Lögbannið verði ekki fordæmisgefandi

Hallgrímur Óskarsson, til vinstri, og Eiríkur Jónsson á fundinum.
Hallgrímur Óskarsson, til vinstri, og Eiríkur Jónsson á fundinum. mbl.is/Árni Sæberg

Eiríkur Jónsson, prófessor við Háskóla Íslands, hefur áhyggjur af því hversu víðtækt lögbann sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu er gagnvart fréttaflutningi Stundarinnar og Reykjavík Media upp úr gögnum úr gamla Glitni.

Þetta kom fram á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

Á fundinum greindi Eiríkur frá því að það megi grípa til lögbanns og takmarka tjáningarfrelsi en það þurfi að uppfylla skilyrði um réttmæt markmið lögbannsins og að það sé nauðsynlegt í lýðræðislegu þjóðfélagi. Staðan sé svipuð þegar kemur að mannréttindasáttmála Evrópu.

Hann sagði það geta verið fyllilega réttmætt að grípa til lögbanns þrátt fyrir takmörkun tjáningarfrelsis, til dæmis varðandi birtingu heilsufarsupplýsinga. Ríka ástæðu þurfi samt til að takmarka tjáningafrelsi fyrirfram. 

Sýslumanni vorkunn 

Hann bætti við að sýslumanni væri vorkunn því allt í einu hafi honum verið kastað inn í hringiðu stjórnskipunarréttar og þurft að leggja mat á lögbannskröfuna. „Ég er ekki viss um að Mannréttindadómstóll Evrópu myndi hafa samúð með þeim vandamálum,“ sagði hann og nefndi að málið líti illa út utan frá þar sem fulltrúi ríkisvaldsins sé að banna umfjöllun fjölmiðla.

Frá fundinum í morgun.
Frá fundinum í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Svarað í dómaframkvæmd

Eiríkur var spurður hvort nauðsynlegt sé að gera lagabreytingar til að tryggja betur frelsi fjölmiðla  og sagði hann að það væri hægt en á endanum ráðist málið af reglum stjórnskipunarréttar og mannréttindaákvæða. „Löggjafinn getur hugsað hvernig er hægt að tryggja þetta best með almennum lögum en á endanum er þessu svarað í dómaframkvæmd hér og úti í Strassborg.“

Spurður sagði hann að það kæmi til álita að íslenska ríkið væri skaðabótaskylt vegna lögbannsins en spurningin væri þá um tjónið og hvert skuli beina kröfunni.

Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði  að fjallað væri um þagnarskyldu í 142 íslenskum löggjöfum og spurði hvort ekki þyrfti að afnema þessi ákvæði, eða þá að undanskilja persónur í áberandi stöðu í þjóðfélaginu. Eiríkur sagði erfitt að undanskilja einhverjar persónur og ákveða að leynd gildi ekki um þær.

„Fráleit“ gagnrýni á sýslumann

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að sýslumaðurinn hafi farið eftir 58. grein stjórnarskrárinnar með lögbanninu. „Öll þessi gagnrýni á sýslumanninn sjálfan er fullkomlega fráleit að mínu mati,“ sagði hann.

Eiríkur endurtók að sýslumanni væri vorkunn en að alltaf færi samt fram mat hjá honum. „Ég er ekki að gagnrýna sýslumann sérstaklega. Ég er fyrst og fremst að horfa á þetta utan frá.“

Segir málið geta orðið fordæmisgefandi

Hallgrímur Óskarsson, varaformaður Gagnsæis, sat einnig fyrir svörum á fundinum. Hann sagði það mjög slæmt þegar þjóðfélagið uppgötvi að ritstjórnarlegt frelsi sé takmarkað með svona afgerandi hætti og þegar hagsmunir almennings séu ríkari.

„Aðalhættan þegar svona aðgerð fer fram er að hún verður fordæmisgefandi,“ sagði hann og bætti við að mjög mikilvægt væri að hnekkja úrskurðinum og draga hann til baka.

Hallgrímur sagði lögbannið jafnframt hægja á framþróun gegnsæis á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert