„Góður fjölskyldufagnaður“

Kári Þór Jóhannsson selur skötu árið um kring á Ísafirði …
Kári Þór Jóhannsson selur skötu árið um kring á Ísafirði og hlakkar að vonum til Þorláksmessunnar. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

Senn líður að besta eða versta tíma ársins í matargerð á Íslandi, eftir því hver á í hlut, en það er Þorláksmessan. Þá er gjarnan tekið forskot á jólahátíðina og slegið upp veislu þar sem kæst skata og tindabikkja er borin á borð.

Skata og tindabikkja er öðru fremur hefðbundinn matur á Vestfjörðum og er gjarnan borin fram með bráðnum hnoðmör þar fyrir vestan en annars með snarkandi heitri hamsatólg. Kæst skata er bragðmikill og afar lyktsterkur matur svo ýmsum þykir nóg um.

„Ég passa mig þegar ég teygi mig ofan í skötukarið að fara ekki of langt því að annars kæmist ég aldrei upp úr því aftur,“ segir Kári Þór Jóhannsson, fisksali á Ísafirði, og hlær. „Þegar ég var unglingur og fór að vinna í frystihúsunum endaði ég oft í skötuvertíðinni, þannig að ég er búinn að vera í skötunni í um 40 ár. Tindabikkjan er aðallega kæst hérna fyrir vestan, hvítskatan og gráskatan er kæst og söltuð meira fyrir sunnan. Við skerum börðin af henni og setjum í ker og látum hana vera þar í tvær til þrjár vikur, en það fer eftir hitastiginu hvað hún tekur langan tíma að brotna niður. Svo er hún roðrifin, pökkuð í lofttæmdar umbúðir og fryst,“ segir Kári um það hvernig lostætið er verkað.

Sjá viðtal um verkun og vinsældir skötunnar í heild á baksíðu Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert