Ekki starfstjórnar að ræða við Skútustaðahrepp

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra afhendir Þorsteini Gunnarssyni, sveitarstjóra Skútustaðahrepps, bréfið.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra afhendir Þorsteini Gunnarssyni, sveitarstjóra Skútustaðahrepps, bréfið. Ljósmynd/Fjármálaráðuneytið

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra afhenti í dag sveitarstjórn Skútustaðahrepps bréf fjármála- og efnahagsráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra um umbætur í fráveitumálum sveitarfélagsins. Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins.

Í bréfinu segir að þar sem þingkosningar fari fram eftir rúma viku þyki starfsstjórn ekki rétt að ríkisvaldið fari í viðræður við Skútustaðahrepp fyrr en að loknum kosningum og myndun nýrrar ríkisstjórnar, sem muni þá eiga auðveldara um vik að ná niðurstöðu og fylgja eftir ákvörðunum sínum.

Í bréfinu kemur einnig fram að málið hafi verið rætt í ríkisstjórn 28. apríl og að þá hafi verið lagt fram minnisblað fjármála- og efnahagsráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra. Ráðherrarnir tveir hafi enn fremur fundað með forráðamönnum sveitarfélagsins 24. maí sl. og lýst þá yfir vilja sínum til þess að ríkið kæmi fjárhagslega og faglega að málinu. „Umræður um málið hafi leitt í ljós ríkan velvilja af hálfu ríkisstjórnar og ráðuneyta vegna umbótanna. Verkefnið sé þó nokkuð flókið, bæði verkfræði- og lagalega, og ýmis álitamál uppi sem þurfi að ræða og greiða úr,“ segir í fréttinni.

Ráðuneytunum sé þó kunnugt um að sveitarstjórn og aðrir aðilar í Skútustaðahreppi séu undir nokkrum þrýstingi að gefa upplýsingar um fjármögnun fráveitumála, „þar á meðal um hugsanlegan hlut ríkisvaldsins. Vonandi verður hægt að fá frest vegna þess í ljósi aðstæðna. Ekki er um bráðavanda að ræða í Mývatni, heldur er unnið að langtímalausn til að tryggja að álag á lífríki vatnsins vegna fráveitna verði sem minnst til frambúðar. Þar skiptir miklu að byggja á góðri greiningu á lausnum sem eru í boði, til þess að tryggja að bestu og hagkvæmustu kostirnir séu valdir. Rétt er að vinna málið eins hratt og auðið er, en þó ljóst að það mun að líkindum taka nokkra mánuði að ná niðurstöðu eftir að viðræður hefjast,“ segir í bréfi ráðherra.

Þar segir ennfremur að ráðuneytin telji að um sérstakt viðfangsefni sé að ræða, sem hafi ekki fordæmisgildi varðandi fráveitumál almennt, þar sem Mývatn og Laxá njóta sérstakrar verndar skv. lögum og sveitarstjórn Skútustaðahrepps búi því við aðrar og meiri kröfur um hraðar úrbætur í fráveitumálum en önnur sveitarfélög.

„Fjármála- og efnahagsráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið ítreka hér með vilja sinn til að fara yfir málið með sveitarstjórn Skútustaðahrepps og öðrum sem málið varðar á grundvelli laga og reglugerða um fráveitumál og vernd Mývatns og Laxár,“ segir í bréfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert