Gæðavottorð ferðaþjónustu

Dr. Taleb Rifai, sem er aðalritari ferðamálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, hélt …
Dr. Taleb Rifai, sem er aðalritari ferðamálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, hélt erindi á Ferðaþingi 2017 í Hörpu í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Siðareglurnar eru ekki lagalega bindandi en undirritun þeirra er til marks um gæði og heilindi íslenskrar ferðaþjónustu,“ segir dr. Taleb Rifai, aðalritara ferðamálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNWTO), en hann kom hingað til lands til að vera viðstaddur undirritun alþjóðlegra siðareglna UNWTO fyrir ferðaþjónustu á Ferðamálaþingi 2017, sem nú hafa verið þýddar á íslensku.

„Reglunar voru fyrst settar fram af Sameinuðu þjóðunum árið 2001 og ætlaðar opinberum aðilum en með undirritun ferðaþjónustuaðila á einkamarkaði víkkum við út gildissvið þeirra,“ segir hann og vísar til þess að þær Helga Árnadóttir, fyrir hönd Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) og Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, fyrir hönd Íslenska ferðaþjónustuklasans skrifuðu undir siðareglunar á fundinum í gær.

„Umfang siðareglnanna nær allt frá vinnumansali í ferðaþjónustu til náttúruverndar og eru þess vegna gæðavottun sem öll fyrirtæki í ferðaþjónustu ættu að vilja flagga.“

Mikilvægur tímapunktur

Dr. Taleb Rifai hælir bæði umsvifum og uppbyggingu ferðaþjónustu á Íslandi sem hann segir að mörgu leyti vera til fyrirmyndar en örum vexti fylgi líka vandamál.

„Ferðaþjónusta á Íslandi hefur vaxið hratt á undanförnum árum og landið stendur á tímapunkti þar sem ákveða þarf heildarstefnu um atvinnugreinina, þ.e. hvert þið viljið stefna og hvar þið viljið vera eftir áratug,“ segir hann og vísar þá m.a. til siðareglnanna og náttúruverndar.

„Hnattræn mengun virðir engin landamæri og það er verkefni okkar allra að vinna að því að takmarka, t.d. losun gróðurhúsalofttegunda en við verðum líka að gæta að viðkvæmum svæðum í náttúrunni. Hér er náttúran einstök og þið verðið að huga að því hvernig þið nálgist hana og nýtið.“

Spurður um framhaldið og eftirfylgni siðareglnanna segir dr. Taleb Rifai að Sameinuðu þjóðirnar stefni að því að halda ráðstefnu um reglurnar og þannig binda þær í samning sem væri lagalega bindandi fyrir þau ríki sem skrifa undir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert