Fimm Esjugöngur á fimm dögum

Þórhallur Þórhallsson, grínisti, ætlar að ganga fimm sinnum upp á …
Þórhallur Þórhallsson, grínisti, ætlar að ganga fimm sinnum upp á Esjuna á fimm dögum til að vekja athygli á geðheilbrigðismálum á Íslandi. Ljósmynd/Bjarni töframaður

Grínistinn Þórhallur Þórhallsson leggur upp í geggjaða göngu í vikunni þegar hann ætlar að ganga einu sinni á dag upp á Esjuna næstu fimm daga. Tilgangurinn? Að vekja athygli á geðheilbrigðismálum á Íslandi.

„Mig langar að opna umræðu um geðheilbrigðismál og leggja áherslu á þunglyndi og kvíða. Sjálfur þjáist ég af kvíða og hef tjáð mig opinskátt um það áður,“ segir Þórhallur í samtali við mbl.is.

Í baráttu sinni við kvíðann hefur það hjálpað Þórhalli að tala um hlutina og láta vaða. Hann segir fjallganga sé því í raun alls ekki ólík hans upplifun af kvíðanum. „Að labba upp á Esjuna er eins og reyna að laga kvíða og þunglyndi. Þú ert ekki viss um að þú getir það. En með því að láta bara vaða þá er ekkert sem getur stoppað þig.“

Þórhallur hefur fjallað um kvíðann í uppistandi sínu en nú vill hann opna umræðuna enn frekar. „Ég tala mjög opinskátt um þetta. Að fara upp á svið, tala um þetta og gera grín, þetta er ekki tabú.“

Ástæða þess að Þórhallur ætlar ekki að láta eina göngu nægja er að kvíðinn lætur oftar en ekki kræla á sér í lengri tíma. „Þetta er ekki einhver einn dagur, þú þarft alltaf að standa í þessu,“ segir Þórhallur.

Í engu formi en sýnir beint frá öllu á Snapchat

Hann hvetur sem flesta til að slást í för með sér en þeir sem eiga ekki kost á því geta fylgst með göngunum á Snapchat. Notendanafn Þórhalls er toto1983. Á Snapchat mun hann einnig kynna samtök sem vinna að geðheilbrigðismálum. „Fyrir hvern dag sem ég labba mun ég vekja athygli á samtökum sem láta sig geðheilbrigðismál varða,“ segir Þórhallur, en það kom honum á óvart hversu mörg samtök um geðheilbrigði starfa á Íslandi.  

Þórhallur er spenntur fyrir verkefninu og mun leggja upp í fyrstu gönguna klukkan 13 á morgun. „Ég er í engu formi þannig það verður áhugavert hvort ég muni lifa þetta af,“ segir hann og hlær. Aðspurður hvort hann sé búinn að fylgjast með veðurspánni segir hann að það þýði ekkert að fara eftir veðurspánni á Íslandi. „En ef það verður skýjað og rigning verður þetta bara dramatískara og meira eins og að þegar maður er að berjast við þunglyndið og kvíðann, sem á bara vel við.“

Hér má nálgast frekari upplýsingar um Geggjuðu gönguna með Þórhalli. 






mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert