„Kallar á stóraukið eftirlit“

Öræfajökull. Áhættumatið segir að enginn bær í Öræfasveit sé öruggur …
Öræfajökull. Áhættumatið segir að enginn bær í Öræfasveit sé öruggur gjósi í jöklinum. mbl.is/Rax

„Þetta kallar á stóraukið eftirlit með Öræfajökli og með ánum sem eru þarna í kring, bæði vatnsmagni og leiðni, til að reyna að gefa okkur þó meiri tíma en mögulegt er því þetta fjall er afskaplega nálægt byggð,“ segir Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri á Höfn og formaður al­manna­varna­nefnd­ar sveitarfélagsins í Hornafirði.

Greint var frá því fyrr í dag að í ný­legu hættumati fyr­ir svæðið í kring­um Öræfa­jök­ul komi fram að tím­inn frá því að eld­gos næði til yf­ir­borðs á jökl­in­um og að flóð væri komið að þjóðvegi 1 væri í mörg­um til­fell­um aðeins 20 mín­út­ur.

Mikið af byggð í Öræf­um er inn­an þessa svæðis og því ljóst að við er að eiga einna erfiðustu aðstæður við eld­fjöll á Íslandi. Gerð rým­ingaráætl­ana fyr­ir þetta svæði hef­ur nú verið flýtt vegna þeirr­ar auknu virkni sem hef­ur verið í jökl­in­um síðustu daga. 

Björn Ingi segir stefnt á fund með Öræfingum um þessa nýjustu atburði  á næstu dögum og þá verði einnig fundur í almannavarnanefnd í vikunni. „Síðan verða líklega daglegir fundir með vísindamönnum og lögreglustjóra og fleirum.“

Björn Ingi Jónsson gerir ráð fyrir að funda með vísindamönnum …
Björn Ingi Jónsson gerir ráð fyrir að funda með vísindamönnum og lögreglustjóra daglega á næstunni. mbl.is/ Sigurður Bogi Sævarsson

Funda með Öræfingum

Spurður hve langan tíma hann telji það taka að gera rýmingaráætlunina kveðst hann vonast til að það skýrist á næstu dögum.   

„Þetta er allt á frumstigi, en við stefnum á fund með Öræfingum aftur um þessa nýjustu atburði og þá er þetta eitt af því sem þarf að ræða, því það eru 2-3.000 manns á svæðinu á góðum degi þó að íbúar Öræfasveitar séu ekki nema rétt um 100.“

Ekki þurfi þó endilega að taka svo langan tíma að útbúa rýmingaráætlun fyrir svæðið. „Það eru til rýmingaráætlanir fyrir eldgos og annað sem hægt er að nota til að sníða að aðstæðum þarna, þannig að menn eru vanir að vinna þessa vinnu og því á hún ekki að þurfa að taka neitt rosalega langan tíma.“  

Skoða fjölgun ferðamanna sérstaklega

Fjölgun ferðamanna á svæðinu sé þá eitthvað sem þurfi að skoða sérstaklega. „Þetta er eitt af því sem þarf að fara að skoða, hvort hægt sé að trappa áhættumatið og rýmingarnar eitthvað niður þannig að fyrsta stig væri kannski að reyna að koma í veg fyrir að fleiri færu inn á svæðið.“

Frá því að til­kynn­ing barst um tor­kenni­lega lykt við Kvíá og síðan sig­ketill myndaðist í öskju Öræfa­jök­uls und­ir lok síðustu viku hafa verið haldn­ir reglu­leg­ir fund­ir með ábyrgðaraðilum í sveit­ar­fé­lag­inu Hornafirði.

Fyr­ir um tveimur vik­um voru haldn­ir íbúa­fund­ir á svæðinu þar sem farið var yfir þau verk­efni sem fram und­an eru varðandi rým­ingaráætlan­ir og önn­ur viðbrögð sem nauðsyn­leg eru. Ekki hafði verið reiknað með að vinna við þess­ar áætlan­ir fyrr en seinni hluta næsta árs. Vegna þeirr­ar aukni virkni sem nú er staðreynd hef­ur vinn­unni hins veg­ar verið flýtt.

Björn Ingi segir þann fund hafa verið fyrsta skrefið í því að hraða vinnu við áhættumatið, en frummat Veðurstofunnar kom út fyrir um ári.

„Þegar menn fóru af stað aftur var þetta eitthvað sem varð að vinna. Það hafði ekki fundist skjálfti í Öræfasveit í ansi mörg ár, en síðasta ár er búinn að vera töluverður órói. Svo má kannski segja að þessir atburðir síðustu daga valdi því að við þurfum að hraða þessu ennþá meira.“

Enginn bær öruggur ef gýs

Spurður hvort aðstæðurnar veki íbúum ótta segist hann ekki skynja að svo sé.

„Ég myndi ekki segja að fólk fyndi fyrir ofsahræðslu en ég hef alveg fengið fyrirspurnir um hvort það verði gefin út rýmingaráætlun. Menn eru að hugsa um þetta jafnvel þó að þeir sofi kannski ekkert í fötunum eins og einn orðaði það í fréttum í gær.“

Áhættumatið  segir að enginn bær í Öræfasveit sé öruggur gjósi í jöklinum, en Björn Ingi segir menn engu að síður telja ólíklegt að gos komi upp alls staðar og allir bæir verði á sama tímapunkti í jafnmikilli hættu. „Það fer eftir því hvar hugsanlegt eldgos myndi brjóta sér leið upp á yfirborðið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert