Flæddi upp úr niðurföllum

Mikil úrkoma hefur verið á Siglufirði og Ólafsfirði í gær …
Mikil úrkoma hefur verið á Siglufirði og Ólafsfirði í gær og í nótt en heldur hefur dregið úr henni undir morgun. Veðurstofa Íslands

Mjög mikil úrkoma hefur verið á Siglufirði allt frá hádegi  í gær og hefur mælist hún um 90 millimetrar. Í nótt flæddi upp úr niðurföllum víða á Siglufirði en ekki hafa borist fréttir af miklu tjóni.

Töluvert hefur dregið úr úrkomunni síðustu tvo tímana að sögn Daníels Þorlákssonar, vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Hann segir að úrkoman hafi verið mjög mikil í átján tíma en allt bendi til þess að það verði að mestu hætt að rigna undir hádegi. Spáin sé að ganga eftir og mjög hafi dregið úr úrkomunni undanfarna tíma.

Nánar verður fjallað um vatnsveðrið á Siglufirði á mbl.is síðar í dag.

Veðurstofan gaf út viðvörun vegna vatnavaxta á Norðurlandi í gær og er hún enn í gildi.  Búist er við vatnavöxtum á annesjum á Norðurlandi og aukinni hættu á skriðuföllum. Styttir upp fyrir hádegi í dag. 

Búast við talsverðri eða mikilli rigningu eða slyddu norðvestanlands og á annesjum nyrst fyrri hluta dags. 

Nú er djúp lægð (um 960 mb) skammt norðan við Melrakkasléttu. Fram eftir morgni má búast við hvassviðri og talsverðri rigningu eða slyddu á láglendi norðvestan- og norðanlands. Á fjallvegum má búast við hríðarveðri, t.d. á Öxnadalsheiði og Möðrudalsöræfum.

Batnandi veður á þessum slóðum með morgninum þegar lægðin fer til norðausturs og fjarlægist landið. 

Að sögn Daníels fer lægðin norðaustur yfir þannig að austan Tröllaskaga, Holtavörðuheiði í fyrstu og síðan heldur það áfram austur yfir. Þannig að spáin er ekki góð fyrir Norðaustur- og Austurland í dag, það er frá Mýrdalsjökli í Skagafjörð. Ekki verður stormur alls staðar en víða kröftugir vindstrengir. 

Í dag verður ákveðin norðvestan átt, yfirleitt 13-18 m/s en sumstaðar í 23 m/s við fjöll á austur helmingi landsins. Talsverð rigning í fyrstu norðanlands en dregur úr henni er líður á daginn og úrkomulítið verður í kvöld, og í kjölfarið lægir einnig. Vestan 8-13 vestan til á landinu og skúrir síðdegis. Hiti 3 til 8 stig.

Næturfrost víða í nótt

Lægir um allt land í nótt og styttir upp. Því kólnar talsvert í nótt og má búast við næturfrosti víða um land í nótt, einkum inn til landsins. Hæg breytileg átt á morgun og léttskýjað en þó þungbúnara og skúrir við vesturströndina. 

Áfram hægur vindur og úrkomulítið á mánudag en vaxandi austlæg átt á þriðjudag sem útlit er fyrir að haldist fram að helgi. Víða rigning með köflum sunnan til á landinu í vikunni en úrkomulítið og bjart með köflum norðanlands. Fremur svalt í veðri.

Veðurspá fyrir næstu daga

Norðvestan 13-23 m/s, hvassast í vindstrengjum við fjöll. Talsverð rigning eða slydda norðan til og jafnvel mikil úrkoma á Tröllaskaga í fyrstu en dregur úr úrkomu með deginum. Þurrt að kalla sunnan- og austanlands en vaxandi vestan átt vestanlands, 8-13 m/s og skúrir síðdegis. Hiti víða 3 til 8 stig.

Lægir seint í kvöld eða nótt og styttir upp. Hæg breytileg átt á morgun og bjart með köflum en að mestu skýjað suðvestanlands. Hiti yfirleitt 3 til 8 stig en víða má búast við næturfrosti, einkum inn til landsins.

Á sunnudag:
Vestlæg eða breytileg átt 3-8 m/s. Skýjað með köflum og dálitlir skúrir eða jafnvel slydduél, en léttskýjað austanlands. Hiti 2 til 7 stig yfir daginn, en líkur á næturfrosti, einkum inn til landsins. 

Á mánudag:
Sunnan 3-8 m/s. Skýjað með köflum og þurrt að kalla á Suður- og Vesturlandi, en léttskýjað norðan- og austanlands. Áfram svalt í veðri. 

Á þriðjudag:
Gengur í suðaustan 8-15 m/s, hvassast við suðvesturströndina. Skýjað að mestu og lítilsháttar væta, en hægari vindur og bjart á Norður- og Austurlandi. Hiti 2 til 8 stig. 

Á miðvikudag og fimmtudag:
Ákveðin austan átt, 13-18 syðst á landinu en annars 5-13. Úrkomulítið norðan- og vestanlands en rigning annarsstaðar, einkum suðaustan til á landinu. Hiti 3 til 9 stig. 

Á föstudag:
Útlit fyrir austlæga átt og rigningu um tíma í flestum landshlutum en þurrt að kalla norðvestan til. Hiti yfirleitt 4 til 9 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka