Sjálfstæðismenn þrái að „spritta sig“ með VG

Helga Vala Helgadóttir skaut föstum skotum á aðra flokka í …
Helga Vala Helgadóttir skaut föstum skotum á aðra flokka í Silfrinu í morgun. mbl.is/Eggert

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, skaut föstum skotum á aðra flokka í þættinum Silfrinu á RÚV í morgun. „Auðvitað þrá sjálfstæðismenn að spritta sig með VG, reyna að þvo af sér allt jakkið undanfarin ár með hinum hreina og heilaga flokki VG.“

Helga Vala sagði það einnig mikilvægt fyrir þjóðina að Sjálfstæðisflokkurinn fengi frí til að kjarna sig í ljósi sögulega lágs fylgis flokksins.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem einnig var gestur í þættinum, gaf lítið fyrir myndlíkingu Helgu Völu og sagði að ekki þyrfti að spritta hana né félaga hennar í flokknum. Auk þess velti hún fyrir sér hvers vegna sá flokkur sem hefði fyrsta þingmann í öllum kjördæmum landsins þyrfti að fara í frí. „Samfylkingin getur talið sig vera hér að tala fyrir hönd þjóðarinnar en það er einfaldlega þannig að Sjálfstæðisflokkurinn er samt áfram stærsti flokkurinn í landinu.“

Ólarnar hertar á þingmönnum VG

Helga Vala hafði auk þess orð á því að mjög illa hefði gengið að fá þingmenn VG til að ganga í takt í síðustu ríkisstjórn sem þeir voru í, þegar hún var spurð hvernig hún héldi að VG myndi reiða af í fyrirhuguðu stjórnarsamstarfi VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. „Þar hlupu sex þingmenn VG út á mjög erfiðum tímum. Það var gríðarlega mikið verkefni sem Jóhanna  og Steingrímur voru í og þá voru það sex þingmenn úr þingflokki VG sem hlupu í burtu þegar á reyndi. Ég vona að það sé búið að herða ólarnar á mannskapnum.“

Auk Helgu Völu og Þórdísar Kolbrúnar voru í þættinum Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG, Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, Lilja Alfreðsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, og Ólafur Ísleifsson, þingmaður Flokks fólksins.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir svaraði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í þættinum.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir svaraði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í þættinum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert