18 af 74 styrktu Stígamót í fyrra

Húsnæði Stígamóta.
Húsnæði Stígamóta. mbl.is/Árni Sæberg

Félagsmálaráð Dalvíkurbyggðar hefur hafnað beiðni Stígamóta um rekstarstyrk til samtakanna með þeim rökum að þau veiti ekki þjónustu á svæðinu. Þetta kemur fram í fundargerð ráðsins. 

Aðspurð segir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, formaður Stígamóta, að þetta hafi ekki komið á óvart því flest sveitarfélög ákveði að styrkja samtökin ekki.

Á hverju ári senda samtökin beiðni um styrk til allra sveitarfélaga á landinu og kynna fyrir þeim starfsemina. Af þeim 74 sveitarfélögum sem eru á landinu styrktu 18 samtökin í fyrra á meðan níu svöruðu neitandi. Ekki bárust svör frá hinum sveitarfélögunum.

Helmingur búsettur utan Reykjavíkur

Stígamót berjast gegn kynferðisofbeldi og veita fólki aðstoð sem hefur verið beitt slíku ofbeldi. Samtökin eru með viðveru á nokkrum stöðum á landsbyggðinni en núna bjóða þau upp á með hálfsmánaðar viðtalsþjónustu á Egilsstöðum, Ísafirði og í Borgarnesi. Verkefnið heitir Stígamót á staðinn.

„Við höfum verið á mismunandi stöðum á landsbyggðinni í gegnum tíðina en við höfum aldrei verð beinlínis með viðveru á Eyjafjarðarsvæðinu. Þar starfa samtökin Aflið sem hafa sinnt ágætlega þjónustu við brotaþola á Akureyri og í byggðunum í kring,” greinir Steinunn frá.

Hún tekur fram að sveitarfélög um allt land séu að styðja við starfsemi Stígamóta en um helmingur þeirra sem leita til samtakanna er búsettur utan Reykjavíkur.

„Margir nýta sér þjónustuna í gegnum síma, koma til Reykjavíkur reglulega eða eru að nýta sér þjónustuna á þessum stöðum þar sem við erum. Þetta er í rauninni samvinnuverkefni okkar allra að halda úti þjónustu fyrir brotaþola og þess vegna bjóðum við sveitarfélögunum öllum að taka þátt í þessu og það er mismunandi hvernig þau bregðast við því. “

Sum gefa 50 þúsund krónur

Að sögn Steinunnar gefa sum af minni sveitarfélögunum 50 þúsund krónur til starfseminnar á meðan önnur leggja kannski til 10 þúsund krónur til að styðja táknrænt við hana. 

Á síðasta ári fengu Stígamót 14,9 milljónir króna í styrk frá sveitarfélögunum, þar af um 11,6 milljónir frá Reykjavíkurborg en samtökin eru með þjónustusamning við borgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert