Ekkert mál haft jafnmikil áhrif á mig

Tómas Guðbjartsson.
Tómas Guðbjartsson. mbl.is/RAX

Í þrjú ár hefur plastbarkamálið minnt á sig á hverjum degi í lífi Tómasar Guðbjartssonar. Hann segir frá atburðarás og þeim tilfinningum sem málið hefur vakið. Það sé erfitt að kyngja því að hafa látið blekkjast.

Viðtalið, sem birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins, er birt í heild á mbl.is.

Fyrir sex árum vakti barkaígræðsla á erítreskum nema, Andemariam Beyene, við Háskóla Íslands heimsathygli. Hún var gerð á hinu virta Karolinska háskólasjúkrahúsi undir stjórn ítalska skurðlæknisins Paolo Macchiarini, en meðal þeirra sem tóku þátt í aðgerðinni var Tómas Guðbjartsson skurðlæknir. Aðgerðin var sögð tímamótaaðgerð en nú, sex árum seinna, er því haldið fram af íslensku rannsóknarnefndinni að Macchiarini hafi beitt blekkingum í aðdraganda hennar.

„Þegar litið er á heildarniðurstöðu skýrslunnar þykir mér afar mikilvægt að mörg veigamikil atriði, sem sumir voru búnir að reyna að tengja mig við í plastbarkamálinu – eiga ekki við rök að styðjast. En svo eru smærri atriði sem meira hefur verið einblínt á í fjölmiðlum: Af hverju gerðirðu svona en ekki hinsegin? Þó að ég hafi alltaf verið í góðri trú, með hagsmuni Andemariams Beyene að leiðarljósi, eru vissulega ýmis smærri atriði sem maður sér eftir á að hefði verið hægt að gera öðruvísi, ef maður hefði vitað hvernig málum var háttað. Það er auðvelt að vera vitur eftir á, ekki síst þegar maður sér loks heildarmyndina,“ segir Tómas Guðbjartsson.

Tómas vísar í viðamikla skýrslu íslensku rannsóknarnefndarinnar um plastbarkamálið. Tómas hefur ekki tjáð sig við fjölmiðla eftir að skýrslan leit dagsins ljós ef undanskilin er yfirlýsing sem hann sendi daginn eftir. Skýrsla nefndarinnar er sú ítarlegasta sem gerð hefur verið um plastbarkamálið og mun ítarlegri en allar þær skýrslur sem unnar hafa verið í Svíþjóð og birst hafa um málið. Höfundar íslensku skýrslunnar eru Páll Hreinsson, dómari við EFTA-dómstólinn, Georg A. Bjarnason, krabbameinslæknir í Kanada, og María Sigurjónsdóttir, sérfræðingur í geðlækningum við réttargeðdeild í Noregi.

Hlutverk nefndarinnar var að rannsaka mál Erítreumannsins Andemariams Beyene sem sendur var frá Íslandi til Svíþjóðar þar sem græddur var í hann plastbarki á Karolinska háskólasjúkrahúsinu og átti sérstaklega að skoða aðkomu Landspítala, Háskóla Íslands og starfsmanna þeirra.

Vel á annan tug sænskra rannsókna hefur þegar verið gerður á málinu. Þær hafa m.a. leitt í ljós að ekki var nægur vísindalegur grundvöllur fyrir ígræðslunni og að afla hefði þurft leyfis siðanefndar í Stokkhólmi áður en hún var framkvæmd. Það var hins vegar ekki gert af Macchiarini sem taldi sig ekki þurfa þess þar sem aðgerðin væri gerð þegar engin önnur úrræði væru til staðar. Íslenska nefndin komst að þeirri niðurstöðu að fyrirkomulagið sem sett var upp og unnið var eftir á Karolinska háskólasjúkrahúsinu og Karolinsku stofnuninni hefði mögulega brotið gegn 2. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

„Mín hugsun var allan tímann að greiða götu Andemariams að …
„Mín hugsun var allan tímann að greiða götu Andemariams að aðgerð sem gæti bjargað lífi hans ef þess væri nokkur kost-ur,“ segir Tómas Guðbjartsson sem hefur varið miklum tíma undanfarið með barnabarni sínu Hlyni Atla átta mánaða. mbl.is/RAX

Skilaði 5000 blaðsíðum

Málið er stórt og flókið en Tómas afhenti íslensku nefndinni hátt í 5.000 blaðsíður af ýmsum gögnum sem stuðst var við.

„Sömu gögn hafði ég áður afhent sænsku nefndunum sem leituðu til mín eftir upplýsingum.

Fyrir tveimur árum var mér orðið ljóst hve alvarlegs eðlis málið var – orðið að lögreglumáli. Ég fékk leyfi hjá lögfræðingum spítalans til að afenda gögnin. Mér fannst mikilvægt að þetta mál yrði upplýst og hafa allar sænsku nefndirnar þakkað mér framlag mitt, ekki síst fyrir skjal þar sem ég raðaði öllum gögnunum í rétta röð, svokallaða tímalínu. Þetta voru 8 þykkar möppur. Ég afhenti sænsku lögreglunni líka gögnin en þar hafði ég ekki stöðu sakbornings og hefði því getað neitað viðtali eða að skila inn til þeirra gögnum, sem aldrei hvarflaði að mér, enda hefur það verið mér mikið kappsmál að upplýst verði hvað raunverulega gerðist.“ Gögn Tómasar hafa verið talin lykilgögn í rannsókn lögreglunnar ytra og nú í nýrri skýrslu.

„Það er skrýtin tilfinning, nú þegar skýrslan er komin fram, að sjá að hún er fyrst og fremst byggð á þeim gögnum sem ég lagði fram. Það kom mér mjög á óvart að fleiri aðilar málsins hefðu ekki lagt fram sín gögn, að sjá ekki þarna tölvupósta annarra eða samskipti. Ég var vissulega mjög tengdur málinu en það var líka fullt af öðrum læknum og heilbrigðisstarfsfólki sem kom að meðferð Andemarians, bæði hér heima og í Svíþjóð. Þetta þótti mér afar sérstakt og ég setti það inn sem athugasemd við skýrsluna. Þær má sjá í viðaukanum sem fylgdi skýrslunni.“

Þú talar um stóru atriðin, sem skýrslan sýni að þú sért ekki tengdur við. Hvað áttu við með því?

„Alls kyns getgátur og vangaveltur eru þarna hraktar – ásakanir sem mér hafa verið þungbærar. Allt frá að því að hugmyndin að plastbarkaaðgerðinni hafi verið mín og ég hafi verið að taka þátt í einhverju plotti með Macchiarini. Það kemur líka skýrt fram að það var ekki einu sinni hugmyndin að ég yrði með í aðgerðinni, það gerðist á síðustu stundu út af manneklu í Stokkhólmi og vegna þrýstings hér heima. Ég flaug út kvöldið fyrir aðgerðina og mætti fyrst í aðgerðina þegar hún var rétt að hefjast. Það og margt annað er algjörlega hrakið.“

Paolo Macchiarini var ráðinn til að stýra skurð-teymi á einum …
Paolo Macchiarini var ráðinn til að stýra skurð-teymi á einum virtasta spítala heims, þrátt fyrirgagnrýni á hans fyrri störf. AFP

Áfellisdómur yfir vinnubrögðum Karolinska

Í skýrslu íslensku rannsóknarnefndarinnar, líkt og í sænsku skýrslunum, kemur fram það mat að það hafi verið á ábyrgð lækna Karolinska háskólasjúkrahússins að Andemariam var boðin þátttaka í tilraunameðferð, sem og allar ákvarðanir um skipulag aðgerðarinnar. Íslenskir læknar hafi hreinlega ekki verið hafðir með í ráðum. Þykja skýrslurnar áfellisdómur yfir vinnubrögðum Karolinska í þessu máli og í íslensku skýrslunni er jafnvel talið að brotið hafi verið gegn mannréttindum sjúklinganna. Mál saksóknara gegn Macchiarini var þó nýlega fellt niður í Svíþjóð, enda ekki talið sannað að aðgerðirnar hefðu stytt líf sjúklinganna eða önnur meðferð sannanlega reynst betur, þar á meðal í tilfelli Andemariams.

Milli okkar mynduðust sterk tengsl

Andemariam var námsmaður á Íslandi þegar hann veiktist alvarlega. Hann hafði áður fundið fyrir öndunarerfiðleikum á mótorhjólaferðalagi í Sahara og eftir komuna til Íslands leitaði hann til heimilislæknis sem taldi einkennin astma. Haustið 2009 kom hann inn á bráðamóttökuna og átti mjög erfitt með að anda, í ljós kom að Andemariam var með stórt æxli í berkju sem næstum lokaði berkjunni alveg. Gerð var aðgerð til að ná sýni úr æxlinu og reyna að minnka það, en þá kom gat á barkann en líka eina af stóru æðunum sem gengur út úr hjartanu. Á nokkrum mínútum blæddi honum út á skurðborðinu og við tók mjög flókin bráðaaðgerð.

„Ég var kallaður til sem hjartaskurðlæknir og opnaði brjóstholið á honum og hnoðaði hjartað með beinu hjartahnoði í rúmlega 20 mínútur uns hægt var að stöðva blæðinguna. Þetta var fyrst og fremst lífsbjargandi aðgerð og ótrúlegt að hann skyldi lifa hana af. Ég gat bara tekið hluta af æxlinu og varð að skilja stærsta hluta þess eftir. Andemariam fór síðan í þunga geislameðferð en veiktist aftur í byrjun árs 2011. Krabbameinið í barkanum hafði tekið sig upp og ekki hægt að beita frekari geislameðferð sem hefði skemmt nálæg líffæri. Þarna hafði ég ekki verið hans aðalmeðferðarlæknir en var þó alltaf á hliðarlínunni með félögum mínum á krabbameinsdeildinni.

Í skýrslunni er talað um að öll meðferð hans á Íslandi hafi verið mjög góð, fyrir og eftir aðgerðina í Svíþjóð, og orðað þannig að ég hafi farið langt út fyrir mínar starfsskyldur við að greiða götu hans. Mér þykir mjög vænt um það. Það eru ekki margir sjúklingar sem ég hef gert aðgerðir á sem hafa haft símanúmerið mitt og getað náð í mig dag og nótt, jafnvel þegar ég var í fríum eða í fyrirlestraferðum hinum megin á hnettinum. Stundum voru þetta einhver heilsufarstengd vandamál, en líka félagsleg mál eins og vandamál með húsnæði eða uppákomur tengdar tímabundnu landvistarleyfi hans. Annað fólk í kringum hann hér á landi var líka mjög hjálpsamt, t.d. hjá Jarðhitaskólanum og Háskólanum og mér fannst allir vilja gera allt til að greiða götu hans. Það er stór mannlegur þáttur í þessu, hann var vissulega fyrst og fremst sjúklingur minn en á sama tíma mynduðust á milli okkar vináttutengsl.“

Andemariam var vissulega í afar erfiðri stöðu, aðallega vegna þess að hann var með krabbamein á sérlega erfiðum stað í líkamanum, mein sem olli köfnunartilfinningu og var það sjaldgæft að það hafði ekki greinst áður í barka á Íslandi. Þar að auki var hann staddur hér á Íslandi, fjarri eiginkonu og börnum, í námi á vegum Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna á tímabundnu landvistarleyfi.

„Sem námsmaður hafði hann þó sama rétt og íslenskur ríkisborgari til allrar læknismeðferðar. En það var vissulega þannig að landvistarleyfi hans var framan af alltaf tímabundið námsmannaleyfi. Ég vann í því með honum fljótlega eftir aðgerðina að fá því breytt í langtímaleyfi af mannúðaraðstæðum. Það ferli tók næstum heilt ár. Í Erítreu geisaði borgarastyrjöld og lagt var hart að námsmönnum eins og Andemariam að þeir skiluðu sér aftur heim með nýja þekkingu eftir nám erlendis, en það var það sem Andemariam dreymdi sjálfan um allan tímann, að hann kæmist aftur heim til fjölskyldu sinnar í Erítreu. Hann áttaði sig þó á því sjálfur, sagði mér og fleirum, að í Erítreu væri ekki boði nein sérhæfð meðferð við jafn flóknum vandamálum og hrjáðu hann. Það reyndist því ekki raunhæfur valkostur að snúa aftur heim. Því hlutaðist ég til um það að fyrirtæki hér í bæ styrkti hann svo fjölskylda hans úti gæti heimsótt hann hingað. Þau komu hingað nokkrum mánuðum eftir aðgerðina en þá var hann í fyrsta sinn að sjá nýfætt barn sitt með berum augum. Það létti honum mikið lífið og hann hresstist bæði líkamlega en ekki síður andlega.“

Í skýrslunni segir ekkja Andemariams, Merhawit, að það sé skoðun hennar að Tómas hafi gert allt fyrir Andemariam sem í hans valdi stóð, allt til þess dags er Andemariam var síðast lagður inn á Karolinska háskólasjúkrahúsið í lok 2013, en hann lést vorið 2014. „Mér fannst ég ná mjög góðu sambandi við fjölskyldu Andemariams og hef reglulega fengið kveðjur frá ekkju hans, Merhawit, kveðjur sem ég hef metið afar mikils í þeim fjölmiðlastormi sem bráðum hefur staðið linnulítið í þrjú ár.“

„Enginn er fullkominn og ég hef lagt mikla áherslu á …
„Enginn er fullkominn og ég hef lagt mikla áherslu á það í minni kennslu sem prófessor í skurðlækningum. Ég segi alltaf að góður skurðlæknir sé sá sem horfist í augu við vandamálin þegar þau koma upp.“ mbl.is/RAX

Af hverju sinntirðu Andemariam langt umfram starfsskyldur?

„Mér hefur verið sagt að ég eigi til að taka hlutina dálítið langt sem læknir og sennilega á það einnig við um margt annað sem ég geri eins og áhugamál mín, t.d. fjallgöngur og umhverfisvernd. Sumir kollegar mínir segjast stundum dálítið hissa á hvað ég geng langt í að sinna sjúklingum mínum og það fékk ég oft að heyra með Andemariam. Í tilviki Andemariams kynntist ég honum við mjög sérstakar aðstæður, í bráðaaðgerð sem hann náði að lifa af. Ég, eins og svo margir aðrir, hreifst af viljastyrk hans, greind og persónuleika. Svo var hann að læra jarðfræði, pabbi minn er jarðfræðingur og félagar hans í kringum námið voru einnig kunningjar föður míns. Þannig að einhvern veginn mynduðust með okkur tengsl sem urðu að vináttu í tímans rás.“ Nefndin ályktar svo að vinátta þeirra hafi ekki haft áhrif á hversu góða meðferð Andemariam fékk en ekki sé hægt að útiloka að vegna vináttunnar hafi Andemariam staðið höllum fæti og veigrað sér við að láta í ljós við Tómas ef hann var mótfallinn einhverju.

„Ég á erfitt með að samþykkja það og finnst ósanngjarnt að ýja að því að ég hafi notfært mér vináttu hans mér til framdráttar. Andemariam var með greindari einstaklinum sem ég hef hitt, eldklár og aflaði sér upplýsinga um allt sem sneri að meðferð hans og stöðu mála almennt. Hann var líka óhræddur við að tjá sig ef honum mislíkaði eitthvað.“

Ráðinn þrátt fyrir gagnrýni

Þegar Andemariam veiktist aftur í byrjun árs 2011 voru engir meðferðarmöguleikar eftir á Landspítala. Ákveðið var að leita til sérfræðinga á Massachusett General Hospital í Boston, en þar eru einhverjir reyndustu læknar í heiminum á þessu sviði. Vegna kostnaðarsjónarmiða var ákveðið að Andemariam færi svo ekki þangað út í meðferð, en kostnaður við aðgerðir þar er umtalsvert hærri en í Svíþjóð. Ákveðið var að kanna hvort Karolinska háskólasjúkrahúsið teldi að hægt væri að bjóða upp á meðferðarmöguleika, enda höfðu þeir áður ráðlagt íslensku læknunum með geislameðferðina.

Í skýrslunni kemur fram hvað var að gerast í Svíþjóð á þessum tíma, hlutir sem ég vissi ekki um áður. Til dæmis að það var þá búið að stofna sérstakt teymi sem átti að vera á heimsvísu í barkaskurðaðgerðum, þjóna öllum heiminum með sjaldgæf vandamál. Macchiarini átti að verða lykilmaður í því að bjóða upp á meðferðir sem aðrir treystu sér ekki að sinna. Það kemur meira að segja fram í skýrslunni að sett var tímapressa á teymið, sem við vissum ekki af, en Macchiarini átti að vera búinn að afgreiða fyrsta sjúklinginn með ígræðslu barka í síðasta lagi þremur mánuðum eftir að hann væri ráðinn. En þegar við leituðum ráða í Stokkhólmi var jú hálft ár liðið og þeir ekki búnir að framkvæma neina slíka aðgerð.“

Samkvæmt skýrslunni snerist skipulagið m.a. um að gera tilraunameðferðir á sjúklingum, þar sem önnur sértæk meðferð væri ekki til. Notast átti við stofnfrumur í barkaígræði og styðjast við alþjóðlegar reglur sem veita leyfi fyrir slíkri meðferð í lífsbjargandi tilfellum, og kallast „compassionate use“. Þessi löggjöf hefur verið gagnrýnd og ábendingarnar fyrir meðferðinni taldar of loðnar. Þetta gat í löggjöfinni virtust menn ætla að nýta sér í Stokkhólmi. Í einni sænsku rannsóknarskýrslunni er leitt að því líkum að vegna þessarar tímapressu hafi teymið úti tekið allt of skjótar og ekki nægilega vandaðar ákvarðanir um meðferð Andemariams.

Macchiarini var þá að auki ráðinn sérfræðingur á Karolinska þó að fyrir lægju mjög gagnrýnar umsagnir um hann frá fyrri vinnuveitendum hans.

„Svar sérfræðinga á sjúkrahúsinu í Boston var að mál Andemariams væri afar flókið, allar meðferðir reyndar og það eina sem væri í boði væri í raun líknandi meðferð. Það var ekkert launungarmál að Andemariam var alls ekki sáttur við svarið. Fæstir væru líklega sáttir við slíkt svar, allir vilja jú lifa lengi, ekki síst ef maður þarf að sjá fyrir tveimur litlum börnum og maka. Á sama tíma er ég ekki að segja að menn eigi að grípa hvaða hálmstrá sem er. En starfsmenn Karolinska sögðust geta boðið upp á meðferð sem síðar kom í ljós að var byggð á veikum grunni.

Ég hafði aldrei séð svona krabbamein áður í barka, þrátt fyrir að hafa unnið á stórum spítölum bæði vestan hafs og austan. Við höfðum hreinlega ekki hugmynd um hversu langt Andemariam ætti eftir og hvaða meðferð væri best, þess vegna leituðum við ráða.“

Í svörum frá Karolinska sjúkrahúsinu kom fram að „hinn heimsfrægi“ skurðlæknir Paolo Macchiarini myndi skoða hvort hægt væri að hjálpa sjúklingnum. Macchiarini var þá hálfgerð rokkstjarna í skurðlækningum, fyrst og fremst fyrir að hafa nokkrum árum áður grætt nábarka, þ.e. barka úr líki, í mann. Úti var teymið mjög fljótt komið inn á það að setja Andemariam í gervibarkaígræðslu og Andemariam samþykkti aðgerðina. Tómas segist fyrst hafa frétt af ákvörðun um þessa aðgerð í gegnum Andemariam sjálfan en hann var þá staddur í þriggja daga ferð til Stokkhólms þar sem meta átti mögulega meðferðarkosti. Í þessari ferð átti ekki að gera aðgerð á honum, og þessi ákvörðun kom Tómasi því mjög á óvart.

Forsíða sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.
Forsíða sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.

Nefndin metur það svo að þú hafir gert þér grein fyrir að Macchiarini væri a.m.k. að velta fyrir sér barkaígræðslu og þig hafi mátt gruna að ígræðslan hafi átt að vera úr gerviefni miðað við tölvupósta.

„Mér var ekki ljóst að Macchiarini væri raunverulega að íhuga gervibarkaaðgerð. Við vorum jú að senda sjúkling út til Stokkhólms í rannsóknir og ekki strax í neina aðgerð, hann ætti að koma til Íslands á milli ferða og þá væri hægt að ræða meðferðarmöguleika við okkur læknana hér heima. Andemariam átti jú bara að skreppa út og koma aftur nokkrum dögum síðar. Þetta veit ég því það var ég sem lét ganga frá farseðlum hans. Læknum í Stokkhólmi bar þó strangt til tekið ekki skylda til þess að bera ákvarðanir sínar undir okkur þegar hann var kominn í þeirra hendur, og það var Andemariam sjálfur sem féllst á hugmyndina um plastbarkaígræðslu, og tók lokaákvörðunina.

Þarna fóru á milli óteljandi tölvupóstar og símtöl í aðdraganda þess að Andemariam fór út og meðan hann var úti, ég viðurkenni fúslega að suma þeirra las ég ekki nægilega vel og suma sendi ég hreinlega áfram á kollega mína án þess að lesa þá til enda. Þegar ég tók saman gögnin fyrir tímalínuna og las alla tölvupóstana, sá ég atriði sem ég hafði ekki rekið augun í áður. En af samskiptum mínum við læknana í Stokkhólmi sést greinilega að ég er samkvæmur sjálfur mér og er að senda sjúklinginn í þá meðferð sem ég hafði sótt um hjá Sjúkratryggingum Íslands og fengið samþykkta þar, þ.e. rannsóknir og mat á því hvort brottnám á æxlinu gæti komið til greina eða aðeins líknandi meðferð með leiserskurði. Á þessum tíma í maí 2011, var gríðarlegt vinnuálag hjá mér, próf hjá nemendum mínum sem bættust við óvenjumargar aðgerðir og tíðar vaktir. Á venjulegum degi fæ ég oft í kringum 100-150 tölvupósta og stundum getur verið snúið að afgreiða þá á milli aðgerða. Ég er ekki að afsaka þetta, ég er einfaldlega að útskýra af hverju ég áttaði mig ekki á fyrirætlunum þeirra í Stokkhólmi. Við lestur skýrslunnar og tölvupóstanna finnst mér reyndar nokkuð augljóst að ég átti aldrei að fá að vita of mikið um hvað stóð til og orðalagið í tölvupóstum var því e.t.v. haft frekar loðið viljandi.“

Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að ekkert í gögnum málsins benti til að Tómas hefði vitað að aðgerðin væri ólögleg.

Samkvæmt sænskri sjúkraskrá virðast þó ekki hafa verið uppi nein áform í Svíþjóð önnur en að skoða hvort íslenski sjúklingurinn væri tækur fyrir plastbarkaaðgerð og drífa í þeirri aðgerð ef svo væri. Þá er kannski komið að einu alvarlegasta atriðinu, þar sem öll gögn benda til að Macchiarini hafi vísvitandi blekkt Tómas í því skyni að koma aðgerðinni í gegn úti, með plaggi frá Tómasi.

„Það er fyrst í íslensku skýrslunni sem ég les þetta og ég hef aldrei sagt opinberlega að Macchiarini hafi vísvitandi blekkt mig. Skýrslan virðist þó afdráttarlaus hvað þetta varðar, t.d. hvernig Macchiarni telur mig á að gera breytingar á bréfi sínu um sjúkrasögu Andemariams, bréfi sem hann sagði mér að væri ætlað siðanefnd í Stokkhólmi.“ Tómas stóð í þeirri trú að það væri gert ef til aðgerðar kæmi svo í kjölfarið.

Í staðinn fyrir að spyrja í bréfinu hvort skurðaðgerð væri möguleg bað Macchiarini hann um að breyta þeirri línu í gildishlaðnari texta þannig að hún hljómaði á þá leið að eina von sjúklingsins um líf og lækningu væri fólgin í brottnámi æxlisins með öruggri skurðgerð, annaðhvort með hefðbundnum barkauppskurði eða ígræðslu án þess að plastbarki væri nefndur.

Macchiarini sendi þetta bréf hins vegar aldrei til sænsku siðanefndarinnar. Þess í stað taldi sænska læknateymið sig nú hafa undir höndum „rétta tilvísun“ eins og yfirlæknir á Karolinska háskólasjúkrahúsinu orðar það í bréfi til Macchiarini. Nú væri verjandi að vinda sér í að gera plastbarkaaðgerðina. Fyrst þurfti Andemariam þó að samþykkja aðgerðina, en það gerði hann að áeggjan Macchiarinis.

Nefndin telur þessa breytingu á tilvísuninni tæplega hafa verið í samræmi við læknalög, lækni beri að sýna varkárni og nákvæmni við útgáfu læknayfirlýsinga og vottorða. Var aldrei ástæða fyrir þig að draga í efa að það væri rétt að breyta orðalaginu í bréfinu? Og gruna eitthvað miðað við flýtinn á öllu?

„Jú, en gruna hvað? Andemariam var á þessu heimsfræga sjúkrahúsi og í höndum þessa mikilsvirta barkaskurðlæknis. Ég hef nagað mig í handarbökin eftir á, þegar mér er ljóst hvernig málum var háttað. En á þessum tíma virtist þetta ekki vera neitt nema eðlilegt ferli. Það er engin spurning að þetta var gríðarlega flókin aðgerð, sérstaklega vegna fyrri bráðaaðgerðar og geislameðferðar á æxlinu. Macchiarini var hins vegar þekktur fyrir áræðni og af öllum talinn sérlega tæknilega fær skurðlæknir. Þannig var mér nokkrum sinnum bent á af sænskum kollegum hans að hann hefði gert aðgerðir á ættingjum sænsku kongungsfjölskyldunnar, aðgerðir sem sænskir skurðlæknar treystu sér ekki til að framkvæma. Af hverju kviknaði ekki ljós á perunni hjá mér? Það er eitthvað sem ég á erfitt með sjálfur í dag en er raunin. En það verður líka að hafa hugfast að ég var ekki sá eini sem lét glepjast, heldur hundruð annarra kollega minna í Svíþjóð og víðar um heiminn, eins og allir vita sem hafa kynnt sér sögu Macchiarinis.

Ég skynjaði hreinlega ekki að þarna væri eitthvað misjafnt í bígerð og tilgangurinn virtist ekki vera annað en góður. Ég er fyrst að sjá það núna í þessari skýrslu að Macchiarini hafi notað þessa pappíra frá mér til að sannfæra yfirmann sinn um að við læknarnir á Íslandi teldum ekki aðra kosti í stöðunni en ígræðslu.

Það er langt frá því að ég sé fullkominn og það er ýmislegt sem ég hefði viljað gera öðruvísi í þessu ferli. En eins og bent er á fyrst í skýrslunni þá er þetta atburðarás sem átti sér stað fyrir löngu, eða fyrir rúmlega sex árum. Ég held að það sé almennt ekkert auðvelt að blekkja mig, ég er frekar var um mig. Almennt reyni ég samt að taka fólki vel og trúi að það vilji láta gott af sér leiða. Ég hef lært af þessu og ekki síður tel ég að þetta mál sé mikilvægur lærdómur fyrir yngri lækna á Íslandi sem og fyrir eldri og reyndari kollega mína líka. Að muna að jafnvel þótt maður sé í samstarfi við einn virtasta spítala og stofnun í heimi, stofnun sem útnefnir Nóbelsverðlaunin í læknisfræði, og háskólasjúkrahús stofnunarinnar, þá taki maður ekki hlutunum sem gefnum. Mín hugsun var allan tímann að greiða götu Andemariams að aðgerð sem gæti bjargað lífi hans ef þess væri nokkur kostur.“

Ósanngjarnar aðfinnslur við orðalag

Í Svíþjóð hafði Andemariam verið talin trú um að aðgerðin gæti læknað hann af krabbameininu og væri eina læknandi meðferðin í boði. Tómas fór út til að taka þátt í aðgerðinni og telur nefndin það ekki óeðlilegt þar sem hann hafði gert á Andemariam bráðaaðgerðina haustið 2009, og þekkti því sjúklinginn. Nefndin finnur að því að Tómas hafi í viðtölum haft villandi ummæli um þátttöku sína í aðgerðinni opinberlega, svo sem í fjölmiðlum. Þar hafi hann notað orðið „við“ um framkvæmd einstakra þátta, sem hann tók ekki þátt í. Það hafi síðar orðið til þess að óljóst var hver ábyrgð Tómasar var í aðgerðinni.

„Þetta hljómar kannski eins og hártoganir en ég var ótrúlega ósáttur við þessar athugasemdir, eins og að ég hafi notað orðið „við“ þegar ég var að tala um skurðaðgerðina í Kastljósi hálfu ári frá aðgerðinni. Þar er ýjað að því að ég hafi gert þátt minn í aðgerðinni stærri en hann var. Þáttur minn í þessari aðgerð var töluverður því ég var ekki bara í því að opna sjúklinginn heldur í því að ná krabbameininu út. Það var meiriháttar flókið og tók hátt í 8 klst. Ég er stoltur af því að við náðum öllu krabbameinu út. Ef sjúklingur kemur á göngudeild til mín, myndi ég segja við hann: „Svo tökum við röntgenmynd af þér,“ þótt ég taki ekki myndina persónulega. Í skýrslunni fæ ég ámæli fyrir að segja „svo tókum við slímhúð úr nefinu“, þótt læknir við hliðina á mér hafi gert það. Í skurðlækningum er einmitt reynt að vísa til teymisins í heild frekar en til einstaka skurðlækna, það hef ég áður gert í fjölda sambærilegra viðtala um aðrar aðgerðir sem ég hef framkvæmt. Ég er kannski að mikla þetta fyrir mér en mér finnst þetta afar ósanngjarnt.“

Tómas sótti Andemariam til Svíþjóðar til að fylgja honum heim eftir aðgerðina en eftirmeðferðin átti að fara fram á Íslandi. Hann var veikari en Tómas hafði talið að hann yrði eftir aðgerðina, en hresstist fljótt og heilsan varð ágæt fyrstu mánuðina. Þá tóku við vandamál sem settu strik í reikninginn. Samskiptin við Svíþjóð urðu stirð, oft reyndist erfitt að ná í Macchiarini og mikil vinna fólst í að fá upplýsingar og ráð frá Stokkhólmi, eins og læknabréf eða umsagnir um röntgenrannsóknir. Fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar að í öllum 10 ferðunum sem Andemariam fór til Stokkhólms fylgdu honum litlar sem engar upplýsingar eða læknabréf um þá meðferð sem hann fékk á Karolinska háskólasjúkrahúsinu og stjórnendur þar urðu sífellt tregari að taka á móti honum til meðferðar eftir því sem á leið.

 „Andemariam var reglulega sendur út til að koma í eftirlit til Macchiarini, enda var hann sá sem var ábyrgur fyrir aðgerðinni og átti að hafa yfirburða þekkingu á þessu sviði. Við vorum afar háðir því, sjúklings okkar og heilsu hans vegna, að helsti sérfræðingurinn á þessu sviði héldi góðum samskiptum við okkur um eftirfylgnina.

Þegar Andemariam kom til eftirlits í Stokkhólmi var Macchiarini stundum ekki einu sinni í Svíþjóð. Þetta gerði okkur afar erfitt fyrir. Ég hef ekki tölu á þeim símtölum og tölvupóstum sem ég sendi til að reyna að fá svör um hvaða meðferð hefði verið beitt eða hvernig við ættum að haga eftirliti á Íslandi. Meira að segja þegar ég kom út að sækja hann var ekki búið að útbúa nein gögn fyrir hann og ég þurfti því að ljósrita sjálfur öll sjúkragögnin. Svona reyndist þetta því miður einnig í framhaldinu.

Okkur læknum Andemariams á Íslandi fannst þetta gífurlega mikil ábyrgð sem á okkur var sett, sjúklingurinn var sendur til Íslands aðeins mánuði eftir aðgerð og samskiptin við þá sem stóðu fyrir aðgerðinni reyndust ekki eins og þau áttu að vera. Aðeins örfáir staðir í heiminum höfðu einhverja reynslu af meðferð þessa krabbameins og Macchiarini eini læknirinn sem grætt hafði barka í manneskju með þessum hætti. Í ágúst 2012 skrifaði ég bréf til Karolinska sem hefur verið kallað neyðarópið. Ég sendi bréfið á fjölda yfirlækna svo skilaboðin kæmust örugglega til skila. Þar var ég mjög hreinskilinn, skrifaði upp öll vandamálin, hvaða vandamál væru fyrirsjáanleg og að við þyrftum að fá hjálp frá Karolinska með þetta á Íslandi, samskiptaleysið gengi ekki.“

Hver voru viðbrögð Karolinska?

„Ótrúlega hæg. Stuttu seinna var Macchiarini settur út af sakramentinu þar, bannað að sinna sjúklingum og skera. Hann var þó áfram starfsmaður Karolinsku stofnunarinnar og stundaði rannsóknir við hana.

Hér heima reyndum við að gera okkar besta, ekki bara ég heldur allir á deildinni og allir velgjörðarmenn Andemariams. Hjúkrunarfræðingar á deildinni hlupu undir bagga þegar hann þurfti á sýklalyfjum að halda og svona mætti áfram telja. Og Andemariam náði góðum tíma um hríð þótt sá tími hefði mátt vera lengri.“

Hvernig horfir málið við þér út frá þætti Karolinska? Nefndin talaði um að það hefði orðið trúnaðarbrestur á milli Karolinska og Landspítala, líturðu sjúkrahúsið öðrum augum í dag?

„Það er ekki sanngjarnt að dæma allan spítalann út frá þessum samskiptum, enda margar deildir á þessu risasjúkrahúsi. En það er alveg ljóst að á þessum tveimur deildum sem við vorum að skipta við voru mál alls ekki í lagi og samskiptin engan veginn eins og þau áttu að vera. Ég hef aldrei unnið á þessum spítala en Karolinska telst jú á meðal fremstu háskólasjúkrahúsa í heiminum. Mér finnst þetta ekki bara lúta að ráðningu Macchiarini heldur líka hvernig hægt er að láta svona skipulags- og samskiptaleysi þrífast. Verst sýnist mér þó vera hvernig tekið var á málum innanhúss þegar ljóst var í hvað stefndi“.

Finnst þér þá Karolinska hafa sloppið létt?

„Ég er ekki rétti aðilinn til að setja mig í slíkt dómarasæti en það eru vissulega alvarleg atriði sem koma fram í skýrslunni. Þar virðast allir benda á einhvern annan og búið er að setja að ég held a.m.k. 15 nefndir í gang í Svíþjóð út af ýmsum öngum þessa máls. En þetta er vissulega ekki einungis innanhússmál Karolinska og snertir m.a. Ísland og Landspítalann. En það er ekki fyrr en núna alveg í lokin sem mér finnst ég hafa fengið þokkalega heildarmynd af því hvað var í gangi þarna úti.“

Tómas tjáir sig af varkárni um persónu Macchiarini, enda hefur Macchiarini og nánustu samstarfsmenn hans verið í viðvarandi málaferlum síðustu ár, ekki síst við þá sem þorað hafa að tjá sig.

Þegar heim er komið og Andemariam fer að koma fram í viðtölum og fjölmiðlum, upplifðirðu það aldrei að þú værir að þrýsta á Andemariam að koma fram í fjölmiðlum og á málþinginu í Háskóla Íslands ári eftir aðgerðina? Í skýrslunni kemur fram að hann hafi tæplega haft heilsu til að koma fram þar.

„Í hreinskilni þá fannst mér það aldrei, en ég viðurkenni alveg að þessi mörk geta verið óskýr. Hann kaus sjálfur að koma fram í fjölmiðlum og tók sjálfur beint við viðtalsbeiðnum eins og frá stóru fjölmiðlunum ytra, s.s. BBC og New York Times. Hann bar hins vegar oft undir mig hvort hann ætti að taka viðtölin. Í skýrslunni er talað um að ég hafi ekki latt hann til þess að fara í viðtöl og það er rétt. Við höfðum leitað ráða hjá fólki sem við treystum og töldum honum til góðs í því ferli að fá að vera áfram á Íslandi, enda var sú barátta ekki síður flókin og tímafrek en eftirmeðferðin eftir ígræðsluna. En engu sem ég stakk upp á við Andemariam tók hann sem gefnu, eins og varðandið málþingið. Hann var það viljasterkur persónuleiki.

Um leið litum við Andemariam líka svo á að málþingið væri dýrmætt tækifæri til að komast í meira samband við Macchiarini því hann átti að koma hingað til lands út af þinginu. Það var hægara sagt en gert. Þarna erum við að að takast á við mótlæti og flækjur, bæði með dvalarleyfið og að fá betri aðstoð frá Macchiarini og kollegum hans í Stokkhólmi.

Málþingið hafði verið skipulagt í meira en hálft ár og og ég held að ég geti fullyrt að við Andemariam tókum báðir þátt í því í góðri trú þótt einhverjum þyki sú ákvörðun í dag hafa verið misráðin. Andemariam hafði stuttu áður þurft að fara til Stokkhólms vegna bakslags sem hægt var að leysa þar með berkjuspeglun. Við ræddum það hvort við ættum að halda málþingið án hans, það hefði vel verið hægt en hann vildi það ekki. Það sést á myndum, og fleiri hafa bent á sem stóðu í kringum þetta, að þótt hann hafi fengið þetta bakslag hafi hann verið orðinn mun hressari og þetta var aðallega hans ákvörðun að kýla á málþingið. Mér hefur fundist mjög sárt að heyra þær getgátur í gegnum tíðina að ég hafi verið að troða vini mínum upp á svið mér til framdráttar.“

Á þessum tíma, árið 2012, voru siðferðislegir og lagalegir annmarkar á aðgerðinni ekki komnir í ljós. Hvort Tómas hafi í fyrirlestri sínum þar talað um fylgikvilla aðgerðarinnar og heilsufarsvanda sem Andemariam glímdi við gat nefndin ekki metið því upptökur voru ekki til.

Fórstu yfir vandamálin sem höfðu komið upp?

„Já, það gerði ég, enda vissi Andemariam sjálfur af öllum þeim vandamálum sem höfðu komið upp og hefði verið fáránlegt ef ég hefði haldið fyrirlestur á ensku fyrir framan hann og fjölskyldu hans og ekki sagt sannleikann. Eftir málþingið í háskólanum bað Andemariam mig um að koma upp á ÍSOR (innsk. blm: vinnustaður Andemariams sem sérhæfir sig í orkurannsóknum) og halda fyrirlestur þar um aðgerðina fyrir samstarfsfólk hans. Það var sama þar, það var ekkert verið að segja að þetta hefði verið frábær aðgerð og bara beina brautin. En það má heldur ekki gleymast að Andemariam náði góðum tíma um hríð fyrst eftir aðgerðina , hann lauk meistaranámi og hitti fjölskyldu sína, sem auðvitað var honum afar mikilvægt.“

Nefndin dregur ekki í efa að í huga Tómasar hafi málþingið m.a. verið í þeim tilgangi að hjálpa Andemariam. Það orki þó tvímælis að Tómas hafi verið milligöngumaður um að koma spurningalistum til Andemariams frá framleiðanda plastbarkans, Harvard Bioscience, sem var með fjölmiðlamann á málþinginu. Tómas hafi sett ámælisverða pressu á Andemariam við að aðstoða fyrirtækið við að svara spurningalistum.

„Eftir á að hyggja var það misráðið, og tilgangurinn alls ekki að auglýsa Harvard Bioscience, enda hafði ég engin tengsl við fyrirtækið og hafði engra hagsmuna að gæta. Ég setti heldur ekki pressu á Andemariam með spurningalista sem þeir höfðu sent okkur báðum. Ég spurði í tölvupósti hvort hann væri búinn að svara. Það var hins vegar misráðið að íslenskur fjölmiðlafulltrúi plastbarkaframleiðandans væri á þessu málþingi. Þetta vísindamálþing snerist jú ekki síst um stofnfrumur almennt og notkun þeirra í skurðlækningum.“

Greinin afdrifaríka

Lýsing á heilsufari Andemariams sem birtist í vísindagrein Macchiarinis í tímaritinu Lancet hafði ekki verið rétt eða nægilega nákvæm að mati skýrsluhöfunda. Meðhöfundar að greininni voru 28, þeirra á meðal Tómas Guðbjartsson og Óskar Einarsson. Tekið er fram í skýrslunni að Tómas hafi reynt að tóna niður hástemmdar lýsingar á bata Andemariams og lagt til að tekinn yrði meiri tími í að vinna vísindagreinina. Honum varð ekki ágengt í því.

Þegar þér er ljóst að þú fengir ekki hljómgrunn fyrir athugasemdir þínar, af hverju varð niðurstaðan ekki sú að segja þig þá strax frá greininni?

„Í dag er ljóst að ég hefði betur átt að draga nafn mitt af greininni en við vorum í erfiðri og flókinni stöðu – sem sennilega er erfitt fyrir fólk að skilja. Það er rétt að ég var ekki fyllilega ánægður með greinina og er það staðfest með fjölda tölvupósta í skýrslunni.

Ég mat það hins vegar svo að með því að segja mig frá frekari greinaskrifunum og draga nöfn okkar af henni hefði velferð sjúklings okkar getað borið skaða af. Páll Hreinsson, formaður nefndarinnar, lýsti þessari stöðu sem við vorum í ágætlega og sagði „að svona stöðu mættu læknar ekki lenda í.“ Að þurfa hreinlega að óttast að það komi niður á sjúklingnum að halda faglegum ábendingum til streitu. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að ég leit svo á að þáttur minn í greininni, sem fólst í að lýsa ástandi sjúklingsins fyrir aðgerðina, væri ekki það viðamikill og að Macchiarini væri höfuðábyrgur fyrir greininni. Þetta voru jú 28 höfundar, margir mjög virtir fræðimenn, og greinin því augljóslega samvinnuverkefni margra vísindamanna. Ég tek fram að mér fannst aldrei að ég hefði verið að falsa neitt eða beinlínis segja ósatt. En ég var ekki sáttur við sumt í greininni – en þannig er það jú oft þegar margir aðilar koma að stórum verkefnum. Ég tók ekki þátt í þessari grein til að efla heiður minn eða frama, enda var þáttur minn veigalítill. Ég hafði á þessum tímapunkti skrifað rúmlega 150 vísindagreinar og nú eru þær rúmlega 200, sem er allnokkuð fyrir lækni í fullu klínísku starfi. Ég hef aldrei áður fengið ámæli fyrir mín vísindastörf og nemendur mínir og samstarfsmenn í rannsóknum, sem skipta hundruðum, geta vitnað um þær miklu kröfur sem ég geri til sjálfs mín þar. Ég tel líka mikilvægt að benda á að eftir 26 ára feril sem skurðlæknir, þar sem ég hef aðallega sinnt hjarta- og lungnaaðgerðum, hef ég aldrei fengið ákúrur fyrir mín störf, hvorki hér á landi né í Svíþjóð eða Bandaríkjunum.

Við Óskar höfum komið því á framfæri, í byrjun þessa árs, að við vildum taka nöfn okkar sem meðhöfunda af greininni. Það gerðum við eftir að ég átti viðtöl við sænsku rannsakendurna, Asplund og Heckscher, sem komu hingað til lands í byrjun árs til að kynna skýrslur sínar. Þeir staðfestu að leyfi siðanefndar í Stokkhólmi hefði skort, jafnvel þótt Macchiarini hefði maldað í móinn og reynt að koma með leiðréttingar í Lancet. Eftir að hafa leitað ráðgjafar í Svíþjóð var mér tjáð að orðalag í greininni um útlit öndunarþekjunnar eða lýsing á einkennum sjúklingsins, sem gagnrýnt er í íslensku og sænsku skýrslunum, væru ekki nægilega haldbær ástæða til að segja sig frá greininni. En þegar það fékkst staðfest að leyfin hefði vantað taldi ég mig hafa traustari grundvöll til þess að taka skrefið. Það skrítna er að þótt nokkrum öðrum höfundum hafði áður verið leyft að segja sig frá greininni, að því er virtist án ástæðu, var bón okkar að hálfu Lancet hafnað og það án skýringa.“

Nefndin finnur að rannsóknum sem gerðar voru á Andemariam fyrir greinina í Lancet á Landspítalanum og segir að til dæmis hafi vantað samþykki sjúklings og leyfi vísindasiðanefndar. Þeir segja að þessi leyfi hafi þó ekki verið sniðgengin af þér af ásetningi – hvernig geturðu útskýrt það?

„Í fyrsta lagi stóðum við í þeirri trú að öll leyfi væru til staðar í Stokkhólmi. Það var jú tekið skýrt fram í greininni, en reyndist síðar ekki rétt. Eftir 10 ára setu í ritstjórn Læknablaðsins get ég með góðri samvisku sagt að á Íslandi hefur ekki verið venja að sækja um svona leyfi, þ.e. sem ná til eins sjúklings eða fárra. Ég er ekki þar með að segja að ég telji að þetta sé röng niðurstaða hjá nefndinni, en ég hafði ekki ástæðu til að áætla að verklagið væri með öðrum hætti. Þetta kemur líka skýrt fram í skýrslunni, þ.e. að mér hafi ekki gengið annað en gott til. En þetta er mikilvægt að hafa í huga fyrir framtíðina þannig að öllu regluverki sé fylgt og þessar reglur þarf klárlega að kynna betur meðal íslenskra lækna.“

Erfitt að hafa ekki getað tjáð sig fyrr

Nú kunna margir að spyrja af hverju þú rekur atburðarásina svona nákvæmlega fyrst núna. Af hverju ekki að tala fyrr?

„Stór hluti af vandamálinu hefur verið skortur á upplýsingum frá Svíþjóð. Fjölmiðlar hafa krafist svara þegar fréttir hafa birst um eitthvað sem við vissum hreinlega ekki nóg um og vorum að lesa í sömu fjölmiðlum og þeir. Ég hef líka verið bundinn af trúnaði gagnvart sjúklingi og þær reglur eru mjög skýrar, bæði á Íslandi og í Svíþjóð. Það er hins vegar hægt í gegnum þessa skýrslu núna að tjá sig því ekkja Andemariams gaf til þess leyfi sérstaklega.

En það hefur oft verið gríðarlega erfitt að geta ekki tjáð sig, ekki síst þegar rangar fréttir hafa ítrekað birst af málinu og sögusagnir farið af stað. Að þurfa að sitja undir einhverju sem var auðvelt að sýna fram á að stóðst ekki, en mega hreinlega ekki tjá sig. Ein þessara frétta var t.d. að Andemariam hefði í raun ekki verið með krabbamein í barka heldur aðeins sýkingu. Stundum finnst mér hafa skort á skilning fjölmiðla á hvað það getur verið erfitt fyrir okkur lækna að tjá okkur um málefni skjólstæðinga okkar.“

Ertu sáttur við skýrsluna?

„Páll Hreinsson er mjög vandvirkur maður og hið sama á við um læknana tvo sem unnu skýrsluna með honum. Þetta er afar ítarlegur texti og ítarlega farið í flest atriði þessa máls á næstum 300 blaðsíðum. Ég hef þó komið því á framfæri við nefndina að mér finnst hún of gildishlaðin og of mikið af vangaveltum um siðferðileg álitaefni. Einnig tel ég vera í henni atriði sem eru lögfræðilega umdeilanleg. Þetta álit hef ég fengið staðfest hjá lögfræðingum. Íslenski þátturinn er síðan bara eitt púsluspilið í þessu öllu en það kæmi mér ekki á óvart að það yrðu einhver eftirmál af henni í Svíþjóð.“

Finnst þér að þú hefðir getað gert hlutina öðruvísi?

„Enginn er fullkominn og ég hef lagt mikla áherslu á það í minni kennslu sem prófessor í skurðlækningum. Ég segi alltaf að góður skurðlæknir sé sá sem horfist í augu við vandamálin þegar þau koma upp. Það er auðvelt að taka við þakklæti fyrir aðgerð sem gekk vel, en það sést hversu góður læknir þú ert þegar þú lendir í flóknum tilfellum og mótlæti sem þeim fylgir. Þá verður ekki aðeins að sýna læknisfræðilega hæfileika heldur færni í mannlegum samskiptum. Ég held að Andemariam og fjölskylda hans geti borið vott um að ég hafi lagt mig allan fram í samskiptum við þau.“

Hvernig tilfinningar eru það sem hafa komið upp eftir allt þetta mál?

„Þær eru mjög flóknar og hafa reynt mikið á mig. Þetta snýst jú ekki um peninga, verðbréf eða eitthvað efnislegt. Þetta snýst um mannslíf og tilfinningar fólks sem á um sárt að binda. Þetta hefur verið mér sérlega erfitt vegna þess hve við Andemariam vorum tengdir. Ásakanir sem ég hef fengið að heyra um að ég hafi sent hann í tilraunaaðgerð til þess að öðlast sjálfur frægð, þær nísta djúpt.

Ekkert mál sem ég hef komið að á mínum læknisferli hefur haft jafnmikil áhrif á mig, bæði sem lækni og persónu. Þar skiptir líka máli að þetta hefur verið langt ferli, erfitt að geta ekki tjáð sig, vera ásakaður um að halda einhverju leyndu og jafnvel beinlínis ljúga. Þetta hefði e.t.v. verið mér eitthvað léttbærara ef ég hefði getað tjáð mig jafnóðum um það sem var að gerast.

Það hefur ekki liðið sá dagur í þrjú ár þar sem málið hefur ekki minnt á sig. Sumir segja nú að málinu sé lokið. Með hönd á hjarta, myndi ég fyrstur manna óska þess. Því miður er ég ekki sannfærður um að svo sé, en sjálfur hef ég ekki miklu við að bæta. Ég tel mig hafa gert allt sem í mínu valdi stendur til að upplýsa málið. Þetta mál hefur einnig haft mikil áhrif uppi á Landspítala og ekki síður á mína nánustu fjölskyldu og vini.

Persónulega hefur mér fundist erfiðust þau viðbrögð sem sumir kollegar mínir á spítalanum hafa sýnt mér og félögum mínum án þess að hafa í raun forsendur til að meta hvernig málið er vaxið. Ég vil þó taka fram að langflestir kollegar mínir og samstarfsfólk hafa sýnt mér ómetanlegan stuðning og hvatt mig áfram. En það eru líka læknar, jafnvel nánir samstarfsmenn, sem hafa verið gríðarlega dómharðir og látið stór orð falla opinberlega, oft án þess að kynna sér nægilega málavexti.

Það tók mig 7 klukkustundir sleitulaust að lesa skýrsluna en hún var jú fyrst birt samtímis ágætri kynningu Páls Hreinssonar. Kynningin var samt aðeins samantekt á helstu atriðum hennar og lítið komið inn á ýmsa hluti sem taldir eru mér til málsbóta. Samt virtust nokkrir kollegar geta staðið upp beint eftir kynninguna og farið í viðtöl við fjölmiðla með vægast sagt ásakandi ummæli í minn garð, og það án þess að lesa skýrsluna. Ég skil ekki á hvaða vegferð slíkir kollegar eru og ég upplifi þetta sem óeðlilega dómhörku, sérstaklega þegar forsendur sumra flókinna ákvarðana liggja ekki fyrir. Stundum upplifi ég að þessi dómharka hafi eitthvað með að gera hver ég er. Að ég hafi verið áberandi í fjölmiðlum í ýmsum málum, ekki síst tengt áhugamálum mínum eins og útivist og umhverfisvernd, auk þess að hafa tjáð mig endurtekið skýrt um Landspítalann og málefni hans, gagnrýnt húsnæðis- og mygluvandamálin og skort á fjármagni og starfsfólki.“

Greint var frá því að þú hefðir verið sendur í fjögurra vikna leyfi frá Landspítalanum samdægurs og skýrslan kom út. Hvað finnst þér um það?

„Það kom mér verulega á óvart að lesa í fjölmiðlum að ég hefði verið sendur í frí og að yfirlýsingin frá spítalanum hefði verið orðuð með þessum hætti. Ég sýndi því þó skilning að ég sé í leyfi á meðan ég svara atriðum í skýrslunni. Að því loknu stefni ég aftur í klíníska vinnu.

Samhliða vinnu og álagi sem hefur fylgt úrvinnslu skýrslunnar hef ég notað tímann og passað afastrákinn minn, Hlyn Atla, sem er 8 mánaða, og hef náð að kynnast honum náið þar sem hann býr í kjallaranum. Þegar mín börn voru lítil var ég alltaf á spítalanum sem nemi eða kandídat. Þetta er dýrmæt reynsla þótt tilefni þess að ég sé svona mikið heima við sé ekki endilega ánægjuleg.“

Tómas hefur líka notað tímann til að ganga frá bæklingi með myndum af fossum og sömuleiðis ráðist í prentun á fossadagatali. Þá stendur hann fyrir tónleikum með Jan Lundgren og Barbörukórnum í næstu viku, en þetta eru stærstu djasstónleikar af mörgum sem Tómas hefur skipulagt í gegnum árin.

„Í svona mótbyr er gott að sjá hverjir eru vinir manns og sem betur fer á ég fjölmarga slíka. Nánir vinir hafa staðið þétt við bakið á mér og einnig hafa gamlir vinir stigið fram og verið mér ómetanlegir og hjálpað mér að fókusera á allt aðra og skemmtilegri hluti.

Ég hef einnig náð að skoða sjálfan mig, en sennilega hefur mér stundum hætt til að vera sjálfur óþarflega dómharður í garð annarra, en hef lært á eigin skinni hvað það getur verið sárt. Ég er þó almennt bjartsýnn maður og trúi því að flestir hafi gott innræti og vilji vel. Annars væri ekki gaman að lifa.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert