Krefjast þess að karlar taki ábyrgð

Alþingi Íslands.
Alþingi Íslands. mbl.is/Eggert

Á fimmta hundrað stjórnmálakonur hafa sent frá sér sameiginlega áskorun þar sem þess er krafist að karlar taki ábyrgð og að stjórnmálaflokkar taki af festu á stöðu mála varðandi kynferðisofbeldi og áreitni í íslenskum stjórnmálum.

Þess er krafist að flokkarnir og starfsstaðir stjórnmálaflokks setji sér viðbragðsreglur, lofi konum því að þær þurfi ekki að þegja og að þær muni fá stuðning.

„Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með þeim jákvæðu viðbrögðum sem umræðan og áskorun hópsins hefur þegar kallað fram, en mikill einhugur ríkir meðal kvenna í hópnum, um að fylgja málinu fast eftir á komandi misserum. Nú er tími breytinga runninn upp,“ segir í tilkynningu.

„Til að halda umræðunni áfram, og fagna þeim áfanga samstöðunnar sem þegar hefur náðst, munu konur úr hópnum hittast víða um land, síðdegis í dag.“

Alls hafa 136 sögur verið birtar í hópnum.

Fram kemur í tilkynningu að undanfarna sex daga hafi rúmlega 800 konur sem eru og hafa verið virkar í stjórnmálum á  Íslandi rætt saman og deilt reynslusögum í lokaða facebookhópnum „Í skugga valdsins“ um kynjað starfsumhverfi stjórnmálanna.

Konurnar koma úr öllum flokkum, eru á ýmsum aldri og hafa starfað á flestum sviðum stjórnmálanna, á ýmsum tímum og um allt land.

„Einstakur samhljómur og samstaða hefur einkennt umræður í hópnum. Fjölbreyttar sögur kvennanna draga upp sláandi mynd af þeim karllæga heimi sem stjórnmálin eru – sögur um kynbundið ofbeldi, áreitni, valdbeitingu og þöggun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert