Ákvað að hafa ást frekar en reiði

Elísabet Jökulsdóttir.
Elísabet Jökulsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held að almættið hafi komið því svo fyrir að við mamma vorum mikið saman þrjá síðustu dagana í lífi hennar. Þannig fannst mér mamma vera að segja „Ég elska þig“, en samband okkar mömmu í gegnum tíðina var stundum erfitt.

Mig langaði að miðla þessum síðustu dögum okkar mömmu áfram til systkina minna með því að gera litla bók handa þeim, en þegar ljóðin fóru að flæða óvænt fram af sprengikrafti núna í nóvember, þá ákvað ég að slá til og gefa út ljóðabók,“ segir skáldkonan Elísabet Jökulsdóttir um nýju ljóðabókina sína sem ber titilinn, Dauðinn í veiðarfæraskúrnum, en hún kemur út í dag.

Bókin fjallar um síðustu sjö dagana í lífi móður hennar, Jóhönnu Kristjónsdóttur, en hún lést í vor. Bókin fjallar ekki aðeins um dauðann og aðdraganda hans, heldur líka um ástvinamissi, tilfinningarnar sem fylgja því að kveðja þann sem stendur hjartanu nærri og hefur fylgt allt lífið.

Lífið er ekki svarthvítt

„Það er ekki auðvelt að missa mömmu sína, þó að hún sé komin á efri ár, en reyndar fannst mér mamma alltaf ung. Ekkert samband er eins náið og samband foreldris og barns, enginn elskar mann skilyrðislaust nema foreldrar, börn og Guð. Maður getur fyrirgefið foreldrum það sem maður getur kannski ekki fyrirgefið maka. Ég fann að ég fyrirgaf mömmu allt þegar hún dó, herbergið heima hjá henni þar sem hún lá dáin, fylltist af ljósi sem tók allt með sér.“

Elísabet segir að átökin á milli hennar og móður hennar hafi byrjað strax þegar hún var í vöggu.

„Mamma fór í fæðingarþunglyndi þegar ég fæddist, og þar byrjar sektarkenndin hjá henni, en þá vissu konur ekkert hvað þetta var. Kannski langaði hana að til henda mér út um gluggann, eins og maður heyrir að sumum konum hafi liðið í því ástandi. Fæðingarþunglyndi og alkóhólismi hafði mikil áhrif á samband okkar mömmu, en þegar mamma var vond við mig, þá var það ekki af því að hún væri vond manneskja, heldur var það meðvirkni, alkóhólismi og þunglyndi sem var þar að verki. Ég veit núna að þetta eru sjúkdómar. Og ég veit að lífið er ekki svarthvítt, ekki frekar en fólk.“

Sjá viðtal við Elísabetu Jökulsdóttur í heild í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert