Herjólfur aftur til Landeyjahafnar

Herjólfur á siglingu.
Herjólfur á siglingu.

Herjólfur siglir til Landeyjahafnar í fyrsta sinn í rúma viku seinnipartinn í dag. Skipið er rétt ókomið frá Þorlákshöfn í fyrstu ferð dagsins og er stefnt á tvær ferðir til Landeyjahafnar seinnipartinn.

Að sögn Gunnlaugs Grettissonar, rekstrarstjóra Herjólfs, hafa vandræði verið með dýpi þar sem of mikill sandur var kominn við hafnargarðana. Síðast sigldi Herjólfur til Landeyjahafnar 25. september. 

Hann segir útlitið ekki alveg nógu gott á morgun varðandi siglingar til Landeyjahafnar en frá fimmtudeginum og áfram verða aðstæður líklega góðar. „Við erum að vona að við fáum eitthvað gott tímabil núna í Landeyjahöfn.“

Herjólfur fór í slipp til Danmerkur í vor og þar kom fram að gírar höfðu rifnað í sundur. Skemmd hafði myndast í tannhjóli og átti að gera við það núna um mánaðarmótin september október.

Ekki náðist að klára það að sögn Gunnlaugs en stefnt er á viðgerð í nóvember. Ráðgert er að fara með skipið aftur til Hafnarfjarðar en fyrst þarf að finna afleysingaskip. „Um leið og það hefur verið fundið munum við fara,“ segir hann.

 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert