir kosningum. Þá var beðið og beðið og þegar loksins kom að því að þá voru allir búnir að gleyma forsendum þess að við vorum að fara að kjósa nýtt þing.“

Laus við Sjálfstæðisflokkinn

Hún bætti við að Píratar séu þegar búnir að ræða við aðra flokka.

„Ég held að það sé ekki séns á að það sé hægt að styðja við starfsstjórn þar sem Bjarni Benediktsson er forsætisráðherra. Ef það á að vera einhvers konar starfsstjórn þarf hún að vera laus við Sjálfstæðisflokkinn. Ég er ekki alveg sjá að það takist. Við erum opin. Við erum tilbúin til að ræða við fólk en eftir að hafa rætt við aðra flokka er ég ekki að sjá fram á að við séum að fara að ná að mynda ríkisstjórn sem getur starfað til næstu ára. Þá er alveg eins gott að boða til kosninga sem allra fyrst.“

„Ekki um auðugan garð að gresja“

Spurð við hverja Píratar hafi rætt segist hún hafa rætt við hina og þessa sem hún hefur rekist á í þinghúsinu. „Það kom yfirlýsing frá Vinstri grænum, Viðreisn og Bjartri framtíð um að óska eftir því að það verði gengið til kosninga. Þá er ljóst að það er ekki um auðugan garð að gresja til að reyna að mynda meirihlutastjórn ef við erum ekki tilbúin til að vinna með Panamaflokkunum.“

Logi Einarsson, Katrín Jakobsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Birgitta Jónsdóttir.
Logi Einarsson, Katrín Jakobsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Birgitta Jónsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert