Á von á að það verði af verkfallinu

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Óskar Einarsson, formaður flugvirkjafélagsins segist frekar eiga von á því að af verkfalli flugvirkja Icelandair verði í fyrramálið.

Hann segir stöðuna frekar rólega en þegar spurt er að því hvort enn sé fundað í Karphúsinu svarar hann að aðallega sé enn beðið.

„Við erum eitthvað að skoða stöðuna bara. Það er verið að fara yfir það sem var lagt fyrir okkur fyrr í kvöld,“ segir Óskar. Hann segist ekki hafa hugmynd um hve lengi verði fundað, hvort það verði klukkutími eða klukkutímar. „Það er allavega ekki farið að sjá alveg í land.“

Þó Óskar búist síður við því að samningar náist áður en til verkfalls kemur segir hann stöðuna enn geta breyst.

„En maður veit aldrei,“ segir hann. „Við höfum tíma til sex.“

Hvort sá tími verði fullnýttur segir hann ráðast af sáttasemjara sem meti hvort hægt sé að byggja frekar upp í stöðunni.

Gunnar R. Jónsson, formaður samninganefndar flugvirkja, sagði klukkan ellefu í kvöld að enn væri setið á fundi og átti hann von á að samningamenn myndu sitja áfram um hríð.

„Við höfum enn eitthvað að ræða,“ sagði hann en tjáði sig ekki um hvort að auknar líkur væru á að samningar myndu nást. 

Engum flugum Icelandair hefur verið seinkað eða aflýst vegna yfirvofandi verkfalls enn sem komið er. Á heimasíðu Icelandair segir að þó svo að til verkfallsins komi sé „gert ráð fyrir að flugáætlun félagsins haldist að mestu óbreytt“ á morgun, sunnudag.

Á heimasíðunni segir að búast megi við næstu upplýsingum á miðnætti.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert