Erfiðasta verkefnið til þessa

AFP

„Landamærin við Mjanmar (Búrma) eru bara átakasvæði. Það eru um 200.000 manns í kringum landamærin og stöðugur straumur af fólki inn til Bangladess,“ segir Aleksandar Knezevic, sendifulltrúi Rauða kross Íslands í Bangladess. Að minnsta kosti 530.000 róhingjar hafa flúið Mjanmar eftir að blóðug átök hófust í landinu í haust.

Hann segir að ástandið í Bangladess sé það versta sem hann hefur séð en hann á að baki langan feril fyrir Rauða krossinn á Íslandi. Hann starfaði meðal annars í neyðaraðgerðunum á Haítí árið 2010 eftir jarðskjálfta í landinu. Hann starfaði á Filippseyjum í kjölfar fellibylsins árið 2013 ásamt því að hafa verið sendur til Nepal eftir jarðskjálftahamfarirnar árið 2015.

Rohingjar á flótta.
Rohingjar á flótta. Amnesty International

„Á spítalanum sem ég var á voru um 10 til 20 þúsund manns og það var mikil óreiða á svæðinu og ekkert eftirlit með fólkinu sem var að koma inn,“ segir Aleksandar sem að öllu jöfnu starfar sem rafvirki hjá Orku náttúrunnar/Veitum hér á Íslandi. Hann kom til Íslands í vikunni eftir fjögurra vikna dvöl á svæðinu þar sem hann starfaði sem tæknimaður í neyðarsjúkrahústeymi sem er stýrt af norska Rauða krossinum.

Flóttamannabúðir í Bangladess.
Flóttamannabúðir í Bangladess. Amnesty International

Átökin í Mjanmar hófust þegar vopnaður hópur róhingja réðst gegn 30 varðstöðvum öryggissveita Mjanmar 25. ágúst. Í kjölfarið hafa öryggissveitirnar stundað kerfisbundið og vægðarlaust stríð gegn róhingjum í norðurhluta Rakhina-héraðs. „Í þessari vel útfærðu herferð hafa öryggissveitir Mjanmar hefnt sín grimmilega á gjörvöllu róhingja-fólkinu í norðurhluta Rakhina-fylkis í augljósri tilraun til að hrekja það úr landi,“ segir Tiarana Hassan, framkvæmdastjóri neyðarviðbragða hjá Amnesty International, en Aleksandar var staddur við landamæri Bangladess og Mjanmar.

Amnesty International

„Spítalinn sem ég var á er um 40 kílómetra frá landamærunum. Bærinn er í raun eldri flóttamannabúðir frá níunda áratugnum þar sem fólk úr Rakhina-fylki settist að með leyfi yfirvalda í Bangladess,“ segir Aleksandar.

Spurður um ástand fólksins þegar það kom yfir landamærin segir hann marga vera í mjög slæmu ásigkomulagi. „Þetta er löng leið sem þau eru að ferðast, sum hver eru tvær til þrjár vikur á ferðalagi frá miðju Mjanmar. Þau eru örmagna og vannærð þegar þau koma yfir landamærin og enginn veit hvenær þau borðuðu síðast. Heilbrigðis- og hreinlætisstaða fólksins er virkilega slæm. Svo eru einnig að koma börn yfir landamærin með króníska sjúkdóma sem þau hafa ekki fengið meðferð við,“ segir Aleksandar en þar sem róhingjar eru ekki viðurkenndur minnihlutahópur í Mjanmar hafa þau ekki haft sama aðgang og aðrir að menntun eða heilbrigðisþjónustu í landinu til lengri tíma.

Amnesty International

„Margir eru með ómeðhöndlaða sjúkdóma. Við sáum mikið af nýjum meiðslum en einnig mikið af ómeðhöndluðum eldri meiðslum,“ segir hann. Hann segist hafa farið út sem tæknimaður fyrir sjúkrahúsið en í raun hafi hann verið settur í öll verk vegna manneklu. „Vinna mín sneri að mestu leyti að öllu tæknilegu, öllu sem tengdist pípulagningum og rafmagni og þess háttar. Ég var síðan líka í ýmsum verkefnum allt frá því að grafa skurði í að afferma sendingar. Í raun allt sem var ekki læknisfræðilegt,“ segir Aleksandar og bætir við að spítalarnir í Bangladess hafi með engu móti verið tilbúnir fyrir þennan gríðarlega fjölda fólks. „Spítalinn var fyrir með u.þ.b 200% fleiri sjúklinga en hann gat ráðið við þannig að ástandið var virkilega slæmt. Bangladess er fátækt land og því er ástandið mjög erfitt.“

AFP

 „Ég var í Bangladess í fjórar vikur og ég verð að segja að þetta er eitt átaklegasta verkefnið hingað til, allavega eitt það erfiðasta,“ segir Aleksandar. Spurður um hvort hann muni fara aftur þangað á vegum Rauða krossins segist hann ekki vita til þess.

„Ég veit það ekki, núna þarf ég allavega hvíld. Kannski mun ég fara í aðra sendiferð, ég er alltaf tilbúinn, en núna þarf ég bara að hvíla mig.“

Skýrsla Amnesty International um ástandið í Bangladess

AFP
AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert