Umboðsmaður Alþingis fylgist með stöðu fatlaðra

Frestur ráðherra til að svara bréfinu rennur út í dag
Frestur ráðherra til að svara bréfinu rennur út í dag Eggert Jóhannesson

Umboðsmaður Alþingis hefur síðastliðnar vikur fylgst með umfjöllun fjömiðla um að einstökum fötluðum börnum hafi verið synjað um skólavist í framhaldsskóla komandi vetur en einkum hefur verið fjallað um mál tveggja fatlaðra drengja í þessari stöðu og samskipti aðila þeim tengdum við stjórnvöld vegna málsins. 

Frétt mbl.is: Dreng­irn­ir ekki komn­ir inn í fram­halds­skóla

Fréttirnar urðu tilefni þess að umboðsmaður sendi mennta- og menningarmálaráðherra bréf þann 26. október síðastliðinn þar sem óskað er eftir upplýsingum um hvernig almennt sé staðið að mati ráðuneytisins á árlegri þörf á lausum plássum fyrir nemendur með sérþarfir. Þá óskaði umboðsmaður sérstaklega eftir upplýsingum um mál drengjanna tveggja og aðkomu ráðuneytisins að þeim.

Upplýsinganna er óskað til þess að umboðsmaður geti tekið afstöðu til þess hvort tilefni sé til að taka almenna framkvæmd mennta- og menningarmálaráðuneytisins í málum af þessum toga eða einstaka þætti hennar til athugunar að eigin frumkvæði. Ráðuneytinu var gefinn frestur til 10. október til að svara fyrirspurninni og rennur hann því út í dag. Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu embættisins.

Stjórnarskrárvarin réttindi

Í bréfinu sem umboðsmaður ritaði til ráðherra segir að samkvæmt 2. mgr. 76. gr. stjórnarskrár Íslands skuli öllum tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Þá er kveðið á um hliðstæða skyldu í 28. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem hefur verið lögfestur hér á landi. Jafnframt er kveðið á um það í lögum lögum um framhaldsskóla að allir þeir sem lokið hafa grunnskólanámi, hlotið jafngilda undirstöðumenntun eða náð 16 ára aldri eigi rétt á að hefja nám í framhaldsskóla. 

Í bréfinu er tveimur spurningum beint til mennta- og menningarmálaráðherra. Í fyrri spurningunni er spurt hvort upplýsinga liggi fyrir hjá ráðuneytinu um hvort fleiri nemendur með fötlun en þeir tveir sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum hafi ekki fengið skólavist í haust vegna skorts á lausum plássum og í seinni spurningunni er spurt hvort fyrir liggi raunhæf áætlun um hvernig eigi að bregðast við aðstæðum þeirra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert