Björn Ingi sakaður um hótanir

Björn Ingi Hrafnsson.
Björn Ingi Hrafnsson. mbl.is/Árni Sæberg

Nýkjörin stjórn Pressunnar segir í yfirlýsingu að grunur leiki á um að eftir sölu á helstu eignum fyrr í haust, hafi kröfuhöfum verið mismunað og að misfarið hafi verið með fjármuni félagsins. Við það hafi lög verið brotin. Fjölmiðlamaðurinn Björn Ingi Hrafnsson er í yfirlýsingunni borinn þungum sökum.

Hluthafafundur meirihlutaeigenda í Pressunni var haldinn í dag fyrir atbeina ráðherra en fram kemur í yfirlýsingunni að ítrekað hafi verið óskað eftir hluthafafundi. Á dagskrá fundarins hafi verið umræða um kaupsamning Pressunnar við Frjálsa fjölmiðlum og kosning stjórnar.

Frjáls fjölmiðlun, í eigu lögmannsins Sigurðar G. Guðjónssonar, keypti helstu fjölmiðla Pressunnar í september á 600 milljónir króna.

Í yfirlýsingunni segir að stjórn Pressunnar, sem skipuð er þeim Matthíasi Björnssyni, Ómari R. Valdimarssyni og Þorvarði Gunnarsssyni, hafi undir höndum gögn sem sýni umtalsverðar skuldir við opinbera aðila, lífeyrissjóði og almenna kröfuhafa. Fráfarandi stjórn Pressunnar hafi ekki getað upplýst eigendur og nýja stjórnarmenn um hvernig félagið geti staðið við skuldbindingar sínar. Skuldirnar við tollstjóra nema 150 milljónum króna auk „umtalsverðra vanskila annarra kröfuhafa“.

„Handvaldar“ skuldir yfirteknar

Samkvæmt yfirlýsingunni var kaupverð Frjálsrar fjölmiðlunar greitt með yfirtöku á kröfu fráfarandi stjórnarformanns að upphæð 80 milljóna króna „auk yfirtöku á handvöldum skuldum félaganna þar sem Björn Ingi Hrafnsson er í persónulegum ábyrgðum.“ „Þetta ásamt öðrum atriðum, sem nánar verður gerð grein fyrir síðar, hefur gert það að verkum að legið hefur fyrir grunur um að ekki hafi einungis verið misfarið með fjármuni félaganna heldur hafi kröfuhöfum félaganna einnig verið mismunað í bága við lög.“

Fram kemur að fyrsta verk stjórnarinnar verði að kanna fjárhagsstöðu félagsins nánar og meta hvort gefa þurfi félagið upp til gjaldþrotaskipta. Þá þurfi að meta hvort vísa eigi einstökum þáttum til héraðssaksóknara, eins og það er orðað. „Skoðað verður sérstaklega hvort framkvæmdastjóri hafi nýtt fjármuni félagsins í eigin þágu.“

Vændur um hótanir

Fram kemur að Dalurinn ehf. eigi rúmlega 68% hlut í Pressunni og hafi lagt umtalsverða fjármuni til reksturs Pressunnar og tengdra félaga. Fullyrt er að Björn Ingi Hrafnsson hafi ítrekað haft í hótunum við stjórnarmenn Dalsins; hótanir þess efni að upplýsingum um stjórnarmenn Dalsins verði lekið í fjölmiðla. Þær upplýsingar séu „byggðar meðal annars á gögnum og röksemdarfærslum sem notaðar voru af Novator í tilhæfulausum málaferlum við sömu aðila.“

Í yfirlýsingunni segir að þetta, auk þess sem ítrekað hafi verið reynt að komast hjá því að halda hluthafafund, gefi til kynna að „fyrrum stjórnarmönnum og stjórnendum Pressunnar sé umhugað um að eigendur félagsins og opinberir aðilar komist ekki yfir fjárhagslegar upplýsingar.“

Ekki náðist í Björn Inga Hrafnsson við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert