Fjarlægir járngirðingar vegna banaslyss

Lokað var fyrir umferð í báðar áttir um Miklubraut í …
Lokað var fyrir umferð í báðar áttir um Miklubraut í hátt í þrjár klukkustundir vegna bílslyssins á laugardaginn. mbl.is/Eggert

Vegagerðin ætlar að fjarlægja allar grófar járngirðingar meðfram götum eftir banaslysið sem varð á Miklubraut á laugardaginn.

Þá kastaðist maður út úr bíl og hafnaði á slíkri girðingu. Þetta kemur fram í svari Vegagerðarinnar við fyrirspurn RÚV.

Vegagerðin taldi áður girðingarnar vera öruggar.

„Vegagerðin hefur undanfarin ár unnið að því að annaðhvort setja vegrið beggja vegna við teina-girðingar eða skipta þeim út fyrir annars konar girðingar. Þessar girðingar hafa reynst vel við að koma í veg fyrir að gangandi vegfarendur fari yfir hættulegar og umferðarmiklar götur. Vegagerðin hefur hingað til talið að vegrið beggja vegna girðingar kæmi í veg fyrir að hætta stafaði af þeim fyrir akandi vegfarendur,“ segir í svari Vegagerðarinnar.

„Nú er ljóst að svo er ekki og því verður að endurskoða verklagið sem hefur verið viðhaft, hætta alfarið að nota þessar girðingar og taka þessar sem enn eru í notkun niður.“

Í svarinu kemur einnig fram að Vegagerðin hafi beint því til Reykjavíkurborgar vegna framkvæmdanna á Kringlumýrarbraut við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar í sumar að teina-girðingarnar yrðu ekki settar aftur upp. Einnig kemur fram að leitað hafi verið lausna erlendis en án árangurs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert