Aðgerðarstjórn hefur verið virkjuð

Frá Skógarhlíð.
Frá Skógarhlíð. mbl.is/Júlíus

Aðgerðarstjórn  á höfuðborgarsvæðinu var virkjuð klukkan 13. Þetta segir upplýsingafulltrúi Landsbjargar.

Lögreglan og svæðisstjórn björgunarsveitanna á höfuðborgarsvæðinu og aðrir viðbragðsaðilar eru því í viðbragðsstöðu vegna veðursins.

Ekki er búið að virkja samhæfingarstöð eins og mbl.is greindi áður frá en þar var vitnað í lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.

Óveðrið á að ná hámarki á höfuðborgarsvæðinu á milli kl. 17 og 18 í dag.

Hlutverk Samhæfingarstöðvarinnar er aðallega að vera punktur samhæfingar á landsvísu, bæði í almannavarnaraðgerðum sem og leit og björgun. Þegar samræma þarf aðgerðir milli svæða eða umdæma koma saman í stjórnstöðinni þeir aðilar sem koma að aðgerðinni. 

Veðurstofan hefur varað við suðaustanstormi á landinu og má búast við miklum röskunum af hans sökum. Eins og áður hefur komið fram verða ýmsar raskanir á samgöngum og er fólk beðið að sýna ýtrustu varúð. Að venju hefur einnig verið biðlað til fólks að athuga lausa muni og koma í veg fyrir að þeir geti orðið vindinum að bráð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert