„Svo varð bara allt vitlaust“

Mótmælendur veifa fánum Spánar og Katalóníu og Spánar í Barcelona …
Mótmælendur veifa fánum Spánar og Katalóníu og Spánar í Barcelona í dag. Á spjöldunum stendur "Já Katalónía og Spánn líka". AFP

Spánverjar fagna í dag þjóðhátíðardegi sínum. Veruleg spenna er þó enn í Katalóníu eftir umdeilda sjálfstæðiskosningu fyrr í mánuðinum. Þær Kristín Júlla Kristjánsdóttir og Eva Vala Guðjónsdóttir urðu illilega varar við spennuna í héraðinu er þær voru staddar á kaffihúsi við Katalóníutorg í Barcelona í morgun.

„Við sátum í makindum okkar, fengum okkur kaffi og horfðum á fólk vera byrja í göngunni [mótmælagöngu vegna atkvæðagreiðslunnar] og allt leit mjög friðsælt út,“ segir Kristín. Verið var að stilla upp fyrir dagskrá og ræðuhöld á nærliggjandi torgi. „Okkur fannst þess vegna frábær hugmynd að sitja þarna og fylgjast með.“

Þær voru þó ekki búnar að sitja lengi þegar það kom til átaka „Þetta byrjaði þannig að það kom ung stúlka og byrjaði að hrópa „áfram Katalónía“,“ segir Kristín. Strax í kjölfarið hafi tveir menn komið þar að og annar þeirra hafi síðan slegið flösku eða glasi í höfuðið á öðrum manni. „Það komu fleiri að þar á eftir og svo varð bara allt vitlaust.“

Kristín Júlla Kristjánsdóttir og Eva Vala Guðjónsdóttir í Barcelona í …
Kristín Júlla Kristjánsdóttir og Eva Vala Guðjónsdóttir í Barcelona í gær. Þær hafa nú komið sér til Sitges eftir atburði morgunsins. Ljósmynd/Facebook

Eva að sín fyrstu viðbrögð hafi verið að rífa í Kristínu og svo hafi þær byrjað að hlaupa. „Þetta var bara eitthvað viðbragð,“ segir hún. „Við hlupum ásamt fjölda manns niður Römbluna. Þar var fólk að benda manni að koma inn á staði áður en járnhliðin yrðu sett fyrir. Síðan kom löggan kom að og svo heyrðum við bara læti. Við vorum ekki vissar um hvort þetta væru byssuskot eða eitthvað annað.“

Upplifðum okkur í hættu

Kristín segir hljóðin hafa líkst skothríð eða litlum sprengjum. „Þetta var bara hræðileg lífsreynsla. Við vissum ekkert hvað var að fara að gerast, nema að við upplifðum okkur í  hættu. Það var bara þannig.“

Þær segja lögreglubíla hafa drifið að úr öllum áttum. „Ég held að við höfum eiginlega fengið taugaáfall,“ segir Kristín. 

Eva bætir við að mikið sé búið að bera á lögreglu í Barcelona undanfarið og að svo virðist sem aðgerðir hafi farið í gang strax og upp úr sauð. „Það er mikill viðbúnaður,“ segir hún. „Ég held að það hafi líka bjargað því að það fór ekki verr.“

Um leið og þær voru komnar inn í annað hverfi þá var allt með ró og spekt.

Mótmælendur brenna fána Katalóníu á fundi hægri öfgamanna í Barcelóna …
Mótmælendur brenna fána Katalóníu á fundi hægri öfgamanna í Barcelóna á þjóðhátíðardegi Spánar. AFP

Þær segjast hafa upplifað spennu í Barcelona þann hálfa mánuð sem þær hafa dvalið þar. „Ég hef aldrei upplifað Barcelona áður með þessum hætti, segir Eva. „Hún er kraumandi. Það er allt önnur orka í borginni en verið hefur.“

Þær hafa nú komið sér til Sitges ásamt þriðju vinkonunni og ætla að vera þar það sem eftir lifir ferðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert