„Kannast ekki við þá umsögn“

Dómsmálaráðuneytið.
Dómsmálaráðuneytið. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Sveinn Eyjólfur Matthíasson, fyrrverandi verkefnastjóri hjá Kynnisferðum, kannast ekki við að hafa veitt barnaníðingnum Hjalta Sigurjóni Haukssyni meðmæli í tengslum við uppreist æru. Hann hafi, eftir þrýsting frá yfirmönnum, skrifað undir tveggja línu langt bréf um að Hjalti Sigurjón væri stundvís og góður bílstjóri. Hann hafi skrifað undir bréfið gegn loforði um að það yrði ekki notað til umsóknar um önnur störf en starf bílstjóra hjá olíudreifingarfyrirtæki.

Þetta kemur í yfirlýsingu frá Sveini sem vísar því alfarið á bug að hann hafi ritað meðmælabréf fyrir Hjalta Sigurjón. „Og mér þykir miður hvernig sumir fjölmiðlar hafa reynt að bendla við mig þetta mál og svert æru mína í kjölfarið,“ skrifar hann.

Sveinn segir að honum hafi borist afrit af meðmælabréfinu sem Hjalti Sigurjón skilaði inn vegna umsóknar sinnar um uppreist æru ekki fyrr en 16. september síðastliðinn, eða núna á laugardaginn.

Hér fyrir neðan er yfirlýsing Sveins í heild sinni:

Fullyrt hefur verið í fölmiðlum að ég, undirritaður, hafi veitt Hjalta Sigurjóni Haukssyni meðmæli í tengslum við umsókn hans um uppreist æru. Þær upplýsingar eru ekki réttar.

Fyrir nokkrum árum starfaði Hjalti Sigurjón sem bifreiðastjóri hjá Kynnisferðum, meðan ég gegndi þar stöðu verkefnastjóra. Árið 2013, þegar í ljós kom að hann var dæmdur barnaníðingur, var honum sagt upp störfum. Þáverandi framkvæmdastjóri fór í kjölfarið fram á það við mig að hann yrði endurráðinn. Þeim fyrirmælum neitaði ég að fylgja. Nokkrum vikum síðar, í kjölfar fréttaflutnings af Hjalta Sigurjóni, fékk ég svo skilaboð frá stjórnendum fyrirtækisins um að ég réði þessu máli sjálfur og taldi ég því þá lokið.

Nokkrum mánuðum síðar sótti Hjalti Sigurjón aftur um vinnu og framvísaði í því sambandi hreinu sakavottorði. Þáverandi rekstrarstjóri hópbifreiða Kynnisferða hafði ekki verið upplýstur um sögu þessa máls, eða sögu Hjalta Sigurjóns, en ég gerði honum grein fyrir afstöðu minni að Hjalti Sigurjón ætti ekki að starfa við farþegaflutninga sökum fortíðar sinnar og tók hann undir þá niðurstöðu.

Þáverandi framkvæmdastjóri kom í kjölfarið að máli við okkur og spurði hvort ekki væri eitthvað sem við gætum gert fyrir Hjalta Sigurjón, en við ítrekuðum, með vísan í fortíð hans, að það væri alls ekki ráðlegt. Í kjölfarið fór þáverandi stjórnarformaður fyrirtækisins þess á leit við mig að ég skrifaði fyrir Hjalta Sigurjón meðmælabréf. Ég varð ekki við því, en að einhverjum tíma loknum kom Hjalti Sigurjón til mín og bað mig um að skrifa undir meðmælabréf sem hann hafði tilbúið. Ég las bréfið, sem var í heildina ekki mikið meira en tvær línur og á þá leið að hann væri stundvís og góður bílstjóri.

Þetta stutta meðmælabréf var sannleikanum samkvæmt. Sökum þess þrýstings sem ég hefði verið beittur af yfirmönnum mínum skrifaði ég undir það. Það bréf var ætlað til stuðnings umsóknar hans um starf hjá olíudreyfngarfyrirtæki [sic] og lofaði hann því að bréfið yrði ekki notað til umsóknar um önnur störf.

Afrit af meðmælabréfinu sem Hjalti Sigurjón skilaði inn vegna umsóknar sinnar um uppreist æru barst mér ekki fyrr en laugardaginn 16. september s.l. frá ráðuneytisstjóra dómsmálaráðuneytisins. Ég ritaði ekki undir það meðmælabréf og kannast ekki við þá umsögn sem mér er ætluð.

Ég neita því alfarið að ég hafi ritað meðmælabréf fyrir Hjalta Sigurjón vegna umsóknar hans um uppreist æru og mér þykir miður hvernig sumir fölmiðlar hafa reynt að bendla mig við þetta mál og svert æru mína í kjölfarið. Er það ósk mín að þessi yfirlýsing hreinsi nafn mitt og fer ég þess á leit við fjölmiðla, almenning og stjórnvöld að ég verði ekki frekar bendlaður við þetta mál.

Sveinn Eyjólfur Matthíasson

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert