„Í takt við það sem ég lagði til“

Katrín Jakobsdóttir á Bessastöðum í gær.
Katrín Jakobsdóttir á Bessastöðum í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Forsætisráðherra hefur kynnt formönnum annarra flokka að hann hyggist fara fram á þingrof á morgun. Bjarni Benediktsson á fund með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, á morgun.

„Hann tilkynnti mér það að hann hygðist leggja þetta fram og þetta er í takt við það sem ég lagði til í gær að kosningar yrðu sem fyrst eða 28. október,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, í samtali við mbl.is.

Forseti Alþingis mun í hádeginu á morgun funda með formönnum flokkanna um störf þingsins í aðdraganda kosninga sem nú er útlit fyrir að verði 28. október.

Katrín áréttar að þótt lagt hafi verið fram þingrof geti þingið og nefndir þess þó haldið áfram að starfa fram að kosningum.

„Þingið getur auðvitað starfað eins lengi og það vill eftir þingrofsbeiðnina og nefndirnar geta starfað áfram og allir hafa sitt umboð fram að kjördegi. Þannig að þó að þingrofsbeiðnin fari fram á morgun þá er ekki þar með sagt að það verði ekki haldnir þingfundir og um þau mál sem þykir brýnt að ljúka,“ segir Katrín.

Katrín segir góðan anda vera í sínum flokki sem gangi reiðubúinn til kosninga en landsfundur Vinstri grænna fer fram helgina 6.-8. október.

„Við auðvitað fórum yfir þessa stöðu bara á föstudaginn og okkar fyrstu viðbrögð eru að það væri eðlilegast að boða til kosninga í ljósi þess að meirihlutinn væri fallinn og í ljósi þess líka að það virtust ekki neinir augljósir kostir í stöðunni fyrir annars konar ríkisstjórnarmynstri. Eftir þau samtöl sem við áttum þá bara höfum við talað mjög skýrt fyrir því að bara þjóðin fái núna tækifæri til að koma að borðinu,“ segir Katrín.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert