Ný vefsíða minnir fólk á að fara í heimsóknir

Einar segir ættingja og vini oft duglega að fara í …
Einar segir ættingja og vini oft duglega að fara í heimsókn fyrst um sinn, en svo tínist úr hópnum. Mynd/wikipedia.org

„Er ættingi þinn eða vinur á sjúkrahúsi, hjúkrunarheimili, fangelsi, sambýli eða býr einn? Skipulegðu heimsóknir til hans, þjöppum fjölskyldu og vinum saman og dreifum ábyrgðinni, Enginn vill vera einn og yfirgefinn. Veitum ást hlýju og umhyggju.

Þannig hljómar kynning á nýrri vefsíðu, Heimsóknartími.is, þar sem boðið er upp á þjónustu til að halda utan um heimsóknir til vina og ættingja, fá áminningu um heimsóknir og hvetja aðra til að kíkja í heimsókn.

Einar Reynisson er umsjónaraðli síðunnar og þekkir það af eigin raun að heimsóknum fækkar gjarnan þegar fólk er komið inn á einhvers konar stofnun vegna veikinda eða aldurs. Sjálfur heimsækir hann reglulega tvo fjölskyldumeðlimi á sjúkrastofnanir og hefur gert síðustu ár. Hann hefur verið sá aðili í fjölskyldunni, ásamt systir sinni, sem hefur reynt að halda utan um heimsóknirnar.

„Við erum búin að standa í þessu lengi og það endar alltaf á þeim allra nánustu. Það er oft erfitt að fá fólk til að fara í heimsóknir nema með einhverjum stuðningi. Fólk vill oft gleymast þegar það er komið á langtíma hjúkrunarheimili, kannski með alzheimer, eins og við höfum verið að glíma við. Það þarf oft smá hvatningu fyrir fólk að fara í heimsókn. Það er nefnilega mjög mikilvægt að fyrir þetta fólk að fá heimsóknir og kannski ekki alltaf frá sama aðilanum. Að fólk sé ekki alveg gleymt og grafið.“

Tínist úr hópnum þegar tíminn líður

Einari fannst vanta svona þjónustu eins og síðan býður upp á og ákvað að prófa, þótt það væri ekki nema bara fyrir hans eigin fjölskyldu. Þá heldur hann úti annarri síðu á ensku með sömu þjónustu.

Hann hefur verið með þjónustuna í undirbúningi síðasta árið, en síðan er nýlega komin upp. Hann telur að þjónusta sem þessi hafi tvímælalaust jákvæð áhrif og hefur hann þá sína eigin reynslu að leiðarljósi.

Einar segir algengt að ættingjar og vinir séu duglegir að fara í heimsóknir fyrst um sinn, en svo tínist úr hópnum þegar tíminn líður.

„Fólk hugsar oft með sér að það séu örugglega aðrir sem fari, en það geta ekki allir hugsað þannig. Ég varð var við það hjá okkur. Við erum að búin að vera með tvo einstaklinga í tvö þrjú ár á sitthvorum staðnum. Þetta verður svona kvöð hjá einum eða tveimur í fjölskyldunni, þó það sé ljótt að segja það.“

Flestir vilja fara í heimsóknir

Hann segir utanumhald um heimsóknir gott tæki til að virkja fleiri í hópinn. „Það er hugsunin bak við þetta að reyna að virkja flesta. Ef allir eru skráðir inn og fá áminningu þá geta þeir fylgst með því hvað er langt síðan hver og einn fór. Svo færðu sjálfur áminningu ef þú ert ekki búinn að koma í viku eða tvær.“

Þegar einhver kaupir þjónustuna þá getur hann boðið öðrum að skrá sig inn á aðganginn eða þeir sótt um að fá aðgang. Fólk ræður því auðvitað hvort það er með í heimsóknarhópnum eða ekki. Einar segir flesta þó hafa áhuga á að heimsækja ættingja og vini, það vilji hins vegar oft gleymast í amstri hversdagsins og þess vegna sé stuðningur og utanumhald oft það sem þarf til að ýta við fólki. „Margir verða voða glaðir með að komast inn í svona pakka. Það er líka hægt að setja inn myndir og skrifa umsagnir um heimsóknirnar, hvernig líðan viðkomandi var þann dag, hvort hann vanti eitthvað og þar fram eftir götunum.“

Einar segist bara hafa fengið jákvæð viðbrögð við hugmyndunni og síðunni. „Það eru tveir læknar í fjölskyldunni og ég talaði við þá um hvernig best væri að gera þetta. Svo hef ég fengið hugmyndir frá hjúkrunarfólki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert