Skaflinn í Gunnlaugsskarði lifði af sumarið

Skaflinn í Gunnlaugsskarði vestan við Kistufell hverfur ekki í ár.
Skaflinn í Gunnlaugsskarði vestan við Kistufell hverfur ekki í ár. mbl.is/Brynjar Gauti

Gránað hefur í Esjuna og farið að fjúka í litla skafla í efstu brúnum. Engu að síður sést enn móta fyrir gömlum sköflum efst í Gunnlaugsskarði.

„Sýnist að óhætt sé að slá því föstu að skaflinn fari ekki þetta árið,“ segir í frétt á heimasíðu Veðurstofunnar, að því er fram kemur í  Morgunblaðinu í dag.

Í gegnum tíðina hafa Reykvíkingar fylgst spenntir með því ár hvert hvort skaflinn í Gunnlaugsskarði í Esjunni hverfi alveg.

Í hlýjum árum bráðnar skaflinn áður en snjór tekur að safnast þar fyrir aftur að hausti en á köldum tímabilum helst hann allt árið. Fram undir aldamót hvarf skaflinn yfirleitt ekki. Eftir árið 2000 hefur hann undantekningalítið horfið alveg. Hann hvarf haustið 2012 en var mjög stór 2013. Síðan hefur skaflinn ekki horfið en farið minnkandi ár frá ári.

Páll Bergþórsson veðurfræðingur hefur skrifað fróðleik um fannir í Esju, meðal annars um skaflinn í Gunnlaugsskarði og hvaða vísbendingu fyrri athuganir gefa um breytingu á lofthita. Hann segir skaflinn ágætan mælikvarða á hitasveiflur. Frá síðari hluta 19. aldar fram til 1929, eða þar um bil, hafi skaflinn aldrei bráðnað. Fram til 1960 hafi hann horfið mörg árin, en síðan aldrei fram til aldamóta. Frá aldamótum hafi hann oftast bráðnað. sisi@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert