Hvaða menntun mun vanta í framtíðinni?

Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra.
Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hvar eru tækifærin á atvinnumarkaði hér á landi á komandi árum, hvar stöndum við í dag þegar kemur að því að mennta fólk í þær atvinnugreinar sem hér eru stundaðar og hvers konar stefna ætti að vera í gildi varðandi mismunandi nám þegar horft er til þessara atriða? Þetta er meðal spurninga sem spurt verður að á ráðstefnu um færnisgreiningu á vinnumarkaði og þróun í starfi á morgun, en ráðherra segir yfirvöld í gegnum tíðina hafa verið stefnulaus í þessum málaflokki.

Skýrsla í lok ársins um stöðuna

Velferðarráðuneytið skipaði fyrr á árinu vinnuhóp sem á að skila skýrslu um stöðu mála hér á landi, framtíðahorfur um mannaflsþörf og mögulega stefnumótun í þessum málaflokki. Er skýrslunnar að vænta í desember.

Til að kynna verkefnið og hugmyndina um færnisgreiningu verður sem fyrr segir haldin ráðstefna á morgun á Hilton þar sem erlendir sérfræðingar verða fengnir til að kynna þær aðferðir sem nýttar eru í Bretlandi, Svíþjóð, Írlandi og víðar við að meta þessi atriði.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, segir í samtali við mbl.is að í þessu felist meðal annars að átta sig á mannaflsþörf í dag og á komandi árum út frá mismunandi menntastigi og milli einstakra greina. Þá sé horft til þess hver þörfin sé á milli iðn- og bóknáms og annarra þátta.

Hvers konar menntun mun okkur vanta?

„Svo þurfum við að átta okkur á því hvert við erum að stefna og hvers konar menntun okkur mun vanta miðað við þá þróun sem við sjáum fyrir,“ segir Þorsteinn og bætir við að fjórða tæknibyltingin muni meðal annars koma sterk inn í þessa greiningu.

Spurður út í færni sem skorti á vinnumarkaðinn segir Þorsteinn að meðal annars ætti að gera betur í að ýta undir ýmiskonar tæknigreinar og þá sé viðvarandi skortur í iðngreinum. Nefnir hann líka raungreinar innan háskóla og ekki síður skapandi greinar og samspil þeirra við raungreinar, tækniþróun og nýsköpun. „Eitt af því sem klárlega mætti styrkja í þessu samhengi eru listgreinar og skapandi greinar. Lykillinn að árangri í tækni- og hugbúnaðarfyrirtækjum er samspil raungreina og hönnunar.“

Stjórnvöld stefnulaus hingað til

Segir Þorsteinn að ekki hafi verið unnið markvisst að uppbyggingu á þeirri menntun og færni sem skortur hafi verið á hér á landi og stjórnvöld hafi verið stefnulaus þegar horft sé til iðn- og bóknáms.Segir hann að skólunum hafi verið látið eftir hvaða námsframboð sé fyrir hendi, en að ekki sé óeðlilegt að sterkt samband sé á milli skóla og atvinnulífs um hvaða störf séu í boði í framtíðinni.

„Við þurfum skýrari mynda af því hvaða menntun við þurfum að leggja áherslu á á komandi árum og áratugum og að veita nemendum nægjanlega góða greina fyrir því hvaða tækifæri felist í mismunandi menntaleiðum,“ segir Þorsteinn.

Upplýsingagjöfin mikilvægust

Nefnir hann sérstaklega að oft hafi verið uppi ákveðnir fordómar gegn iðnnámi, ekki síst hjá foreldrum grunnskólabarna. „Fyrsta skrefið er að efla fræðslu gagnvart foreldrum nemendum á grunnskólastigi um hvar tækifærin eru mest á komandi tímum,“ segir Þorsteinn. Hann tekur fram að á endanum taki fólk alltaf sjálft ákvörðun um hvað það vilji læra og ríkið eigi ekki að vera með forsjárhyggju. Aftur á móti skipti miklu að vera með upplýsingagjöf um raunverulega stöðu og mögulega framtíðarmöguleika.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert